Skip to main content
7. maí 2018

Málþing og teiknimyndanámskeið tengt Andrési önd 

""

Námsleið í dönsku við Háskóla Íslands og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum standa fyrir tveimur viðburðum í vikunni þar sem samskipti Danmerkur og Íslands í gegnum teiknimyndasögurnar um Andrés önd verða í brennidepli. Annars vegar er um að ræða málþing um Andrésar andar blöðin og áhrif þeirra hér á landi og hins vegar námskeið í teiknimyndagerð fyrir börn og ungmenni með hinum þekkta danska teiknara Flemming Andersen. 

Viðburðirnir eru haldnir í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands og liðir í átta viðburða dagskrá sem boðið er upp á á árinu undir yfirskriftinni „Á mótum danskrar og íslenskrar menningar“. Þar er fjallað um efni sem borið hafa hátt í samskiptasögu landanna á síðustu öld. 

Miðvikudaginn 9. maí k. 15-17 verður málþingið „Andrés Önd á Íslandi – Danmörk sem gluggi Íslands að umheiminum“ í Veröld - húsi Vigdísar en þar munu þau Davíð Þór Jónsson, guðfræðingur og prestur, Søren Vinterberg menningarblaðamaður á Politiken og  Auður Jónsdóttir rithöfundur nálgast þessar geysivinsælu teiknimyndasögur frá ólíkum sjónarhornum og ræða þýðingu þeirra í samskiptum Íslands og Danmörku. Að erindum loknum verða umræður. Málþinginu stjórnar Auður Hauksdóttir, prófessor í dönsku og forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.

Dagskrá málþingsins

Danski teiknarinn Flemming Andersen kennir réttu handtökin við að teikna Andrés önd og félaga.

Fimmtudaginn 10. maí er svo komið að stuttum námskeiðum í teiknimyndagerð fyrir börn og unglinga en þau eru haldin í tengslum við málþingið. Það er hinn þekkti danski teiknari Flemming Andersen sem kennir réttu handtökin en hann mun segja þátttakendum frá helstu einkennum teiknimynda og leiðbeina þeim með hvernig hægt er að teikna þær á einfaldan og skemmtilegan hátt. Þátttakendum verður skipt upp í hópa eftir aldri og fær hver hópur leiðsögn í um klukkustund.

Námskeiðin á teiknimyndaverkstæðinu fara fram í Veröld - húsi Vigdísar. Námskeið fyrir 6-9 ára hefjast kl. 10 og 11 og námskeið fyrir 10 ára og eldri hefjast kl. 13, 14 og 15.

Skráning á námskeiðið fer fram á Tix.is:
 
 

Kápur af Andrésar andar blöðum