Skip to main content
13. janúar 2021

Lýðræði, neyðarvöld og popúlismi

Lýðræði, neyðarvöld og popúlismi  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Út er komin bókin Liberal Disorder, States of Exceptions, and Populist Politics í ritstjórn Vals Ingimundarsonar, prófessors í samtímasögu við Háskóla Íslands, og Sveins Mána Jóhannessonar, nýdoktors í sagnfræði við Edinborgarháskóla.  Það er Routledge-bókaforlagið sem gefur bókina út. 

Stjórnvöld um allan heim hafa í vaxandi mæli gripið til neyðarheimilda til að takast á við úrlausnarefni eins og stjórnmálaólgu, fjármálakreppur, farsóttir, hryðjuverk og náttúruhamfarir. Bókin fjallar um vandamál sem steðja að lýðræðinu og sjónum er beint að birtingarmyndum og samspili neyðarvalda, stjórnmálakreppu og popúlisma. Í bókinni beita fræðimenn á sviðum sagnfræði, stjórnmálafræði, heimspeki, bókmenntafræði og hagfræði þverfræðilegum aðferðum til að nálgast efnið út frá sögulegum og samtímalegum þáttum.

Áhersla er lögð á tvennt: Annars vegar er leitast við að setja pólitískt neyðarástand, þar sem lögvarin réttindi víkja fyrir neyðarvöldum hins opinbera, í hugmyndalegt samhengi, eins og tæknibreytinga. Auk þess er rýnt í kenningar um „undantekningarástand“ (e. states of exception), m.a. í tengslum við valdheimildir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Hins vegar er fjallað um togstreituna milli lýðræðis annars vegar og popúlisma og valdboðshyggju hins vegar og þær kennilegu, verklegu og hugmyndafræðilegu spurningar sem hún vekur. Í því sambandi er einnig vikið að hugmyndum um korporatisma og áhrifum þeirra á stjórnmála- og efnahagsþróun. 

Auk þeirra Vals og Sveins eiga tveir fræðimenn við Háskóla Íslands kafla í bókinni, þeir Jón Ólafsson, prófessor við Hugvísindasvið, og Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði. Aðrir kaflahöfundar eru: Nadia Urbinati (Columbia-háskóla), Peter Hitchcock (City University of New York [CUNY]), Hans Köchler (Innsbruck-háskóla), Jennifer N. Ross (Toronto-háskóla) Juan Vincente Sola (Háskólanum í Buenos Aires) og Alexandra S. Moore (Binghampton-háskóla). 

Út er komin bókin Liberal Disorder, States of Exceptions, and Populist Politics í ritstjórn Vals Ingimundarsonar, prófessors í samtímasögu við Háskóla Íslands og Sveins Mána Jóhannessonar, nýdoktors í sagnfræði við Edinborgarháskóla.