Lög eftir Atla Heimi Sveinsson á Háskólatónleikum | Háskóli Íslands Skip to main content

Lög eftir Atla Heimi Sveinsson á Háskólatónleikum

22. október 2018

Ágúst Ólafsson, barítón, og Anna Guðný Guðmundsdóttir, píanó, munu flytja lög eftir Atla Heimi Sveinsson við þekkt ljóð eftir Stephan G. Stephansson á Háskólatónleikum þann 24. október næstkomandi. Tvö laganna verða frumflutt á tónleikunum.

Tónleikarnir verða í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefjast þeir kl. 12.30.

Enginn aðgangseyrir er að tónleikunum og allir eru velkomnir.

Atli Heimir og verkin á tónleikunum

Við verkalok er samið árið 2011. Hin lögin eru samin árið 2012, en það ár dvaldi Atli í Alberta í Kanada. Öll eru lögin tileinkuð hjónunum Adriana og Stephan V. Benediktson, en Stephan er afkomandi Stephans G. Stephanssonar.

Við verkalok hefur verið flutt áður en hin lögin verða frumflutt hér. Flytjendurnir hafa lokið við að hljóðrita þessi lög, auk verksins Rammislagur, einnig við ljóð Stephans G. Þau verða gefin út á geisladiski síðar á þessu ári. 

Atli Heimir Sveinsson fæddist í Reykjavík og ólst þar upp. Hann stundaði nám í píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Rögnvaldi Sigurjónssyni, lauk stúdentsprófi frá MR 1958, lokaprófi í tónsmíðum og tónfræði frá Staatliche Hochschule für Musik í Köln 1963, nam raftónlist í Hollandi 1964 og sótti Kölner Kurse für neue Musik 1965.

Atli var lengi kennari í tónsmíðum og tónfræðum við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hann var formaður Tónskáldafélags Íslands 1972–1983, formaður Norræna tónskáldaráðsins 1974–1976, sat í stjórn Bandalags íslenskra listamanna um skeið, sat í stjórn listahátíðar, sat í dómnefnd International Society for Contemporary Music 1973, Norrænna músíkdaga 1974 og International Gaudeamus Competition 1978 o.fl. Árið 1980 stofnaði hann Myrka músíkdaga.

Atli hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 1976 fyrir flautukonsert sinn og L'ordre du merite culturel, pólsk verðlaun, árið 1978. Hann hefur haldið fyrirlestra og verið gestakennari við erlenda háskóla. Hann er félagi í Konunglegu sænsku tónlistarakademíunni.

Atli er í hópi virtustu tónskálda hérlendis. Hann hefur samið fjölda tónverka, t.d. einleikskonserta, hljómsveitarverk, kammerverk, og óperur og einleiksverk. Þá hefur hann samið tónlist fyrir leikhús. Atli nýtur heiðurslauna Alþingis.

Klettafjallaskáldið Stephan G. Stephansson

Þjóðskáldið Stephan G. Stephansson fæddist hinn 3. október árið 1853 á Kirkjuhóli í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði og var skírður Stefán Guðmundur Guðmundsson.

Hartnær tvítugur fluttist hann ásamt foreldrum sínum vestur um haf til að vitja betra lífs í Wisconsin í Bandaríkjunum. Þar vann hann meðal annars við lagningu járnbrautar og í skógarhöggi við erfið kjör.  Árið 1889 flutti hann svo til Alberta-fylkis í Kanada við rætur Klettafjalla og gerðist bóndi og höfuðskáld. Stephan G. hefur oft verið kallaður Klettafjallaskáldið en hann orti eins og íslensku skáldin flest um árstíðirnar og veðrið en þetta tvennt mótaði án efa líf fyrstu íslensku landnemanna á þessu svæði:  

Vestur í Kletta vorið senn
vetur grettan rekur.
Þá skal réttast úr oss enn
er það sprettinn tekur.

Stephan G. var bóndi við erfiðar aðstæður í Alberta og hafði lítinn tíma til annars en brauðstrits. Hann orti því öll sín bestu ljóð að næturlagi og er talsverð kaldhæðni í því að ljóðasafn hans nefnist einmitt Andvökur.

Þetta fræga þjóðskáld okkar í Vesturheimi gekk aldrei í skóla vegna fátæktar.  Hann nam hins vegar fjölmargt í hörðum skóla lífsins og las mikið. Þekkt er vísan hans „Baslhagmennið” sem lýsir vel lífsbaráttu Stephans G.:

Löngum var ég læknir minn,
lögfræðingur, prestur,
smiður, kóngur, kennarinn,
kerra, plógur, hestur.

Um flytjendur

Ágúst Ólafsson lauk MA-prófi í söng frá Síbelíusar akademíunni í Helsinki. Hann hóf atvinnuferilinn sumarið 2000 og hefur síðan sungið á tónleikum víða, t.d. í Filharmonie, Berlín, og Wigmore Hall, London, og unnið með ýmsum hljómsveitarstjórunum, m.a. H. Linttu, P. Sakari og P. McCreesh.

Meðal hlutverka hans hjá Íslensku óperunni eru titilhlutverkið í Sweeney Todd (2004), Papagenó, Skugginn í Flagara í framsókn eða Rake´s Progress og Belcore í Ástardrykknum sem færði honum Grímuverðlaunin sem söngvari ársins árið 2009. Hann flutti söngljóðaflokka Schuberts ásamt Gerrit Schuil á tónleikum Listahátíðar vorið 2010 og fyrir það hlutu þeir íslensku tónlistarverðlaunin sem flytjendur ársins. Ágúst vann einnig til íslensku tónlistarverðlaunanna sem söngvari ársins í sígildri og samtímatónlist 2013.

Á síðustu árum hefur Ágúst sungið hlutverk séra Torfa í Ragnheiði Gunnars Þórðarsonar, Papagenó í uppsetningu Töfrahurðar/Íslensku óperunnar á Töfraflautu Mozarts og hlutverk Fiorelló, Masetto og Angelotti í sýningum Íslensku óperunnar á Rakaranum í Sevilla (haustið 2015), Don Giovanni (febrúar 2016) og Toscu (haustið 2017).

Anna Guðný Guðmundsdóttir nam við Tónlistarskólann í Reykjavík og naut þá leiðsagnar Hermínu S. Kristjánsson, Jóns Nordals og Margrétar Eiríksdóttur. Áður var hún í Barnamúsíkskólanum hjá Stefáni Edelstein. Hún lauk Post Graduate Diploma við Guildhall School of Music.

Heimkomin hefur hún ýmsu sinnt, leikið kammertónlist, verið meðleikari og einleikari. Hún spilar reglulega á Listahátíð í Reykjavík og hefur líka leikið á tónlistarhátíðunum Reykjavík Midsummer Music og Reykholtshátíð. Hún er píanóleikari Kammersveitar Reykjavíkur, hefur ferðast með sveitinni víða og leikið inn á geisladiska. Alls hefur hún leikið inn á um 30 diska með ýmsum listamönnum.

Anna Guðný hefur auk þess leikið með Karlakór Reykjavíkur á vortónleikum í meira en tvo áratugi og leikur með hljómsveitinni Salon Islandus. Hún starfaði við tónlistardeild LHÍ frá stofnun hennar 2001 til ársins 2005 þegar hún var fastráðin við Sinfóníuhljómsveitina. Í dag starfar hún einnig sem píanóleikari við Menntaskólann í tónlist. 

Anna hefur þrisvar sinnum verið tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna og hlaut þau árið 2008 sem flytjandi ársins.

Ágúst Ólafsson og Anna Guðný Guðmundsdóttir

Netspjall