Skip to main content
8. október 2020

Ljósi varpað á sjálfsögur í nýrri bók

Sögusagnir: Þrjú tímamótaverk og einu betur er titill á nýrri bók eftir Jón Karl Helgason, prófessor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Dimma gefur bókina út.

Verkið fjallar um skáldverk sem varpa ljósi á eigið eðli, tilurð sína eða viðtökur. Hefð er fyrir því að kalla þessi verk metafiction á ensku og sjálfsögur á íslensku en Jón Karl kynnir fleiri hugtök til leiks, svo sem sögusagnir og sjálflýsandi bókmenntir. Meðal þekktra erlendra verka sem tilheyra þessari hefð eru leikritið Sex persónur leita höfundar (1921) eftir Luigi Pirandello og skáldsagan Ástkona franska lautinantsins (1969) eftir John Fowles en í Sögusögnum er sjónum einkum beint að þeim þremur skáldum sem marka sjálfsöguleg tímamót hér á landi, strax um miðja síðustu öld, þá Sigurð Nordal með leikritinu Uppstigningu (1945), Elías Mar með skáldsögunni Eftir örstuttan leik (1946) og Gunnar Gunnarsson með skáldsögunni Vikivaka (1948). Síðasti kafli Sögusagna er helgaður skáldsögunni Turnleikhúsinu (1979) eftir Thor Vilhjálmsson.

Jón Karl Helgason hefur áður sent frá sér fræðirit um viðtökur íslenskra fornbókmennta, þjóðardýrlinga og íslenska menningarsögu tuttugustu aldar. Nýlega hafa komið út eftir hann bækurnar Echoes of Valhalla (2017) og National Poets, Cultural Saints (2017) en þá síðarnefndu skrifaði hann ásamt Marijan Dović. Þá er hann meðritstjóri bókanna Great Immortality: Studies on European Cultural Sainthood (2019) og From Iceland to the Americas: Vinland and Historical Imagination (2020).

Út er komin bókin Sögusagnir: Þrjú tímamótaverk og einu betur eftir Jón Karl Helgason, prófessor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.