Skip to main content
25. febrúar 2021

Lítil hugmynd sem kviknaði í HÍ orðin að lykilfyrirtæki í bóluefnadreifingu

Lítil hugmynd sem kviknaði í HÍ orðin að lykilfyrirtæki í bóluefnadreifingu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Íslenska fyrirtækið Controlant hefur á undanförnum vikum ratað reglulega í fjölmiðla en vörur þess gegna lykilhlutverki í vöktun á bóluefni Pfizer gegn COVID-19 sem dreift er um heimsbyggðina þessar vikurnar. Færri vita hins vegar að fyrstu hugmyndir að hug- og vélbúnaðinum sem er nýttur í vöktunina kviknuðu í Háskóla Íslands. Fyrirtækið, sem hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands í fyrra, hefur vaxið hratt á síðustu árum og horfur eru á frekari vexti að sögn þeirra Gísla Herjólfssonar og Erlings Brynjúlfssonar, tveggja af stofnendum og stjórnendum fyrirtækisins. Þeir gáfu sér tíma í afar annasömu starfi til þess að svara nokkrum spurningum um fyrirtækið.

Hvenær og hvernig kviknaði hugmyndin að Controlant í Háskóla Íslands?

Við stofnendurnir erum fimm talsins, Atli Þór Hannesson, Erlingur Brynjúlfsson, Gísli Herjólfsson, Stefán Karlsson og Trausti Þórmundsson. Við Gísli og Erlingur kynntumst í gegnum nám okkar við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands. Trausti var leiðbeinandi okkar í verkefnum tengdum háskólanum og út frá því sambandi varð úr að við fórum að fikra okkur áfram við að nýta þráðlausa tækni við að leysa vandamál árið 2004. Atli og Stefán, æskuvinur Gísla, bættust í kjölfarið í hópinn og úr verður að við hefjum starfsemi fyrirtækisins árið 2007 og fyrsti starfsmaðurinn hefur störf í fullu starfi. Upphaflega vorum við að vinna að lausnum sem nýttu sér þráðlausa tækni í þeim tilgangi að gera ýmis konar mælingar einfaldar og sjálfvirkar - m.a. rauntímamælingar á loftþrýstingi í dekkjum á bílum og mælingar á þrýstingi, rakastigi og hitastigi í byggingariðnaðinum. 

Það var svo árið 2009 sem við förum inn á þá braut sem við erum á enn þann dag í dag sem er að þjónusta lyfjageirann með sjálfvirkum rauntímalausnum sem tryggja gæði lyfja með skráningu og eftirliti á hitastigi þeirra ásamt viðbragðsþjónustu. Það ár reið H1N1- eða svínaflensufaraldurinn yfir og okkar tækni var notuð til þess að verja og stýra dreifingu og hýsingu á bóluefninu á Íslandi.

Hverjar voru helstu áskoranirnar á fyrstu árum fyrirtækisins?

Helstu áskoranirnar til að byrja með voru almenn þróun á vörunni okkar ásamt því að finna rétta markaðinn sem hentaði best fyrir hana. Eftir að hafa náð góðri fótfestu á innlendri grundu þá var það stór áskorun að koma vörunni okkar á framfæri á alþjóðavísu. Við þurftum að hafa töluvert fyrir því að komast inn fyrir dyrnar hjá mörgum af stærstu lyfjafyrirtækjum heims. Það má segja að sú vegferð hafi krafist mikillar þolinmæði og þrautseigju af hálfu stofnenda og starfsmanna fyrirtækisins þar sem geirinn var á fyrstu árum Controlant ekki tilbúinn í þær breytingar sem fólust í að nýta þráðlausa tækni og skýjalausnir við söfnun á mæligögnum og vöktun á varningi. Nú er öldin önnur og sífellt fleiri fyrirtæki í lyfjageiranum kjósa að nýta sér slíkar lausnir.

 Hvernig nýttist sú menntun sem þið öfluðuð ykkur í Háskóla Íslands við þróun hugmyndarinnar?

Nám í rafmagns- og tölvuverkfræði er krefjandi og má segja að ýmsir þættir námsins hafi nýst við mótun á þeim lausnum sem við bjóðum upp á í dag, meðal annars við þróun á vélbúnaði og úrvinnslu á gögnum. Einnig má segja að námið hafi undirbúið okkur vel til að takast á við þær fjölmörgu almennu áskoranir sem komið hafa upp frá því við héldum af stað í þessa vegferð og ómögulegt hefði verið að sjá fyrir. 

Við unnum að okkar lausn í þrjú ár samhliða námi þar sem við höfðum gott aðgengi að þeirri miklu þekkingu sem býr innan Háskóla Íslands. 

Hver mynduð þið segja að væri vendipunkturinn í sögu fyrirtækisins, þar sem þið sáuð að það gæti farið að blómstra?

Það má segja að vendipunktarnir hafi verið fleiri en einn. Sá fyrsti var árið 2009 þegar svínaflensan kom og farið var í að búa til bóluefni sem keypt voru til landsins og var fyrsta stóra verkefnið okkar í lyfjageiranum að vakta bóluefnin sem komu til landsins. Við náðum samningi við sóttvarnalækni um vöktun á öllum bóluefnageymslum landsins. Það var fyrsta skrefið inn í lyfjageirann og við sáum strax að það væri mikil þörf fyrir tækni sem vaktar ástand og gæði lyfja. 

Annar vendipunkturinn má segja að hafi verið árið 2018 þegar eitt af stærri lyfjafyrirtækjunum í heiminum kýs að innleiða lausnir okkar við vöktun á lyfjasendingum um heiminn. Þegar það gerðist förum við að komast á radarinn hjá öðrum stærri fyrirtækjum í geiranum. 

Þriðji vendipunkturinn er svo samningur okkar við Pfizer um vöktun á COVID-19 bóluefnum fyrirtækisins úti um allan heim.

Í hverju felast lausnir ykkar og í hvaða geira eru helstu viðskiptavinir ykkar í dag?

Okkar markmið er að tryggja öryggi sjúklinga og neytenda og minnka lyfja- og matarsóun í aðfangakeðjunni um 90%. Hug- og vélbúnaður Controlant tryggir gæði viðkvæmra vara í flutningi. Controlant gefur framleiðendum lyfja og matvæla rauntímaupplýsingar um hitastig og raka meðal annars sem fást með gagnaritum sem nýta sér nettengingar í gegnum farsímanet. Gögnin safnast því inn í miðlægt tölvukerfi okkar með sjálfvirkum hætti. Þar eru gögnin greind sjálfvirkt, viðvaranir sendar út til viðbragðsaðila ef hætta er á að varan muni skemmast og ákvarðanir um gæði vörunnar teknar. Við vinnum mikið með gögnin sem safnast í Controlant-kerfinu og bjóðum upp á ýmis tól til að gefa betri yfirsýn yfir stöðuna í dreifikerfinu, meta hagkvæmni í flutningum og greina hvað má betur. 

Okkar helstu viðskiptavinir starfa innan lyfja- og matvælageirans og framleiða og dreifa vörum víða um heiminn.

Hvernig hefur viðskiptamannahópurinn þróast á tíma fyrirtækisins?

Til að byrja með var viðskiptavinahópur okkar innanlands. Við höfum unnið náið með innlendum aðilum sem veita heilbrigðisþjónustu, og aðilum sem selja og dreifa lyfjum um landið. Það má líta á samstarf við suma af þessum aðilum sem mikilvægan hlekk í þróun á lausnunum okkar og Controlant sem fyrirtækis. Í dag koma lausnir Controlant að vöktun á flestum lyfjum sem koma til landsins. 

Eftir að við náðum fótfestu á Íslandi fórum við í útrás til Skandinavíu og síðar til Englands þar sem við seldum lausnir okkar inn í apótek, vöruhús og í lyfjadreifingu. 

Athygli okkar hefur á undanförnum árum beinst að Bandaríkjunum og stórum alþjóðlegum fyrirtækjum í lyfja- og matvælaiðnaðinum en vöxturinn þar hefur verið mikill þar á undanförnum árum.

„Okkar vegferð er gott dæmi um hvernig tækni og nýsköpun getur skipt sköpum í lífi fólks. Hvort sem það er með því að styðja við aðfangakeðjuna sem kemur lyfjum, bóluefnum og matvælum á áfangastað eða með því að stuðla að umhverfisvænni starfsháttum,“ segja þeir Gísli og Erlingur.

Nú fenguð þið Nýsköpunarverðlaun Íslands árið 2020. Hvaða þýðingu hefur það fyrir fyrirtæki eins og ykkar?

Það var okkur mikill heiður að fá Nýsköpunarverðlaun Íslands og erum við þakklát nýsköpunarsamfélaginu á Íslandi fyrir þessa viðurkenningu. Við erum afskaplega stolt af þeirri frábæru vinnu sem starfsfólk okkar hefur unnið til að gera Controlant-lausnina mikilvægan hlekk í starfsemi viðskiptavina okkar. 

Okkar vegferð er gott dæmi um hvernig tækni og nýsköpun getur skipt sköpum í lífi fólks. Hvort sem það er með því að styðja við aðfangakeðjuna sem kemur lyfjum, bóluefnum og matvælum á áfangastað eða með því að stuðla að umhverfisvænni starfsháttum. 

Hvaða þýðingu hefur það fyrir fyrirtækið að koma að vöktun á bóluefni Pfizer gegn COVID-19 og hversu mikil er hún?

Aðkoma Controlant er töluverð en til að mynda þá reiknum við með því að á árinu 2021 munum við vakta rúmlega milljón sendingar og er þar stór hluti tengdur dreifingu á COVID-19-bóluefninu. Við erum með samning við Pfizer um alþjóðadreifingu á bóluefni þeirra. Auk þessa þá vinnum með stórum lyfjakeðjum, flutningsaðilum og ríkisstjórnum að dreifingu bóluefnisins á alþjóðavísu. Til gamans má  geta að allt bóluefni sem kemur til Íslands er vaktað af Controlant. 

Fyrir 12 árum sáum við um vöktun á öllu H1N1-bóluefninu fyrir Ísland en í dag erum við að endurtaka leikinn með COVID-19-bóluefnið nema í þetta skiptið á heimsvísu. Við erum afskaplega stolt af okkar þætti í því verkefni. 

Hvernig sjáið þið fyrirtækið þróast næstu árin?

Við reiknum með miklum vexti á næstu árum innan okkar helstu markaða. Við höfum lagt áherslu á að herja fyrst og fremst á lyfjageirann og þar erum við að vaxa mjög hratt. En við sjáum fyrir okkur að sækja inn á matvælaiðnaðinn líka.

Þá erum við stöðugt að þróa vél- og hugbúnað okkar og komum til með að kynna hinar ýmsu nýjungar á næstu mánuðum tengdar þeirri þróun. Þróun á vörum okkar og möguleikum á að auka enn virði þeirrar þjónustu sem við veitum sem kemur til með að byggja að stóru leyti á úrvinnslu á gögnum og sjálfvirkri ákvörðunartöku. Þar sjáum við fyrir okkur að vöxtur okkar sem tæknifyrirtæki muni að miklu leyti liggja. Ljóst er að við munum þurfa að halda áfram uppbyggingunni á fyrirtækinu á komandi mánuðum og inni í þeim plönum er fjölgun á starfsmönnum sem sinna vöruþróun sem og á örðum sviðum innan fyrirtækisins.

Hvaða ráð hafið þið til nemenda og vísindamanna sem eru að hefja sinn feril sem frumkvöðlar eða langar að feta nýsköpunarbrautina?

Það sem kemur fyrst upp í hugann er mikilvægi þess að prófa stöðugt hugmyndir með markhópnum og að fá endurgjöf oft og snemma í ferlinu. Ísland er lítill markaður en hér eru boðleiðir stuttar og auðveldara að ná til lykilaðila hjá mögulegum samstarfsfyrirtækjum eða stofnunum þegar verið er að finna hentuga aðila til að vinna með í að móta vöru. Á sama tíma þarf að varast að sérmóta vöru að Íslenskum aðstæðum því reynsla okkar er sú að það sem virkar vel í umhvefinu hér á landi er ekki endilega að fara að virka eins úti í hinum stóra heimi. 

Frá afhendingu Nýsköpunarverðlauna Íslands fyrr í vetur. Frá vinstri: Ati Þór Hannesson, Stefán Karlsson, Gísli Herjólfsson, Erlingur Brynjúlfsson og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. MYND/Íslandstofa/Birgir Ísleifur Gunnarsson