Líkön varpa ljósi á jarðvegseyðingu á Íslandi frá landnámi | Háskóli Íslands Skip to main content

Líkön varpa ljósi á jarðvegseyðingu á Íslandi frá landnámi

15. maí 2018

Vísindamenn við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands hafa ásamt samstarfsfélögum við Lífvísindadeild Alberta-háskóla í Kanada og Landgræðslu ríkisins nýtt sérstök líkön til þess að lýsa þeim vistkerfisbreytingum sem orðið hafa á Íslandi allt frá því fyrir landnám. Líkönin nýtast jafnframt til spá fyrir um áhrif mismunandi landnotkunar á vistkerfi og geta stuðlað að sjálfbærri landnýtingu. Greint er frá niðurstöðum rannsóknanna í nýjustu útgáfu vísindaritsins Land Degradation & Development.

Að rannsókninni standa þær Isabel Barrio, rannsóknasérfræðingur við Líf- og umhverfisvísindastofnun Háskóla Íslands, og Ingibjörg Svala Jónsdóttir, prófessor við Líf og umhverfisvísindadeild skólans, ásamt vistfræðingunum Jóhanni Þórissyni, Bryndísi Marteinsdóttur og Kristínu Svavarsdóttur, sem öll starfa hjá Landgræðslu ríkisins, og David Hik, prófessor við Alberta-háskóla. 

Í grein þeirra, sem ber yfirskriftina „The sheep in wolf‘s clothing? Recognizing threats for land degradation in Iceland using state‐and‐transition models“ er bent á að sjálfbær landnýting krefjist góðrar þekkingar á starfsemi vistkerfa og þeim þáttum sem knýja virkni þeirra. Víða á Íslandi hafi orðið umfangsmikil gróður- og jarðvegseyðing sem rekja megi til samþættra áhrifa náttúrlegra ferla á borð við loftslag og eldvirkni og áhrifa mannsins frá landnámi með skógarhöggi og búfjárbeit. Lykilatriði fyrir árangursríka landnýtingu sé að greina þá þætti sem leiði til vistkerfisbreytinga, einkum í ljósi þess að við eigum miserfitt með að hafa áhrif á þessa þætti. 

Hægt er að nota hugmyndafræðileg líkön við að greina þá þekkingu sem er til staðar um viðkomandi vistkerfi og það hvaða þættir valda breytingum á kerfunum. Í rannsókn hópsins sem birtist nýlega í tímaritinu Land Degradation & Development voru notuð svonefnd ástands- og tilfærslulíkön (e. state-and-transition) til að lýsa vistkerfisbreytingum á Íslandi á þremur tímaskeiðum sem einkennast af mismiklum áhrifum mannsins, allt frá tímabilinu fyrir landnám og fram á okkar daga. Líkönin sýna möguleg vistkerfi, ástand þeirra, tilfærslur og þröskulda þeirra á milli og breytingar á þeim. Niðurstöður hópsins benda til þess að líkönin verði flóknari eftir því sem áhrif mannsins aukast. 

Hópurinn notaði jafnframt dæmi frá miðhálendi Íslands til að sýna hvernig beita má umræddum líkönum til að spá fyrir um áhrif mismunandi landnotkunar á vistkerfi. Þessi nálgun getur reynst gagnleg til að greina hvar okkur skortir frekari þekkingu með því að greina raunhæf markmið fyrir verndun og endurheimt gróðurs og jarðvegs. Líkönin geta einnig styrkt sjálfbæra landnýtingu og stuðlað að mikilvægum áhersluþáttum í landvöktunarverkefnum sem fara fram á vegum stjórnvalda.

rofabörð á Norðurlandi

Netspjall