Skip to main content
15. september 2021

Líflegar umræður kennara á Aurora-málstofu um þverfagleg hæfniviðmið 

Líflegar umræður kennara á Aurora-málstofu um þverfagleg hæfniviðmið  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í byrjun september heimsótti Kees Kouwenaar, fyrrverandi framkvæmdastjóri Aurora-samstarfsins og sérfræðingur í Aurora-hæfnisrammanum hjá Vrije Universiteit Amsterdam, Háskóla Íslands. 

Tilgangur heimsóknarinnar var að bjóða kennurum og kennsluþróunarstjórum innan HÍ að kynnast betur Aurora-samstarfinu og ræða hvernig Aurora-hæfnisramminn getur stutt háskólakennara í að efla þverfræðilega lykilhæfni nemenda sinna samhliða því að kenna inntak fræðigreinarinnar. Á málstofunni sköpuðust líflegar umræður um hvernig megi gera nemendum betur kleift að takast á við samfélagslegar áskoranir og fjölbreytt störf í kvikum og tæknivæddum heimi, í samræmi við áherslur HÍ26. Þátttakendur deildu ábendingum sínum um áframhaldandi þróun Aurora hæfnisrammann sem munu koma að góðum notum á næstu mánuðum. 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og forseti Aurora, fundaði jafnframt með Kees. Á fundinum var gjöfult samstarf Háskóla Íslands og Vrije Universiteit Amsterdam á undanförnum árum rætt en það hefur meðal annars skilað sér í umfangsmiklum stúdenta- og starfsmannaskiptum milli skólanna, aukinni alþjóðavæðingu náms og samtals 7 milljónum evra í styrk frá Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að dýpka og efla samstarfið milli Aurora-háskólanna sem hluta af European Universities Initiative

Þá óskaði rektor Kees til hamingju með verðlaun sem hann hlaut nýverið frá European Association for International Education (EAIE) fyrir framúrskarandi framlag til alþjóðlegs samstarfs á sviði háskólanáms. EAIE-samtökin eru stærsti vettvangur Evrópu á sviði þar sem starfsfólki háskóla og sérfræðingum gefst tækifæri til að skiptast á nýrri þekkingu og hugmyndum sem stuðla að árangursríkri alþjóðavæðingu.

Aðspurður segir Kees tilganginn með stofnun Aurora einmitt hafa verið þann að skapa traustan vettvang fyrir evrópska rannsóknarháskóla með sameiginleg gildi og markmið til að hjálpa hvorum öðrum við að ná enn betri árangri. „Mér leist strax vel á hugmyndina um stofnun Aurora því mér hefur alltaf fundist að alþjóðlegt samstarf ætti einnig að hjálpa háskólum, nemendum og kennurum að gera kjarnastarfsemi sína enn betri - ekki einungis vera viðbót við hana.“ 

„Mér leist strax vel á hugmyndina um stofnun Aurora því mér hefur alltaf fundist að alþjóðlegt samstarf ætti einnig að hjálpa háskólum, nemendum og kennurum að gera kjarnastarfsemi sína enn betri - ekki einungis vera viðbót við hana,“ segir Kees Kouwenaar, fyrrverandi framkvæmdastjóri Aurora-samstarfsins og sérfræðingur í Aurora-hæfnisrammanum hjá Vrije Universiteit Amsterdam. MYND/Kristinn Ingvarsson

Kees segir stuðninginn frá Evrópusambandinu hafa hjálpað til við að samþætta Aurora samstarfið enn betur inni í stefnur aðildarháskólanna. „Hluti af þeim ávinningi sem stuðningurinn frá Evrópusambandinu færir okkur er einnig áhættan og kostnaðurinn sem mun fylgja því að ná ekki þeim árangri sem við stefnum að á næstu árum innan Aurora. Viðurkenningin frá Evrópusambandinu hefur gert Aurora-háskólana sýnilegri og virtari bæði í heimalöndum sínum sem og í Evrópu og því mikilvægt að tryggja áframhaldandi fjármögnun með því að sýna fram á tilætlaðan árangur og viðhalda þessum góða orðstír sem getur opnað ýmsar dyr í framtíðinni.“ 

Varðandi þróun náms er Kees sannfærður um að Aurora-samstarfið muni reynast háskólunum gagnlegt á margvíslegan hátt. „Einkunnarorð Aurora eru „að læra með og af hvert öðru“. Að gera hlutina saman er lykilatriði til að nemendur, kennarar og aðrir starfsmenn háskólanna geti lært hvert af öðru, hvort sem það er í gegnum sameiginlegt nám, með því að bjóða nemendum upp á alþjóðlega reynslu, til dæmis í gegnum skiptinám og starfsnám erlendis, eða í gegnum starfsmannaskipti.“ 

Aðspurður hver hann vonist til að langtímaárangur af Aurora-samstarfinu og Aurora-hæfnisrammanum verði segir Kees svarið einfalt en afar metnaðarfull. „Ég vona að það muni skila þeim árangri að nemendur okkar við útskrift verði ekki aðeins búnir þekkingu á tilteknum fræðasviðum heldur búi einnig yfir almennari færni og því hugarfari sem þarf til að vera ábyrgir samfélagsmeðlimir og sýna frumkvæði í að gera samfélög okkar að betri stað til að búa á.“

Jón Atli Benediktsson og Kees Kouwenaar