Lestur er lykill að ævintýrum | Háskóli Íslands Skip to main content

Lestur er lykill að ævintýrum

23. nóvember 2017

„Lestur er lykill að ótal herbergjum sem geyma ótal margt. Í einu má örva ímyndunaraflið, í öðru er alls kyns upplýsingaforði. Við þurfum að opna dyrnar að þessum vistarverum með börnum okkar, leiða þau inn í nýja heima, hjálpa þeim fyrsta kastið en treysta þeim svo til að rata sjálf,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í setningarræðu sinni á ráðstefnunni Lestur er lykill að ævintýrum sem haldin var 18. nóvember síðastliðinn við Háskóla Íslands. Guðni fór yfir þróun læsis hér á landi og nefndi að lestrarkennsla hafi oft og tíðum verið harðneskjuleg en nú sé öldin önnur.

Aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar voru þrír reynslumiklir sérfræðingar á sviði læsis, þeir R. Malatesha Joshi, doktor í lestrar- og móðurmálskennslu við Texas-háskóla, Rannveig Oddsdóttir, doktorsnemi við Menntavísindasvið og sérfræðingur við Miðstöð skólaþróunar Háskólans á Akureyri, og Jenný Gunnbjörnsdóttir, aðjunkt við Háskólann á Akureyri.

R. Malatesha Joshi reið á vaðið og fjallaði um líkan sem hann og samstarfsmenn hans við Texas-háskóla hafa þróað til íhlutunar hjá börnum með lestrarerfiðleika. Líkanið ber heitið Componential Model of Reading (CMR) og byggist á vitsmunalegum, sálfræðilegum og vistfræðilegum þáttum í lífi lesenda.

Því næst greindi Rannveig Oddsdóttir frá mótun læsisstefnu með skólum á Eyjafjarðarsvæðinu. Fjallað var um hvernig stefnan mótaðist í samvinnu við fjölmarga aðila, hvaða hugmyndafræði um læsi lá til grundvallar og hvaða efni varð til og hvernig því er ætlað að styðja við starf kennara og nám nemenda.

Að lokum flutti Jenný Gunnbjörnsdóttir erindi þar sem sjónum var beint að beitingu samræðna í kennslu. Sú aðferð virðist stuðla að betri skilningi nemenda á því námsefni sem þeir kljást við og þar með betri námsárangri.

Auk aðalfyrirlestra voru á dagskrá tólf málstofur þar sem m.a. var greint frá gagnvirkum lestri, læsi í leikskólum, samstarfi við foreldra, viðhorfi barna til lestrar og ýmsum árangursríkum aðferðum í námi og kennslu. Auk þess voru kynningarbásar þar sem kynnt voru ýmis námsgögn og verkefni sem ætlað er að auka lestraráhuga barna. Hátt í tvö hundruð manns sóttu ráðstefnuna sem haldin var í samstarfi Menntamálastofnunar og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Mikil ánægja var með ráðstefnuna en í hópi þátttakenda voru sérfræðingar, fræðimenn og kennarar víða af landinu.

Hér má nálgast ágrip ráðstefnunnar.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, fór víða í setningarræðu sinni á ráðstefnunni Lestur er lykill að ævintýrum sem haldin var 18. nóvember síðastliðinn við Háskóla Íslands.

Netspjall