Skip to main content
21. október 2022

Lestrarþjálfun með leikjum eflir námsáhuga barna

Lestrarþjálfun með leikjum eflir námsáhuga barna - á vefsíðu Háskóla Íslands

Menntavísindasvið HÍ bauð til hádegisfundar miðvikudaginn 19. október með Heikki Lyytinen, sem er einn af helstu læsissérfræðingum Finna, en hann prófessor í þroskataugasálfræði við háskólann í Jyväskylä. Heikki var UNESCO formaður um læsi fyrir alla (2015-19 og 2019-2021) og hefur komið að starfsþróun og þjálfun kennara um allan heim.

Rannsóknir Heikki hafa einkum beinst að því að greina snemma lestrarröskun og þróa forvarnir og inngrip. Undanfarið hefur hann tekið þátt í að þróa appið GraphoGame sem er ætlað til þjálfunar í lestri. Appið er til á fjölda tungumála í AppStore og Google Play. Í erindi sínu sagði Heikki meðal annars frá appinu og útskýrði á hvern hátt leikjaformið nýtist til að virkja börn á fyrstu stigum í lestrarnámi sínu. Hann gaf innsýn í niðurstöður rannsókna sem sýna mikilvægi þess að þjálfa börn markvisst í að greina og tengja saman hljóð, bókstafi, orðhluta og orð. Heikki dró fram hve ólíkt það er milli tungumála hversu auðvelt eða erfitt er að læra að lesa. Finnska og íslenska eru til dæmis í auðveldari kantinum vegna góðrar samsvörunar milli hljóða og bókstafa.

Fundinn sóttu læsissérfræðingar og forystufólk í skólamálum og sköpuðust líflegar umræður eftir erindi Heikki m.a. um mikilvægi lestrarþjálfunar, mat á framförum barna í lestrarnámi og um tengsl lesfimi og lesskilnings.

Heikki Lyytinen er hér ásamt Hermundi Sigmundssyni, prófessor við Menntavísindasvið.