Skip to main content
11. nóvember 2019

Leikið á darabúku á Háskólatónleikum

Leikið á darabúku á Háskólatónleikum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Flutt verða þrjú verk eftir Áskel Másson á háskólatónleikum í Hátíðasal Háskóla Íslands þann 13. nóvember nk. Með Áskeli, sem leikur á darabúku, leika Elísabet Waage á hörpu, Guðni Franzson á klarínettu, Kristín Mjöll Jakobsdóttir á fagott, Sigríður Hjördís Indriðadóttir á flautu og Sigurður Halldórsson á selló. Þau eru öll félagar í Caput-hópnum sem telst meðal helstu flytjenda samtímatónlistar í Evrópu.

Tónleikarnir hefjast kl. 12.30. Enginn aðgangseyrir er að tónleikunum og öll eru velkomin.

Meðal þekktustu og afkastamestu tónskálda

Áskell Másson er meðal þekktustu og afkastamestu tónskálda okkar og eru verk hans á þriðja hundrað. Þar á meðal eru á fjórða tug hljómsveitarverka, nítján konsertar og fjórar sinfóníur. Kammerverk hvers konar skipa og stóran sess á verkalista hans, ópera, óratoría, strengjaverk, brassverk, slagverksverk, píanóverk, orgelverk, kórverk og tónverk fyrir söngrödd og píanó. Verkin hafa verið flutt af á þriðja tug stærstu og nafntoguðustu hljómsveita og hljómsveitarstjóra heims. Sumir þekktustu einleikarar samtímans hafa komið hingað og flutt tónlist hans með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Meðal þeirra eru t.d. Christian Lindberg, Evelyn Glennie, Roger Woodward og Colin. Slagverkstónlist Áskels er mikið notuð við kennslu og er skylduverkefni í mörgum tónlistarháskólum. Hún er einnig töluvert leikin í alþjóðlegum keppnum í hljóðfæraleik enda teljast verkin meðal frumkvöðlaverka.
        
Á þessum tónleikum leikur Áskel á hljóðfæri sitt, darabúku, í þremur verkum. Nýlega hélt Caput „portrett" tónleika með tónlist hans. Áður hafa slíkir tónleikar verið haldnir í Wigmore Hall og Barbican í London, í Muziekgebouw í Amsterdam og á PASIC-hátíðinni í USA en líka hér heima. Þá voru m.a. flutt sönglög hans.

Tónverkin þrjú

Þrjátíu diskar og plötur hafa komið út með tónverkum Áskels, m.a. hjá Chandos og Naxos. Editions BIM í Sviss og Íslensk tónverkamiðstöð gefa út nótur með verkum hans.

Seasons var skrifað 1987 fyrir tónleikaferð Norræna kvartettsins til Kína. Kveikjan að verkinu var ljóð um árstíðirnar eftir Lí Pó. Tónlistin lýtur þó alfarið eigin lögmálum og framvindu en hún er byggð á númeraröð sem stjórnar bæði hæð og lengd tóna verksins. Það er í fjórum stuttum köflum sem tengjast með litlum einleiksbrúm hljóðfæranna tveggja.

Twilight er í raun lítið ljóð eða kyrralífsmynd í tónum við ljóðið Hamar eftir Gest Þorgrímsson steinmyndaskáld. Eiginkona Gests, Rúna, las upp ljóðið og það tekið upp. Upplesturinn og tónlistin sem Bryndís Halla Gylfadóttir og Áskell fluttu hljómaði á yfirlitssýningu á verkum Gests í Hafnarhúsi árið 2000. Tónverkið hefur síðan lifað sjálfstæðu lífi og hafa Áskell og Sigurður Halldórsson t.d. flutt verkið í Hollandi og víðar.

Con Moto var skrifað fyrir tuttugu ára afmælistónleika Caput árið 2000. Að ósk hópsins var Áskell í nokkurs konar einleikshlutverki í verkinu. Vert er að vekja á því athygli að í einum kafla verksins leikur Guðni munnstykkislaust á bassaklarínettuna rétt eins og um ástralska didjeridoo-hljóðfærið væri að ræða.

Fimm frækin úr Caput-hópnum spila með Áskeli

Með Áskeli leika á tónleikunum fimm félagar úr Caput, Elísabet Waage, Guðni Franzson, Kristín Mjöll Jakobsdóttir, Sigríður Hjördís Indriðadóttir og Sigurður Halldórsson. Hópurinn hefur talsverða sérstöðu í íslensku tónlistarlífi; var formlega stofnaður árið 1988 og hefur frá upphafi sérhæft sig í flutningi samtímatónlistar. Fjölmörg íslensk tónskáld hafa skrifað verk fyrir Caput. 

Hópurinn hefur flutt og hljóðritað mörg meistarastykki eldri tónskálda en einnig frumsmíðar yngstu tónhöfunda. Hópurinn hefur tekið virkan þátt í tónlistarlífi Norðurlanda og Evrópu, farið í margar tónleikaferðir og hljóðritað verk norrænna og evrópskra tónskálda. Einnig hefur hann farið í tónleikaferðir til Japan, Kína, Bandaríkjanna og Kanada og ávallt flutt verk íslenskra tónskálda auk verka eftir erlend samtímatónskáld.  

Caput-hópurinn telst meðal helstu flytjenda samtímatónlistar í Evrópu og hefur haft það að leiðarljósi að kynna íslenska tónlist á alþjóðavettvangi. Hópurinn hefur tekið þátt í fjölda norrænna og alþjóðlegra samstarfsverkefna, komið fram á alþjóðlegum tónlistarhátíðum, t.d. Holland Festival, Gulbenkian Festival, Warsjárhaustinu o.fl. og hljóðritað tónlist fyrir mörg útgáfufyrirtæki, þ.á.m. BIS, Naxos, Deutsche Grammophon og Sono Luminus.  

"Áskell Másson"