Skip to main content
7. október 2019

Leggja til neyðaráætlun í umhverfismálum fyrir jörðina 

Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, er meðal höfunda neyðaráætlunar fyrir jörðina í umhverfismálum (e. Planetary Emergency Plan) sem Rómarklúbburinn (e. Club of Rome) svokallaði og The Potsdam Institute for Climate Impact birtu í september.  

Kristín Vala á aðild að Rómarklúbbnum en það eru alþjóðleg samtök sem eiga sér um 50 ára sögu og hafa það markmið að koma auga á mikilvægustu viðfangsefnin sem móta framtíð manna og meta hættur sem steðja að mannkyninu ásamt því að koma með lausnir til þess að takast á við þær áskoranir sem bíða þjóða heims. Samtökin hafa á síðustu árum einblínt á lausnir við þeim kerfisvanda sem mannkynið stendur frammi fyrir, þar á meðal að þróa nýja tegund efnahagskerfis sem byggist á því að ganga ekki á auðlindir jarðar en tryggja störf og nægar tekjur fyrir alla jarðarbúa – en á sama tíma vera innan marka jarðarinnar. Aðild að Rómarklúbbnum eiga um 100 leiðtogar á sviðum stjórnmála, viðskipta og vísinda. 

Í skjali sem Rómarklúbburinn og The Potsdam Institute for Climate Impact sendu frá sér á dögunum og nefnist Neyðaráætlun fyrir jörðina er hvatt til þess að lýst verði yfir neyðarástandi á jörðinni í ljósi þess að loftslagsbreytingar og eyðing lífkerfa gerist nú hraðar en vísindamenn hafi áður spáð. Efnahagslegur vöxtur, framleiðsla og neysla á jörðinni reyni mjög á þolmörk lífkerfisins og þá þurfi að koma í veg fyrir að hitastig á jörðinni hækki umfram 1,5°C frá því sem það var fyrir iðnbyltingu. 

Mikilvægt að bregðast hratt við á næsta áratug

Hópurinn leggur því mikla áherslu á afgerandi aðgerðir á næsta áratug til þess að snúa þróuninni við. Hann setur fram tíu markmið sem allar þjóðir geti sameinast um og hægt yrði að ná á þeim tíma. Meðal annars er lagt til að eyðing skóga verði stöðvuð og fjárfesting í skógrækt verði þrefölduð, aukið fé úr almannasjóðum og sjóðum fyrirtækja verði veitt til að reisa við lífkerfi sem standa höllum fæti, bæði í höfum og á landi, og að öll umbreyting votlendis, graslendis og sléttna í ræktarland verði stöðvuð og framlög til endurheimt þessara svæða þrefölduð. 

Þá tilgreina Rómarklúbburinn og The Potsdam Institute for Climate Impact tíu nauðsynlegar aðgerðir sem grípa þurfi til á sviði orkuskipta, breytingu heimshagkerfisins yfir í hringrásarhagkerfi og þróun samfélaga sem byggist á jöfnum rétti og velsæld (e. wellbeing) bæði fólks og umhverfis. 

„Árið 2018 varð ljóst að hlýnun jarðar mætti ekki fara fram úr 1,5°C en á sama tíma stefnir Parísarsáttmálinn á að halda henni innan 2°C  og þau loforð sem hafa verið gefin af ríkisstjórnum heims stefndu í 3,5°C . Nýjustu loforð koma okkur í 3,3°C þannig að það þarf miklu viðameiri aðgerðir til að byggja framtíð fyrir komandi kynslóðir. Þess vegna setti Rómarklúbburinn fram neyðaráætlun fyrir loftslagið (e. Climate Emergency Plan) í lok 2018 og síðan Planetary Emergency Plan með öðrum stofnunum og félagasamtökum nú í september,“ segir Kristín Vala. Hún bendir enn fremur á að þrjár ríkisstjórnir hafi nú lýst yfir neyðarástandi vegna hamfarahlýnunar en neyðaráætlanir vanti enn. „Við viljum ýta undir að þjóðir heims lýsi yfir neyðarástandi og setji sér metnaðarfull markmið til að tryggja það að hlýnun jarðar fari ekki yfir 1,5°C að meðaltali. Auk þess viljum við með þessu styðja við loftslagsverkföll unga fólksins út um allan heim.“ 

Að sögn Kristínar Völu hefur neyðaráætlunin verið kynnt á ýmsum fundum, þar á meðal á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York í september og innan Evrópusambandsins. Einnig hafa ýmsir meðlimið Rómarklúbbsins kynnt hana í sínum heimalöndum auk þess sem samstarfsstofnanir og félagasamtök hafa gert slíkt hið sama. Þá hyggjast aðstandendur neyðaráætlunarinnar vinna henni frekara fylgis á ýmsum alþjóðlegum ráðstefnum á árinu 2020, m.a. á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Neyðaráætlun í umhverfismálum fyrir jörðina má nálgast á vef Rómarklúbbsins.

Kristín Vala Ragnarsdóttir