Skip to main content
29. júní 2021

Launuð starfsþjálfun fyrir nemendur HÍ hjá Alvotech

Launuð starfsþjálfun fyrir nemendur HÍ hjá Alvotech - á vefsíðu Háskóla Íslands

Líftæknilyfjafyrirtækið Alvotech hefur í samstarfi við Háskóla Íslands sett á laggirnar starfsþjálfunarverkefni fyrir nýútskrifaða nemendur úr greinum eins og líffræði, efnafræði, lífefnafræði, lífeindafræði, líftækni og lyfjafræði. Markmiðið er að þjálfa einstaklinga fyrir framtíðarstörf innan líftæknilyfjageirans.

Um er að ræða fimm mánaða launaða starfsþjálfun sem hefst í september 2021. Fimm einstaklingar eru teknir inn hverju sinni og að starfsþjálfun lokinni mun þeim sem uppfylla kröfur þjálfunar bjóðast framtíðarstarf í gæðarannsóknardeild Alvotech (e. Quality Control).

Starfþjálfunin fer fram í samvinnu við rannsóknar- og þróunardeild fyrirtækisins (Analytical R&D) og felur í sér bæði fræðilega og verklega þjálfun. Þátttakendur öðlast hæfni í öllum grunnþáttum greiningarvinnu við þróun og framleiðslu líftæknilyfja. Í þjálfuninni felst: 

  • Kynning á efnagreiningaraðferðum.
  • Hagnýt þjálfun við notkun ýmissa tækja sem notuð eru við greiningar auk þjálfunar við notkun greiningaraðferða.
  • Ýmis verkefni, t.d. við að þróa umbætur á aðferðum, mæla sýni fyrir R&D auk þess sem kenndar verða gildingaraðferðir (e. validations).
  • Gæða- og gæðaeftirlitsþjálfun.
  • Kynning á almennu verklagi á rannsóknarstofum og við lyfjaframleiðslu.
  • Þjálfun í skráningu og meðferð gagna.  

Umsóknarfrestur er til 15. júlí 2021. Aðeins fimm einstaklingar verða teknir inn og hefst starfsþjálfunin þann 1. september 2021. Starfsþjálfunin fer fram í hóp á dagvinnutíma og um er að ræða jafngildi 100% starfs. Það getur því ekki farið fram samhliða námi nema það fari fram utan dagvinnutíma.  

Umsóknum skal skilað á ensku á vef Alvotech.