Skip to main content
19. desember 2019

Launabilinu lokað

""

Margrét Vilborg Bjarnadóttir, lektor í aðgerðagreiningu og tölfræði við Robert H. Smith viðskiptaháskólann í Maryland í Bandaríkjunum, var á dögunum valin háskólakona ársins hér á landi. Verðlaunin veitir Félag háskólakvenna árlega þeirri háskólakonu sem þykir hafa skarað fram úr og verið brautryðjandi á sínu sviði en það hefur Margrét sannarlega verið m.a. í gegnum sprotafyrirtæki sitt, PayAnalytics, sem þróað hefur hugbúnað til að ráðast gegn kynbundnum launamun. Margrét, sem státar af verkfræðigráðu frá Háskóla Íslands, sagði okkur frá fyrirtækinu og framtíðarplönum þess en rifjaði einnig upp árin í HÍ.

Margrét minnist áranna í Háskóla Íslands með hlýju en hún lauk BS-gráðu í véla- og iðnaðarverkfræði árið 2001 og hlaut þá hæstu meðaleinkunn sem gefin hafði verið innan verkfræðigreina skólans. Hún var ekki aðeins afburðanámsmaður heldur lét hún mikið að sér kveða í félagsstarfi og hagsmunabaráttu stúdentaí HÍ og var m.a. í framvarðasveit Röskvu í Stúdentaráði. „Þetta var afskaplega skemmtilegur tími. Ég kynnist mörg góðu fólki, bæði í verkfræðinni og í gegnum stúdentapólitíkina,“ segir hún. 

Hún segir aðspurð fjölmörg eftirminnileg atvik úr náminu. „Ef ég ætti að nefna eitthvað eitt atvik ætli það sé ekki þegar dr. Sigurður Brynjólfsson verkfræðiprófessor gengur inn í tölvustofu þriðja árs nema, þar sem við vorum „aðeins“ að quake-a (spila tölvuleikinn Quake), lítur á mig, segir: „Et tu, Brute?“ og gengur út,“ rifjar hún upp brosandi.

Úr Háskóla Íslands lá leiðin vestur um haf þar sem hún lauk doktorsprófi frá hinum virta MIT-háskóla í Cambrigde í Massachusetts en doktorsverkefni hennar hverfðist um gagnagreiningu, sem í dag er gríðarstórt og vaxandi svið. Tilviljun réð því að það svið varð fyrir valinu að sögn Margrétar. „Heimilislæknir prófessorsins míns í doktorsnáminu var ráðgjafi fyrir sprotafyrirtæki sem safnaði miklum heilbrigðisgögnum og út frá spjalli þeirra urðu gögnin að undirstöðu fyrir doktorsritgerðina mína. Viðskiptamódel fyrirtækisins, sem hét D2Hawkeye og var keypt skömmu eftir að ég lauk námi, gekk út á það að gera tryggingagögn aðgengileg í vafra en inn í lausnina skorti gagnagreiningarlag. Við unnum með þeim og byggðum spálíkön ofan á gögnin til að styðja við áhættureikna. Við hönnuðum líka gagnadrifin líkön, byggð á sömu tryggingargögnum, til að fylgjast með lyfjum á markaði og uppgötva sjaldgæfar hliðarverkanir hraðar en áður hafði þekkst,“ segir Margrét sem lauk doktorsnámi árið 2008. 

Að loknu námi færði Margrét sig yfir á vesturströnd Bandaríkjanna og starfaði við Stanford-háskóla í Kaliforníu um tveggja ára skeið en réð sig svo við Robert H. Smith viðskiptaháskólann í Maryland í Bandaríkjunum árið 2011 þar sem hún gegnir stöðu lektors í aðgerðagreiningu og tölfræði. 

„Það hefur gengið ótrúlega vel á Íslandi. Okkur hefur verið vel tekið og við höfum stækkað hratt og örugglega. Nú er áherslan á að aðlaga lausnina okkar að mismunandi markaðssvæðum. Hvert land hefur sínar áherslur og mismunandi löggjöf, jafnvel hvert fylki innan Bandaríkjanna. Þannig að það eru spennandi tímar fram undan,“ segir Margrét um PayAnalytics en hún kynnti fyrirtækið á fjömennum fundi Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands á dögunum. MYND/Engilbert Aron Kristjánsson.

Fjölmörg íslensk stórfyrirtæki nota PayAnalytics

Samhliða háskólakennslu og -rannsóknum hefur Margrét látið mikið að sér kveða innan nýsköpunargeirans og stofnaði sprotafyrirtækið PayAnalytics árið 2015. „Hugmyndin að fyrirtækinu kviknaði þegar framkvæmdastjóri hér í borg fór að spyrja hvernig hann ætti að loka nokkuð stóru launabili og fátt varð um svör. Ég stökk á tækifærið því þetta er drauma aðgerðarrannssóknarverkefni. Við höfum gögn um starfsmenn og getum beitt bestun til að ákvarða hverjir þurfa að fá hækkun og hve háa. Þetta var árið 2015. Við vinnum svo Gulleggið 2016 og höfum verið að síðan,“ segir hún.

Fyrirtækið hefur fengið fljúgandi start og nú nota yfir 50 fyrirtæki hugbúnaðarlausnina til að framkvæma launagreiningar, skoða áhrif launaákvarðana og ráðast á launabil kynjanna með aðgerðaráætlun og kostnaðargreiningu. Þeirra á meðal eru sum af stærstu fyrirtækjum landsins. Þá hlaut Margrét aðalverðlaun alþjóðlegs þings Heimssamtaka frumkvöðla- og uppfinningakvenna, GWIIN, fyrr á þessu ári. „Það hefur gengið ótrúlega vel á Íslandi. Okkur hefur verið vel tekið og við höfum stækkað hratt og örugglega. Nú er áherslan á að aðlaga lausnina okkar að mismunandi markaðssvæðum. Hvert land hefur sínar áherslur og mismunandi löggjöf, jafnvel hvert fylki innan Bandaríkjanna. Þannig að það eru spennandi tímar fram undan,“ segir hún.

Smíða lausn sem brúar launabil fólks af ólíkum uppruna

Það er sannarlega krefjandi að starfa bæði í akademíunni og innan nýsköpunargeirans og aðspurð hvernig þessi ólíku störf fari saman segir Margrét þau styðja hvort við annað. „Hingað til hefur gengið vel að tvinna þetta saman. PayAnalytics hófst sem rannsóknarverkefni, sem svo varð að viðskiptahugmynd og að lokum að sprotafyrirtæki. Við höfum skrifað tvær vísindagreinar, annars vegar um hvernig eigi að loka launabilinu og hins vegar um hvernig eigi ekki að loka því! Við erum svo með tvær aðrar í smíðum, aðra um hvernig við lokum fleiri en einu launabili í einu, þ.e.a.s. horfum á laun ekki bara út frá kyni heldur t.d. líka uppruna. Sú seinni snýst um það hvenær sé búið að loka launabilinu. Þar erum við að leika okkur með tölfræðina og skoða hvenær fyrirtæki og stofnanir geti raunverulega sagst vera búin að loka launabilinu,“ útskýrir hún.

Það er því óhætt að segja að Margrét og samstarfsfólk hennar beisli rannsóknir og nýsköpun í þágu mikilvægra samfélagslegra mála en hægt er að kynna sér starfsemi sprotafyrirtækisins á vefsíðu þess.

Margrét Kristín Sigurðardóttir, stjórnarkona í Félagi háskólakvenna, afhendir Margr­éti Vil­borgu Bjarn­a­dótt­ur, viðurkenningu sem Háskólakona ársins 2019.