Skip to main content
18. febrúar 2019

Langspilslúppa – Raftónlistarlegur baðstofugjörningur á háskólatónleikum

""

Meistaraneminn Eyjólfur Eyjólfsson, sem jafnframt er þekktur tenór hér á landi, flytur íslensk, ensk og frönsk þjóðlög, verk eftir Atla Heimi Sveinsson, Jórunni Viðar og sjálfan sig, á háskólatónleikunum miðvikudaginn 20. febrúar kl. 12.30. Eyjólfur leikur undir á langspil og eru allar útsetningarnar hans. 

Eyjólfur er meistaranemi í þjóðfræði við Háskóla Íslands og í lokaverkefni sínu fjallar hann um langspilið og notagildi þess í námi í grunnskóla. Á Vísindavef Háskóla Íslands er langspil talið íslenskt hljóðfæri og var það í notkun sennilega frá siðaskiptum og mest til loka 19. aldar. Það er auðvitað enn notað á okkar dögum við ýmis tækifæri, eins og á tónleikunum á miðvikudaginn, og það verður spennandi að fá að heyra tónlist leikna á þetta íslenska hljóðfæri.

Tónleikarnir eru í kapellunni í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefjast þeir kl. 12.30.  Eins og ávallt er enginn aðgangseyrir og öll velkomin.

Var fyrst hundurinn Spakur
Eyjólfur Eyjólfsson lauk burtfararprófi í flautuleik og söng frá Tónlistarskóla Hafnarfjarðar árið 2002. Þremur árum síðar lauk hann meistaraprófi og Postgraduate Diploma frá Guilhdall School of Music and Drama í London.

Fyrsta sviðsreynsla Eyjólfs var sem hundurinn Spakur í söngleiknum Kolrössu eftir Þórunni Guðmundsdóttur en nokkrum árum síðar þreytti hann frumraun sína í Íslensku óperunni sem Skáldið í Skuggaleik Karólínu Eiríksdóttur og Sjóns. 

Hann söng hlutverk Daða í frumflutningi óperunnar Ragnheiðar í Skálholti og á þjóðlagahátíðinni á Siglufirði söng Eyjólfur hlutverk Spóans í frumflutningi ævintýraóperunnar Baldursbrár eftir Gunnstein Ólafsson og Böðvar Guðmundsson. 

Virkur óratoríusöngvari 
Á erlendri grund hefur Eyjólfur farið með hlutverk hjá Opera North í Leeds, English National Opera í London og English Touring Opera. Eyjólfur er jafnframt virkur óratoríusöngvari og hefur tekið þátt í flutningi fjölda óratoría víða í Evrópu. Meðal tónleika má nefna ferðalag með barokkfiðluleikaranum Spissky og barokksveit hans og flutning á Mattheusarpassíu Bachs í Sant’ Ambrogio basilíkunni í Mílanó. 

Eyjólfur hefur sungið ljóðasöng t.d. með Dalton Baldwin, Eugene Asti og Rudolf Jansen og hann söng Vetrarferð Schuberts í samnefndu dansverki eftir brasilíska danshöfundinn Samir Calixto á Holland Dance Festival. Meðal nýrra verkefna Eyjólfs má nefna flutning á völdum kantötum eftir Bach með barokksveitinni Brák á sumartónleikum í Skálholti, langspilstónleika í Les Dominicains menningarsetrinu í Guebwiller og flutning á óperunni Þrymskviðu eftir Jón Ásgeirsson í tilefni af 100 ára fullveldisafmælinu þar sem hann fór með hlutverk Loka Laufeyjarsonar. Eyjólfur var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2013 sem söngvari ársins.

Langspilið í háskerpu
Á efnisskránni á næstu háskólatónleikum eru nýlegar útsetningar Eyjólfs á einsöngslögum og þjóðlögum fyrir rödd og langspil. Útsetningarnar voru sérstaklega unnar fyrir tónleika í röðinni Le Salon Volant í Louxor kvikmyndaleikhúsinu í París í mars í fyrra. Það sem einkennir útsetningarnar er notkun svokallaðrar lúppu. Langspilið er tengt við lítið og einfalt hljóðkerfi í gegnum lúppu en með henni er hægt að taka upp nokkrar rásir og þannig skapa einhvers konar langspilssveit. 

Raftónlistarbaðstofugjörningur
Lögin Fósturlandsins Freyja við ljóð Matthíasar Jochumssonar og Heimildaskrá við ljóð Eggerts Ólafssonar samdi Eyjólfur fyrir þjóðbúningahátíðina Skotthúfuna í Stykkishólmi. Lögin eru tileinkuð handverkskonunum í faldbúningafélaginu Faldafeyki. 

Langspilslúppa er spunaverk sem Eyjólfur þróaði fyrir tónleikana í París og verður frumflutt hér nú. Verkið er sérstaklega samið og þróað fyrir lúpputæknina en þar fær langspilið að hljóma eitt og sér en margfaldað með hjálp lúppunnar. Segja má að verkið sé raftónlistarbaðstofugjörningur,  gamalt baðstofuhljóðfæri í raftónlistarlegum búningi. 

Eyjólfur Eyjólfsson og langspil