Landslið Íslands í raungreinum taka þátt í netkeppnum | Háskóli Íslands Skip to main content
15. júlí 2020

Landslið Íslands í raungreinum taka þátt í netkeppnum

Landslið Íslands í efnafræði, eðlisfræði, líffræði og stærðfræði hafa undanfarnar vikur búið sig að kappi fyrir Ólympíuleika og önnur alþjóðleg mót í húsnæði Háskóla Íslands. Kórónuveirufaraldurinn kemur í veg fyrir að liðin geti haldið utan til keppni, eins og venja er, en þess í stað munu þau etja kappi við jafnaldra sína um allan heim í mótum sem fara fram á netinu.

Ólympíulið Íslands í umræddum greinum skipa þeir nemendur sem standa sig best í landskeppnum framhaldsskólanna sem fram fram á hverjum vetri. Löng hefð er fyrir því að landsliðin búi sig undir alþjóðlegar keppnir í húsakynnum Háskólans og njóta þau m.a. leiðsagnar kennara og nemenda við HÍ á undirbúningstímabilinu.

Ólympíuliðið í líffræði hefur hafið æfingar í Öskju en það er skipað þeim Kötlu Rut Róbersdóttur Kluvers, Kjartani Kristjánssyni, Maríu Guðjónsdóttur og Viktori Loga Þórissyni. Þau tryggðu sér sæti í landsliðinu með góðri frammistöðu í landskeppni framhaldsskólanna í líffræði í vetur og munu búa sig undir ólympíumótið undir leiðsögn þeirra Ólafs Patrick Ólafssonar, Sigríðar Rutar Franzdóttur, Þórhalls Halldórssonar og Arnórs Bjarka Svarfdal. Upphaflega átti ólympíumótið í líffræði að fara fram í Japan en vegna kórónuveirufaraldursins var ákveðið að færa það yfir á netið og fer það fram í ágúst.

Lið Íslands á Ólympíumótinu í stærðfræði árið 2020 er skipað þeim Andra Snæ Axelssyni, Arnari Ágústi Kristjánssyni, Bjarka Baldurssyni Harksen, Emil F. Thoroddsen, Karli Anderssyni Claesson og Kára Rögnvaldssyni. Þeir áttu að taka þátt í Ólympíumóti í Pétursborg í Rússlandi dagana 8.-18. júlí en mótið var fært yfir á rafrænt form vegna COVID-19. Áætlað er að keppnin fari fram í september og mun liðið þá halda á keppnisstað innanlands í grennd við höfuðborgarsvæðið og dvelja þar meðan á keppni stendur í 3-4 nætur. Liðsfélagarnir litu inn á rektorsskrifstofu á dögunum ásamt tveimur þjálfara sinna, þeim Jóhönnu Katrínu Eggertsdóttur og Álfheiði Eddu Sigurðardóttur.

Landslið Íslands í eðlisfræði, þeir Arnar Gylfi Haraldsson, Jason Andri Gíslason, Jón Valur Björnsson, Kristján Leó Guðmundsson, og Valdimar Örn Sverrisson, hafa búið sig undir mót sumarsins undir leiðsögn þeirra Viðars Ágústsonar, Matthíasar Baldurssonar Harksen og Ara Ólafssonar. Ólympíumóti ársins í eðlisfræði hefur verið frestað til næsta árs vegna COVID-19 en það átti að fara fram í Vilnius í Litháen. Landsliðið mun í staðinn taka þátt í Evrópumótinu í eðlisfræði sem fram fer í lok júlí en þetta er í fyrsta sinn sem Íslands sendir lið til þátttöku í því móti. Evrópumótið átti að fara fram í Rúmeníu en verður rafrænt og mun landsliðið hafa aðsetur í Háskólnum á meðan á keppni stendur á netinu.

Ólympíuliðið í efnafræði leit inn á rektorsskrifstofu á dögunum ásamt þjálfurum sínum, þeim Katrínu Lilju Sigurðardóttur og Má Björgvinssyni. Liðið skipa þau Örn Steinar Sigurbjörnsson, Kristín Sif Daðadóttir, Birta Rakel Óskarsdóttir og Baldur Daðason og hafa þau undirbúið sig fyrir Alþjóðlegu Ólympíukeppnina í efnafræði í VR II, húsakynnum HÍ, frá upphafi sumars. Upphaflega átti keppnin að fara fram í Tyrklandi en vegna COVID-19 fer hún fram á netinu í júlí. Liðið átti einnig að taka þátt í Norðurlandakeppninni í efnafræði, sem halda átti í Háskóla Íslands í sumar, en henni var aflýst af sömu ástæðum og fer hún fram hér á landi á næsta ári.

Ólympíuliðið í líffræði hefur hafið æfingar í Öskju. MYNDIR/Kristinn Ingvarsson
Landsliðið í eðlisfræði mun í staðinn taka þátt í Evrópumótinu í eðlisfræði sem fram fer í lok júlí en þetta er í fyrsta sinn sem Íslands sendir lið til þátttöku í því móti.
Ólympíuliðið í efnafræði leit inn á rektorsskrifstofu á dögunum ásamt þjálfurum sínum.