Landbúnaður ógn og skjól fyrir vaðfugla | Háskóli Íslands Skip to main content
29. janúar 2018

Landbúnaður ógn og skjól fyrir vaðfugla

Landbúnaður er ein helsta ógnin við lífbreytileika og hefur víða valdið verulegri hnignun í kjölfar mikillar aukningar landbúnaðarframleiðslu. Þetta kemur fram í grein eftir Lilju Jóhannesdóttur, nýdoktor við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi, og fleiri vísindamenn við skólann í hinu virta vísindatímariti Animal Conservation. Tímaritið er gefið út af Zoological Society of London. 

Í greininni er fjallað um tengsl íslensks landbúnaðar og vaðfuglastofna en Ísland er gríðarlega mikilvægt varpsvæði fyrir nokkra af stærstu vaðfuglastofnum Evrópu, m.a. spóa og heiðlóu.  

Í greininni kemur fram að landbúnaður hafi fylgt manninum frá ómunatíð og margar tegundir geti nýtt sér auðlindir eða ferla sem tengjast landbúnaði. „Landbúnaður á Íslandi er hlutfallslega umsvifaminni en víða í nágrannaríkjum og á Íslandi þrífast stórir vaðfuglastofnar í mósaík úthaga og landbúnaðarlands,“ segir Lilja.  „Rannsóknir hafa sýnt að íslenskir bændur hyggjast auka ræktun en til að spá fyrir um hver áhrif þess verða á þessa stóru stofna sem Íslendingar bera sérstaka ábyrgð á er nauðsynlegt skilja hvernig og hvort fuglarnir nýta sér landbúnaðarland.“

Rannsóknin sneri að því að skoða tengsl fugla og landbúnaðar og til þess var þéttleiki fugla mældur á 64 bæjum í þremur landshlutum, á Suður-, Vestur- og Norðurlandi.  Þetta var gert til að endurspegla breytileika í landslagi og frjósemi mismunandi landshluta. „Á hverjum bæ voru fuglar taldir á þremur athugunarsvæðum sem voru undir mismiklum áhrifum frá landbúnaði, frá ræktuðu landi yfir í  úthaga. Hver bær var heimsóttur tvisvar til að meta hvort fuglalíf væri mismunandi á hreiðurskeiði og ungaskeiði,“ segir Lilja.

Tómas Grétar Gunnarsson, sem er forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi og einnig einn höfunda greinarinnar, segir að mælingar á þéttleika fugla hafi sýnt að öll þrjú stig landbúnaðaráhrifa, frá ræktuðu landi yfir í úthaga, hafi sýnt mikinn þéttleika á heimsmælikvarða en almennt hafi þó þéttleikinn verið minni á blettum sem voru undir meiri áhrifum frá landbúnaði. „Á Vesturlandi, þar sem frjósemi úthaga er minni en sunnan lands og norðan, reyndist vera meiri þéttleiki á svæðum undir meiri landbúnaðaráhrifum.“ 

Þau Lilja og Tómas Grétar segja bæði að niðurstöðurnar bendi til þess að landbúnaðarframleiðsla og auðugt dýralíf geti farið saman, ekki hvað síst á minna frjósömum svæðum. „Einnig gæti þetta bent til þess að áhrif aukins landbúnaðar á lífbreytileika muni verða mismunandi eftir landshlutum. Það er leitun að sambærilegum svæðum og á Íslandi þar sem landbúnaðarhéruð standa enn undir stórum vaðfuglastofnum. Íslendingar eru aðilar að nokkrum alþjóðlegum samningum á sviði náttúruverndar sem endurspegla þessa ábyrgð,“ segir Tómas Grétar. 

Greinin sjálf er partur af stærra verkefni, sem fékk öndvegisstyrk frá Rannís fyrir fáum árum, og doktorsnámi Lilju sem hún lauk með vörn í fyrra. 

Hér má sjá greinina en höfundar eru auk Lilju og Tómasar Grétars þau Jose Alves, sem er nýdoktor við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi, og J. A. Gill, sem er prófessor við University of East Anglia í Bretlandi.  

Lilja Jóhannesdóttir og Tómas Grétar Gunnarsson
Jaðrakan