Skip to main content
8. mars 2018

Laganemar aðstoða við framtalsskil

Lagabækur fyrir utan Lögberg

Skilafrestur á skattframtali einstaklinga nálgast óðum en hann er 13. mars næstkomandi. Af því tilefni bjóða meistaranemar við Lagadeild Háskóla Íslands í samtarfi við endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækið Deloitte upp á endurgjaldslausa aðstoð við að fylla út framtalið á hinum árlega Skattadegi Orators, félags laganema. Hann fer fram laugardaginn 10. mars kl. 11-17 í byggingunni Gimli á háskólasvæðinu og þangað eru allir velkomnir.

Hátt í fjörtíu ára hefð er fyrir framtalsaðstoð laganema við Háskóla Íslands en þar á ferðinni gott dæmi um það hvernig nemendur Háskólans nýta þekkingu sína í þágu samfélagsins. Dagurinn veitir einnig laganemum kærkomna reynslu í skattarétti en þeim innan handar verða sérfræðingar frá Deloitte. 

Ýmsir hafa nýtt sér aðstoð laganema og Deloitte á Skattadeginum síðustu ár, m.a. einstaklingar með verktakagreiðslur, námsmenn sem hafa búið erlendis og doktorsnemar. Enn fremur hafa erlendir aðilar sem hafa sjaldan eða aldrei skilað inn skattframtali á Íslandi nýtt sér þjónustuna. Skattadagurinn hefur verið vel sóttur síðustu ár og er þjónustan öllum opin eins og fyrr segir. 

Þeir sem hyggjast leita aðstoðar laganema og Deloitte á Skattadaginn 10. mars eru beðnir um að hafa meðferðis veflykil Ríkisskattstjóra, lykilorð og/eða auðkennislykil fyrir heimabanka eftir því sem við á og verktakamiða ef þeir eru fyrir hendi.

Boðið verður upp á kaffi og veitingar meðan á aðstoðinni stendur. 

laganemar í lögbergi