Skip to main content
16. október 2020

Lært af leikskólabörnum í kófinu

Óhætt er að fullyrða að kórónuveirufaraldurinn hafi áhrif á líf hverrar einustu manneskju á jarðarkringlunni, óháð því hvort hún er fjörgömul eða kornung eða býr í Breiðholti eða Botsvana. Áhrifin eru þó mismikil og fara meðal annars eftir stöðu fólks í samfélaginu og aldri. Blessunarlega virðist COVID-19-sjúkdómurinn ekki leggjast þungt á ung börn og ungmenni en engu að síður er mikilvægt að rýna í áhrif faraldursins á þennan hóp. Það gerir Díana Lind Sigurjónsdóttir í rannsókn sem hún vinnur í meistaranámi sínu í leikskólakennarafræðum en þar gegna raddir og upplifun leikskólabarna í kófinu lykilhlutverki. 

„Ég vil leggja mitt að mörkum til þess að stuðla að vellíðan barna og skapa þeim aðstæður þar sem þau fá að njóta sín í heilbrigðu umhverfi sem kemur á móts við hvern og einn þar sem leikskólinn er sniðinn að þörfum barnanna. Mér þykir mikilvægt að nýta þessar aðstæður sem upp hafa komið til góðs og læra af þeim. Börnin eru sérfræðingar í eigin lífi og eiga að fá tækifæri til þess að hafa áhrif, tjá skoðanir sínar og hugmyndir og að hlustað sé á þau. Þess vegna fannst mér svo mikilvægt að fá fram þeirra sjónarhorn,“ segir hún aðspurð að því hvers vegna þetta viðfangsefni hafi orðið fyrir valinu hjá henni í meistaranámi.

Skoðanir barna ólíkar skoðunum fullorðinna

Sjálf starfar Díana á leikskóla en var í fæðingarorlofi þegar faraldurinn dundi yfir snemma í vor. Á þeim tíma var gripið til þess að takmarka fjölda barna í leikskólum og skipta þeim upp í smærri hópa auk þess sem sóttvarnahólf voru sums staðar tekin upp. „Mér fannst áhugavert að heyra þegar fólk deildi sinni reynslu með mér á förnum vegi, hvort sem það voru foreldrar leikskólabarna, kennarar eða starfsmenn leikskóla. Margir töluðu um hversu jákvæð áhrif þessar breytingar höfðu á börnin í leikskólanum. Börnin nutu sín betur í minni hópum og þá sérstaklega börn sem höfðu átt erfitt í stærri hópum,“ segir Díana og og undirstrikar að þær sögur hafi fyrst og fremst komið frá foreldrum og starfsfólki leikskóla. „Það sem ég hef lært í námi mínu og starfi með börnum er að skoðanir og upplifanir barnanna eru ekki alltaf þær sömu og skoðanir fullorðinna og þess vegna langaði mig til þess að fá fram sjónarhorn barnanna og hvernig upplifun og líðan þeirra væri í þessum breyttu aðstæðum.“

Díana tók viðtal við 23 börn á aldrinum 3-6 ára, í þriggja til fjögurra manna hópum, í leikskóla á landsbyggðinni. „Viðtölin voru tekin í tveimur hlutum, í apríl á meðan samkomubannið var enn þá í gildi, og aftur í júní þegar leikskólastarfið var komið í „eðlilegt“ horf á ný. Það var gert til þess að fá betri heildarmynd af upplifun barnanna, bæði í þessum breyttu aðstæðum og í „eðlilegum“ aðstæðum. Í viðtölunum teiknuðu börnin einnig myndir sem tengjast umræðuefninu. Viðtölin voru svo rituð frá orði til orðs og ég vinn úr gögnunum ásamt umsjónarmönnum verkefnisins og skrifa út frá þeim,“ segir Díana, sem hlaut m.a. styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna í sumar til þess að framkvæma rannsóknina. Hún er unnin í samstarfi við Söru Margréti Ólafsdóttur, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og Kristínu Karlsdóttur, dósent við sama svið.

„Mér þykir mikilvægt að nýta þessar aðstæður sem upp hafa komið til góðs og læra af þeim. Börnin eru sérfræðingar í eigin lífi og eiga að fá tækifæri til þess að hafa áhrif, tjá skoðanir sínar og hugmyndir og að hlustað sé á þau. Þess vegna fannst mér svo mikilvægt að fá fram þeirra sjónarhorn,“ segir Díana Lind Sigurjónsdóttir, meistaranemi í leikskólakennarafræði.

Þekking barna á veirufaraldrinum kom ánægjulega á óvart

Díana segir fyrstu niðurstöður leiða ýmislegt forvitnilegt í ljós. „Börnin máttu ekki fara á milli sótthólfa á meðan á faraldrinum stóð í vor og því var leikefni og leiksvæði takmarkað. Það kom fram greinilegur söknuður hjá börnunum gagnvart því og einnig því að geta ekki farið í heimsókn á aðrar deildir. Börnin upplifðu þessar takmarkanir þó með mismunandi hætti. Sumum fannst skemmtilegt og leið vel þegar öll börnin voru saman og fannst því leiðinlegt hversu fá börn voru í leikskólanum. Önnur töluðu um að það væri betra að hafa fá börn í leikskólanum af því að þá væru minni læti. Erfiðast var þó fyrir börnin að geta ekki verið með vinum sínum,“ segir hún.

Þá bætir hún við að það hafi verið ánægjulegt að heyra og sjá hversu skynsamlega börnin töluðu um veiruna og faraldurinn í heild sinni. „Sum þeirra voru uppfull af þekkingu, höfðu lært mikið um takmarkanir, breytta samskiptahætti fólks, útlit og hegðun veirunnar, svo eitthvað sé nefnt. Sú þekking sem kom fram í máli þeirra og teikningum bendir til þess að þau hafi byggt þessa þekkingu upp með virkri þátttöku í samfélagi, bæði í leikskóla og fjölskyldu sinni. Líta má á þetta sem óbeint nám þar sem börnin sáu og heyrðu það sem fram fór í samfélaginu, lögðu sína merkingu í efnið og tóku þátt í að móta samræður og lausnir í tengslum við faraldurinn,“ segir Díana. 

Hún segist enn fremur vonast til að niðurstöður rannsóknarinnar muni veita aukinn skilning á líðan barna í leikskólum, bæði þegar þau eru þátttakendur í smærri og stærri hópum, og geti nýst til þess að skipuleggja leikskólastarf með hagsmuni, líðan og þarfir barna í fyrirrúmi. „Raddir barna eru mikilvægur hlekkur þegar verið er að rýna í leikskólastarf og gera breytingar. Það er mikilvægt að læra af þessum fordæmalausu tímum og nýta reynsluna og þekkinguna sem skapast hefur til þess að við séum betur í stakk búin til þess að takast á við sams konar aðstæður ef þær koma upp aftur. Þá er mikilvægt að hafa í huga að börn hafa ekki einungis rétt á því að hafa áhrif á líf sitt og daglegt starf leikskóla heldur eru einnig hæf til þess,“ segir hún að endingu. 

""