Kynna samfélagslega nýsköpun | Háskóli Íslands Skip to main content

Kynna samfélagslega nýsköpun

13. júní 2018

Samstarfsaðilar um samfélagshraðalinn Snjallræði standa fyrir opnum fundi fimmtudaginn 14. júní kl. 9.00 - 10.30 þar sem rætt verður um samfélagslega nýsköpun og fjallað um áhugaverð dæmi um slíka nýsköpun. Fundurinn fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands og er öllum opinn.

Háskóli Íslands er einn þeirra aðila sem koma að Snjallræði sem sett var á laggirnar í vor en framkvæmd verkefnisins er í höndum Höfða friðarseturs, sem skólinn og Reykjavíkurborg standa að, og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Um er að ræða fyrsta íslenska samfélagshraðalinn sem mun hefjast með formlegum hætti á árlegri friðarráðstefnu Höfða friðarseturs þann 10. október nk. 

Á fundinum 14. júní mun Hrund Gunnsteinsdóttir, þróunarfræðingur og stjórnarformaður Tækniþróunarsjóðs, halda erindi um samfélagslega nýsköpun og setja í samhengi við fjórðu iðnbyltinguna og áherslur í nýsköpun og hugvitsdrifnum hagkerfum. Hvað er samfélagsleg nýsköpun og hvað þarf frumkvöðlastarfsemi að fela í sér svo hún geti talist samfélagsleg? 

Í framhaldinu verða örkynningar á áhugaverðum samfélagsverkefnum sem sýna glöggt fjölbreytt litróf samfélagslegarar nýsköpunar hér á landi. Þar má nefna verkefni sem felst í að veita föngum reynslu og færni á sviði vöruframleiðslu, sundbol fyrir konur sem hafa fengið brjóstakrabbamein, skynbelti sem ætlað er að veita þeim aðstoð sem hafa ekki skynfæri á borð við sjón eða heyrn eða geta ekki notað hefðbundin skynfæri tímabundið og ýmislegt fleira. 

Fundinum lýkur á kynningu þeirra Hannesar Ottóssonar, verkefnisstjóra hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Auðar Örlygsdóttir, verkefnisstjóra Höfða friðarseturs, á samfélagshraðlinum Snjallræði.

""

Netspjall