Skip to main content
29. janúar 2021

Kynin, COVID, innflytjendur og fötlun á fjölbreyttum Jafnréttisdögum

Kynin, COVID, innflytjendur og fötlun á fjölbreyttum Jafnréttisdögum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Kynjuð áhrif COVID-19, reynsla nemenda með innflytjendabakgrunn af háskólanámi, þátttaka karla í baráttunni við kynbundið ofbeldi, fötlun, reynslusögur af rasisma, starfsval og staðalímyndir og umhverfisfemínismi er aðeins brot af þeirri metnaðarfullu dagskrá sem í boði verður á Jafnréttisdögum í Háskóla Íslands sem fram fara 1.-5. febrúar. Allir viðburðir verða á netinu í ljósi samkomutakmarkana.

Jafnréttisdagar eru samstarfsverkefni allra háskóla landsins og fara nú fram í þrettánda sinn. Áherslan er sem fyrr á jafnréttismál á breiðum grundvelli og markmiðið að skapa gagnrýna umræðu um mikilvæg málefni um leið og fjölbreytileikanum er fagnað með ýmsum hætti.

Óhætt er að segja að dagskrá Jafnréttisdaga í Háskóla Íslands sé þétt pökkuð en hún hefst í hádeginu mánudaginn 1. febrúar með sameiginlegum viðburði allra háskóla landsins þar sem rýnt verður í reynslu nemenda með innflytjendabakgrunn af háskólanámi. Dögunum lýkur svo með uppistandi Helgu Brögu Jónsdóttur, Meistara Jakobs og Kimi Tayler föstudaginn 5. febrúar.

Í millitíðinni verða í boði á þriðja tug viðburða, jafnt fyrirlestrar og málþing sem kvikmyndasýningar og spurningakvöld. Viðfangsefni daganna hafa sjaldan verið fjölbreyttari en óhætt er að segja að kórónuveirufaraldurinn setji svip sinn á dagskrána, bæði í efnistökum og fyrirkomulagi viðburða.

Viðburðir fara ýmist fram á íslensku eða ensku og dagskrána má finna á vef jafnréttismála Háskóla Íslands, jafnretti.hi.is, en nánari upplýsingar um einstaka viðburði má að finna á Facebook-síðu daganna.

logo jafnréttisdaga