Skip to main content
6. desember 2018

Kvikmyndafræðinemar taka þátt í vali Evrópsku háskólakvikmyndaverðlaunanna

""

Nemendur í kvikmyndafræði við Íslensku- og menningardeild taka þátt í vali á vinningshafa Evrópsku háskólakvikmyndaverðlaunanna í ár. Verðlaunin eru nú veitt í þriðja sinn en Háskóli Íslands er þátttakandi í fyrsta skipti. Háskólakvikmyndaverðlaunin eru afhent á vegum Evrópsku kvikmyndaakademíunnar, Kvikmyndahátíðarinnar í Hamborg og Kvikmyndaverðlauna Quebec Háskóla, í samstarfi við Evrópsku kvikmyndaverðlaunin. Tuttugu og þrír háskólar í jafnmörgum löndum taka þátt og sækja fulltrúar hvers þeirra ráðstefnu í Hamborg, sem nú stendur yfir, þar sem sigurmyndin er valin. Í fyrra hlaut Hjartasteinn í leikstjórn Guðmundar Arnars Guðmundssonar verðlaunin, en í ár voru fimm myndir tilnefndar.

Nemendur í kvikmyndarýni, grunnnámskeiði kvikmyndafræðinnar, hafa í vetur horft á þær kvikmyndir sem tilnefndar voru til verðlaunanna og rætt ítarlega um þær áður en þeir greiddu atkvæði um bestu myndina. Niðurstaða kosninganna var síðan send til Hamborgar þar sem hún hafði áhrif á það hvaða myndir komust upp úr fyrstu umferð ráðstefnunnar.

Kjartan Már Ómarsson tók viðtal við Björn Þór Vilhjálmsson, greinarformann kvikmyndafræðinnar, um verkefnið og þátttöku Háskóla Íslands, fyrir Hugrás - vefrit Hugvísindasviðs.

Nemendur í kvikmyndarýni ásamt kennara.