Kvennatónleikar í Háskóla Íslands | Háskóli Íslands Skip to main content

Kvennatónleikar í Háskóla Íslands

5. mars 2018

Nýtt verk eftir Ingibjörgu Ýr Skarphéðinsdóttur og Unu Sveinbjarnardóttur verður frumflutt á háskólatónleikum miðvikudaginn 7. mars. Tónleikarnir hefjast kl. 12.30 og verða í kapellu Aðalbyggingar Háskóla Íslands. Á tónleikunum verða einnig flutt verk eftir Þorkel Sigurbjörnsson og Karólínu Eiríksdóttur.

Tónlist og söngur verða í höndum fjögurra tónlistakvenna að þessu sinni en Catherine Maria Stankiewicz spilar á selló, Hafdís Vigfúsdóttir á flautu og Sólrún Franzdóttir Wechner á semball. Hildigunnar Einarsdóttur, messósópran, syngur.

Enginn aðgangseyrir er að tónleikunum og allir eru velkomnir.

Um tónskáldin

Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir lauk tónsmíðanámi við LHÍ vorið 2016. Helstu leiðbeinendur hennar voru Hróðmar I. Sigurbjörnsson og Anna Þorvaldsdóttir. Ingibjörg hefur unnið með leikurum, sviðshöfundum, leik- og kammerhópum og kvikmyndagerðarmönnum innan og utan veggja LHÍ. Hún er virkur félagi í list-hópnum Hlökk en hann skipa tónlistarkonur sem vinna með og kanna mörk tónlistar, myndlistar og ritlistar. 
                            
Karólína Eiríksdóttir stundaði fyrst nám við Tónlistarskólann í Reykjavík en síðar við University of Michigan. Þaðan lauk hún meistaraprófi árið 1976 í tónlistarsögu og tónlistarrannsóknum en í tónsmíðum 1978.  Verk Karólínu eru fjölbreytt. Þau hafa verið flutt víða um heim og við ýmis tækifæri. Erlendar hljómsveitir hafa pantað verk frá henni. Hún var tilnefnd til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs árið 2000. Verkið Sex japönsk ljóð var samið árið 1977 og frumflutt í Ann Arbor í Michigan. Í japanskri ljóðlist eru dregnar fram stuttar svipmyndir í sem fæstum orðum. Verkið ber keim af þessu ljóðformi, og er útkoman þess vegna sex „míníatúr“ tónverk.

Una Sveinbjarnardóttir er konsertmeistari Kammersveitar Reykjavíkur. Hún spilar með Sinfóníuhljómsveit Íslands og hefur oft leikið einleik með hljómsveitinni. Má þar t.d. nefna verk Páls Ragnars Pálssonar, Nostalgíu, sem nýlega kom út á geisladiski. Una lék í þýsum hljómsveitum og hefur m.a. unnið með Boulez, Rostropovich, Penderecki, Janowski og Hollinger. Umleikis, diskur með tíu frumsömdum verkum Unu, kom út 2014. Meðal verka hennar eru Konur á rauðum sokkum, tónlist við mynd Höllu K. Einarsdóttur, strengjakvartettinn Þykkt (2014) og kammerverkin Vögguvísa (2016) og Gátt (2017). 

        
Um flytjendur     

Catherine Maria Stankiewicz stundaði framhaldsnám í sellóleik í Bern og Kaliforníu. Enn fremur lauk hún meistaranámi í sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi frá LHÍ 2014. Hún hefur haldið tónleika austan hafs og vestan og verið virkur þátttakandi í ýmsum verkefnum sem kennari og flytjandi. Catherine hefur samið fjölmarga tónlistargjörninga. Hún hefur unnið til verðlauna fyrir sellóleik sinn og hún hlaut heiðursverðlaun M. Earl Johnson í Kaliforníu. Hún er stofnandi alþjóðlega kammerhópsins Ensemble Estelliah. Á Creation, fyrsta geisladiski hópsins, er tónlist byggð á náttúru Þingvalla.

Hafdís Vigfúsdóttir lauk prófi í flautuleik frá Tónlistarskóla Kópavogs. Síðar lauk hún námi frá LHÍ, konunglega konservatoríinu í Den Haag, frá konservatoríinu í Rueil-Malmaison og frá tónlistarháskólanum í Osló. Hafdís hefur leikið einleik með ýmsum íslenskum hljómsveitum. Á námsárunum lék hún með fjölmörgum hljómsveitum. Nú sinnir Hafdís ýmsum verkefnum, leikur með hljómsveitum og flytur kammertónlist.

Hildigunnur Einarsdóttir lauk prófi í söng frá Söngskólanum í Reykjavík árið 2010, stundaði framhaldsnám í Þýskalandi og Hollandi og lauk nýverið námi í skapandi tónlistarmiðlun frá LHÍ. Hildigunnur kemur oft fram sem einsöngvari jafnt hérlendis sem erlendis, syngur með ýmsum íslenskum kórum og hefur einnig tekið þátt í verkefnum hjá alþjóðlegu kórakademíunni í Lübeck undir stjórn Rolf Beck. Hún var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2014 fyrir túlkun sína á sönglögum Karls O. Runólfssonar með kammerhópnum Kúbus. 

Sólrún Franzdóttir Wechner lærði fyrst á fiðlu en hóf sembalnám 2006 og lauk námi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 2012. Hún naut leiðsagnar Guðrúnar Óskarsdóttur. Þá hélt hún til náms í Bremen og lauk BA-prófi sumarið 2016. Frá liðnu hausti stundar Sólrún framhaldsnám í Frankfurt. Hún hefur lokið mörgum meistaranámskeiðum og notið leiðsagnar færustu manna.

Catherine Maria Stankiewicz spilar á selló, Hafdís Vigfúsdóttir á flautu og Sólrún Franzdóttir Wechner á semball. Söngurinn verður í höndum  Hildigunnar Einarsdóttur, messósópran.