Skip to main content
9. október 2018

Kuldinn mest krefjandi

Það hefur vart farið framhjá nokkrum manni afrek hlaupakonunnar Elísabetar Margeirsdóttur sem lauk 400 kílómetra hlaupi í Góbí-eyðimörkinni í Kína í síðustu viku. Elísabet var fyrst kvenna í mark en alls hófu 60 manns hlaupið. Hún hljóp í fjóra sólarhringa, bæði í eyðimerkursól og frosti og svaf aðeins í fjórar klukkustundir samanlagt á hvíldarstöðvum. Hún er jafnframt fyrsta konan í heiminum sem klárar þetta hlaup á undir 100 klukkustundum. Rétt um 60% þátttakenda lauk hlaupinu að þessu sinni.

Mikil dagsveifla var í hitastigi í eyðimörkinni og fór frostið allt niður í tíu gráður á tímabili. „Það er margt erfitt í svona löngu hlaupi við oft erfiðar aðstæður. Það voru hvíldarstöðvar á 40 kílómetra fresti þar sem hægt var að hitta læknateymi sem veitti aðhlynningu eftir þörfum. Ég hljóp mest í 4000 metra hæð og þurfti m.a. að vaða straumharða á. Kuldinn var samt það sem var mest krefjandi,“ segir Elísabet og hyggst hvíla sig vel næstu daga.

Elísabet hefur um nokkurt skeið starfað sem aðjúnkt í næringarfræði í Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, tók á móti Elísabetu í morgun og færði henni blómvönd fyrir hönd starfsfólks sviðsins.

Menntavísindasvið Háskóla Íslands óskar Elísabetu til hamingju með þetta stórkostlega afrek.

Elísabet Margeirsdóttir, aðjúnkt í næringarfræðis, ásamt Kolbrúnu Þ. Pálsdóttur, forseta Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.