Skip to main content
19. desember 2019

Krían er mesti ferðalangur veraldar

""

Sumarið er tíminn, söng Bubbi Mortens, og það er í sínum algræna skrúði og hafið er skínandi bjart. Himininn ætti að vera heiður og blár en kríur fylla loftið með sínu alþekkta gargi og ekki er nokkur möguleiki að koma tölu á alla þessa fugla. Staðurinn er túnið við Norðurkot við Sandgerði og stuðið í fuglunum er magnað. Ástæðan? Jú, úti í kafgrasinu eru sex konur að fanga kríur til að merkja þær með flóknum en fisléttum búnaði. Ein þeirra lítur snöggt upp til okkar og segir:

„Markmiðið með þessu öllu er að kanna til hlítar lengsta far sem þekkist í dýraríkinu, hjá kríunni. Við vitum frá fyrri athugunum að hún fer árlega frá norðurhveli á suðurhvel og aftur til baka. Niðurstöður rannsókna með svokölluðum ljósrita sýna að þær ferðast allt að áttatíu þúsund kílómetra árlega.“

Þetta er Freydís Vigfúsdóttir sem talar, stundum kölluð kríuhvíslarinn en áhugi hennar á fuglum hófst í Vestmannaeyjum þar sem hún ólst upp í nánum tengslum við lífríkið, ekki síst fuglana. Hún er vísindamaður við Háskóla Íslands og doktorsrannsókn hennar var helguð þessum langfleyga fugli, kríunni.

Ný tæki uppljósta leyndarmál kríunnar

„Ljósritarnir,“ segir Freydís, „þeir gefa bara grófa mynd af farmynstrinu þar sem þeir eru með tæplega 200 kílómetra skekkju. Við vitum því ekki hvert kríurnar fara nákvæmlega, hvort og þá hvar þær stoppa á leiðinni, hve hratt þær ferðast o.s.frv. Núna ætlum við að klófesta allar þessar upplýsingar.“ 

kriuhopur

Tækin sem konurnar festa á fuglana eru ævintýraleg smá og létt, einungis þrjú grömm. Þetta eru GPS-ritar með tækni sem ræður við að rita staðsetningu með mun hærri tíðni en áður, eða allt að fjórum sinnum á klukkustund og mun lengur en áður þekktist, skrásetningin er í gangi allt árið. 

Freydís segir að með þessum tækjum verði líklegast hægt fá líka upplýsingar um mikilvæg svæði sem kunna að vera á leið kríunnar frá varpssvæði að veturstöðvum og aftur til baka. „Sömuleiðis viljum við geta lýst því hvernig þessi litli fugl fer að því að ferðast alla þessa leið og kanna hvaða lífeðlisfræði og líffræðilegu þættir spila þar inn í.“

Freydís segir að upplýsingarnar sem sóst er eftir séu ekki einungis merkilegar vísindalega, þar sem ný gögn fáist um líffræði og vistfræði kríunnar, heldur séu þær mjög mikilvægar fyrir verndun tegundarinnar. „Ný svæði á hafi eða á ströndum kunna að koma í ljós sem eru afar mikilvæg fyrir afdrif kríunnar. Slíkar upplýsingar verða æ dýrmætari á okkar tímum þar sem sjálfbær nýting auðlinda markar okkur stefnu. Mörg mikilvæg svæði eru enn hulin okkur sem ýmsar tegundir nýta.“  

Aðstæður einstakar á Íslandi

Freydís heldur á kríu sem hún hefur nýlega fangað og miðað við hvað krían er iðinn og ofasfengin í að verja varpið sitt þá er hún furðu róleg í lófa vísindakonunnar. Þær horfast í augu eitt andartak og Freydís brosir. „Þetta er fallegur fugl og einstakur,“ segir hún. „Ekki  bara vegna heimsmetanna sem hún setur í fari dýra, þar sem mörk hins mögulega virðast vera rofin frá sjónarhóli okkar mannanna, heldur er lífsferill hennar einkar aðdáunarverður og ekki síður gagnlegur í vísindalegum skilningi.“

Freydís segir að aðstæður til að vinna með kríur hérlendis séu einstakar en frábært aðgengi að fjölda varpa ásamt fjölda einstaklinga geri það að verkum að hægt sé vinna rannsóknir sem væru mun erfiðari annars staðar. „Víðast hvar erlendis eru kríuvörp á mjög afskekktum stöðum og alls ekki í svona miklum þéttleika eins og hér.“

Þetta eru orð að sönnu því á Íslandi á krían það til að verpa í görðum og jafnvel á útitröppum húsa og hér við Norðurkot er varpið alveg ofan í þjóðveginum.  

Krían sameinar heimsþekktar vísindakonur

Með Freydísi í rannsókninni eru heimsþekktar vísindakonur sem krían sameinar. Þarna er Lucy Hawkes frá Exeter-háskóla í Bretlandi sem hefur sérstakan áhuga á heimsmethöfum lífríkisins og þeim lífeðlisfræðilegu eiginleikum eða annmörkum sem dýr kljást við í sínum lífsferli. 

„Þar sem krían er óumdeildur heimsmethafi í fari hef ég sérstakan áhuga á þessu verkefni,“ segir Lucy sem hefur áður rannsakað gæsir sem fljúga hæst allra gæsa, yfir Everest og Himalaya-fjallgarðinn, á farleið sinni frá Indlandi til varpstöðva í Síberíu. 

kriuhopur

Sara Maxwell er reynsluboltinn í hópnum þegar kemur að notkun tækjabúnaðarins en hún hefur unnið við rannsóknir á fjölbreyttum dýrategundum í tæpa tvo áratugi, m.a. á sæskjaldbökum, fiskum og fuglum og rannsakað far og fæðuferðir með ýmiss konar tækjabúnaði. Sara starfar við Washington-háskóla í Seattle í Bandaríkjunum.

Svona verkefni er dýrt og flókið. „Við hófum þessa rannsókn í fyrra og fengum til þess styrk frá National Geographic svo við gætum keypt nauðsynleg tæki. Ég fékk svo styrk frá Háskóla Íslands til að kaupa fleiri tæki sem við erum að setja út núna í ár. Sara Maxwell fékk einnig styrk frá sínum háskóla,“ segir Freydís.

Sara segir að fyrir utan áhugann að vinna saman sé rannsóknin einkar spennandi fyrir þær sakir að þetta sé í fyrsta skipti sem reynt sé að kanna far kríunnar með svona mikilli nákvæmni. „Til þessa höfum við ekki haft svör við því hvert nákvæmlega þær fara, hvort og þá hvar þær stoppa á leiðinni og hve lengi, hve hátt, hratt eða hvernig þær ferðast og hvaða lífeðlisfræðilegar eða líffræðilegar takmarkanir og áskoranir verða á leið fuglanna á þessu árlega fari,“ segir Sara. 

Freydís og samstarskonur athafna sig í varpinu við Norðurkot. „Markmiðið með þessu öllu er að kanna til hlítar lengsta far sem þekkist í dýraríkinu, hjá kríunni. Við vitum frá fyrri athugunum að hún fer árlega frá norðurhveli á suðurhvel og aftur til baka. Niðurstöður rannsókna með svokölluðum ljósrita sýna að þær ferðast allt að áttatíu þúsund kílómetra árlega.“ MYND/Kristinn Ingvarsson

Af hverju ferðast fuglarnir?

Freydís segir að tilgátur um ástæður fars séu almennt þær að með farinu séu dýr að hámarka árangur til æxlunar, ungviðauppeldis og fæðuöflunar. „Þess vegna leita dýrin að bestu mögulegu skilyrðum til alls þessa. Fyrir margar tegundir þýðir það að um langan veg þarf að fara. Mörg farkerfi t.a.m. fugla sem verpa á landi er mögulega hægt að útskýra að hluta til fyrir tilstilli hörfunar jökla og jökulbreiða frá lokum síðasta jökulskeiðs. Mögulega eru fleiri þættir fléttaðir inn í söguna en við leitum jú svara við þessu,“ segir vísindakonan unga.

„Varðandi kríuna vitum við að hún leitar jú á bæði pólsvæðin á þeim tímum sem æti er þar til staðar. Góðar varplendur með litlum afránsþunga og stuttum vegalengdum á fæðusvæði eru henni mikilvægar að sumri og virðist Ísland hafa haft það að bjóða í gegnum aldirnar því við vistum næstmest af öllum af kríum, og mest í Evrópu.“

Kreppa hjá kríu – lífríkisbreytingar á stórum skala

Krían er tákn fyrir besta tíma ársins á Íslandi. Þegar vorið er komið og grundirnar gróa mætir hún og sumir fullyrða að krían lendi á golfvellinum á Seltjarnarnesi eigi síðar en 14. maí ár hvert. Þótt krían sé áberandi í íslensku lífríki, flugfimi hennar með ólíkindum og iðni sömuleiðis, þá hefur henni ekki vegnað mjög vel hér í á annan áratug. 

kria

„Við urðum fyrst vör við varpbrest árið 2005 og hefur hann síðan verið nánast árlegur í flestum landshlutum meðal flestra sjófugla. Hann var mjög áberandi hjá kríunni og var raunverulegt kreppuástand á kríustofninum víðast hvar. Þetta á við um alla sjófugla sem reiða sig á sandsíli fyrir sunnan og vestan land og loðnu og átu fyrir norðan og austan,“ segir Freydís. 

Hún vann ítarlega úttekt á þessum vanda kríunnar á Snæfellsnesi og á Melrakkasléttu í nokkur ár og var niðurstaðan alveg einhlít að hennar sögn. Eitthvað var á seyði í hinu hafræna umhverfi sem orsakaði það að ætið sem krían reiðir sig á var bara ekki til staðar. „Kríurnar höfðu ekki nægt æti til að koma upp ungunum og fækkun í varpstofnum var áberandi þar sem varpbresturinn var sem mestur og fjöldi einstaklinga hætti líklega við varp á þessum árum.“

Hún segir að rannsóknir sýni að það sama hafi átt við um lundann og rituna sem komu varla upp ungum. 

„Þær mælingar sem gerðar voru á sandsílinu gáfu til kynna að ásandið væri arfaslakt. En hvað veldur þessum breytingum á svona stórum skala á svona löngum tíma? Það er stóra spurningin sem frekari rannsóknir á þessum skepnum gæti svarað. Líklega er hér um samspil loftlagsbreytinga og breytinga í umhverfi sjávar á mun stærri skala en bara hér við Ísland. Sömu mynstur má sjá víða í nágrannalöndum okkar og norðlæg tilfærsla í lífríkinu í Norður-Atlantshafi virðist hafa verið í gangi í talsverðan tíma. Dýr efst í fæðukeðjum sjávar, eins og krían og aðrir sjófuglar, geta gefið okkur upplýsingar um umhverfi sjávarins mjög skjótt og vegna lífshátta sinna er krían einkar góður áviti á ástand þess vistkerfis sem hún ferðast um.“

Freydís Vigfúsdóttir og kríur