Krabbamein í kastljósinu á ráðstefnu norrænna læknanema | Háskóli Íslands Skip to main content
28. október 2019

Krabbamein í kastljósinu á ráðstefnu norrænna læknanema

Læknir á skurðstofu

Hinar ólíku hliðar krabbameina verða meginþema á ráðstefnu íslenskra læknanema (Federation of International Nordic Medical Students' Organizations - FINO) sem fram fer á háskólasvæðinu og á Barnaspítalanum dagana 31. okt. til 3. nóvember nk. 

Um er að ræða árlegan viðburð læknanemafélaga á Norðurlöndum þar sem 10 læknanemar frá hverju landi koma saman. „Það hefur orðið hefð að bjóða hverju landi 10 sæti á ráðstefnunni því það hefur þótt hæfileg stærð fyrir skipuleggjendur ráðstefnunnar. Það verða reyndar 20 nemar frá Íslandi í ár því við erum 10 í skipulagsnefndinni og svo aðrir 10 sem fengu sæti á ráðstefnunni,“ segir Sólveig Bjarnadóttir, formaður Félags læknanema sem á sæti í skipulagsnefnd ráðstefnunnar. 

Markmiðið með ráðstefnunni er að efla samstarf milli landanna, deila reynslu og fræðast um tiltekið málefni. Yfirskrift ráðstefnunnar í ár er Global Action Against Cancer: Join the fight! og eins og nafnið bendir til er hún helguð krabbameini, bæði rannsóknum, forvörnum, meðferð og lífi með og eftir sjúkdóm. „Krabbamein er stórt lýðheilsumál og við vildum skoða það í sem víðustu samhengi. Þriðjungur Íslendinga greinist með krabbamein á lífsleiðinni og tíðnin fer vaxandi. Samkvæmt gögnum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) má koma í veg fyrir 40% krabbameinstilfella á Vesturlöndum og fækka dauðsföllum af völdum krabbameina um helming. Þannig er mikilvægt að auka vitund um gildi forvarna og heilbrigðs lífernis þegar kemur að krabbameinum og það er einn af meginstólpunum í dagskránni,“ bendir Sólveg á.

Hún vekur jafnframt athygli á því að miklar framfarir eigi sér nú stað í rannsóknum og meðferð krabbameina en Nóbelsverðlaunin í læknisfræði 2018 voru einmitt veitt fyrir uppgötvanir á þessu sviði. „Það hefur orðið bylting með tilkomu nýrra lyfja sem örva ónæmiskerfi líkamans til að ráðast gegn krabbameinsfrumum. Þessi lyf eru hins vegar kostnaðarsöm og á ráðstefnunni verður opinn fyrirlestur um áskoranir sem felast í aðgengi og kostnaði þessara lyfja. Við hvetjum alla háskólanema og aðra áhugasama til að mæta,“ segir Sólveig. Fyrirlesturinn verður föstudaginn 1. nóvember kl. 12.30 í Hringsal Barnaspítalans.

Sólveig bendir enn fremur á að huga þurfi að líðan sjúklinga og því ljúki dagskránni með umfjöllun um líf með og eftir sjúkdóminn og hvernig hægt sé að veita sjúklingum viðeigandi stuðning. „Það er áfall að greinast með krabbamein en með bættri meðferð horfum við til þess að fólk lifir lengur með sjúkdóminn og fleiri læknast,“ segir hún.

Kynfræðslufélagið Ástráður og Bangsaspítalinn sprottið upp úr samstarfinu

Meðal fyrirlesara á ráðstefnu norrænu læknanemanna eru vísindamenn við Háskóla Íslands, Landspítala, Krabbameinsfélagið og Íslenska erfðagreiningu auk erlendra sérfræðinga. „Við Íslendingar eigum frábæra vísinda- og fræðimenn í þessum málaflokki. Ráðstefnugestir munu einnig starfa í minni vinnuhópum þar sem markmiðið er að virkja fólk til að þróa raunhæf forvarnarverkefni gegn krabbameinum sem má nýta í hverju heimalandi,“ segir hún enn fremur.

En hvaða þýðingu hefur ráðstefna sem þessi fyrir læknanema eins og Sólveigu. „Við erum 10 sem höfum lagt hart að okkur í skipulagningunni síðastliðið ár og það hefur verið mjög skemmtilegt og lærdómsríkt ferli. Það er frábært tækifæri að fá að kynnast læknanemum frá öðrum norrænum ríkjum og í gegnum tíðina hafa margar spennandi hugmyndir sprottið upp úr norrænu samstarfi læknanema. Má þar nefna verkefni á borð við kynfræðslufélagið Ástráð og skyndihjálparfélagið Bjargráð, sem sinna mikilvægu forvarnarstarfi í grunn- og framhaldsskólum landsins, auk Bangsaspítalans,“ bætir Sólveig við að endingu.

Nánar um ráðstefnuna.

Skipulagsnefnd læknanema