Skip to main content
9. september 2019

Kortasjá um aftökur á Íslandi

Kortasjá um aftökur á Íslandi hefur verið opnuð á slóðinni dhd.hi.is. Kortasjáin er afrakstur verkefnisins Dysjar hinna dæmdu en markmiðið með því er að leita upplýsinga um þá einstaklinga sem teknir voru af lífi hérlendis tímabilið 1550–1830. Kortasjáin sýnir nöfn þeirra 248 einstaklinga sem þá voru dæmdir til dauða en einnig heimabæi þeirra, aftökustaði, kyn, aldur, brot og dóma. Þá er á kortasjánni að finna ýmsar ítarlegri upplýsingar um dauðadómana.

Steinunn Kristjánsdóttir, prófessor í fornleifafræði og stjórnandi verkefnisins, sagðist í samtali við Vísi.is ekki hafa búist við að aftökurnar hefðu verið svona margar og á tímabilinu 1582 til 1792 hefði að meðaltali farið fram meira en ein aftaka á ári. „Flestar aftökur voru gerðar á suðvesturhorninu, Suðurlandi, Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Húnavatnssýslum og í Eyjafirði. Færri í Skagafirði, Þingeyjarsýslum, á Austurlandi og aðeins ein í Skaftafellssýslum. Eitt af því sem er til rannsóknar núna er hvort sýslumenn hafi sýnt mismikla hörku. Þekkt er framganga Þorleifs Kortssonar, sýslumanns í Strandasýslu, í galdrafárinu á 17. öld. Yfirleitt voru karlar höggnir, konum drekkt, þjófar hengdir og nornir brenndar. Þriðjungur málanna eru þjófnaðir og þriðjungur blóðskömm og dulsmál. Aðrir stórir flokkar eru morð og galdrar. Sjötíu prósent þeirra líflátnu voru karlar og 30 prósent konur. Þetta var eiginlega allt lágstéttarfólk og oftast í yngri kantinum,“ sagði Steinunn í samtali við Vísi.

Rannsóknin hófst árið 2018 og er hún rekin fyrir fjárframlög úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, Fornminjasjóði, Nýsköpunarsjóði námsmanna og samstarfsaðilum. Kortasjáin var unnin af Ómari Vali Jónassyni en Sigrún Hannesdóttir, Snædís Sunna Thorlacius, Magnea Dís Brigisdóttir og Steinunn Kristjánsdóttir, prófessor í fornleifafræði, tóku saman heimildir.

Hér má hlýða á viðtal við Steinunni í Samfélaginu á Rás 1.

Hér er hægt að skoða myndir frá opnun dhd.hi.is.

Aðstandendur verkefnisins. Frá vinstri: Magnea Dís Birgisdóttir, Snædís Sunna Thorlacius, Ómar Valur Jónasson, Sigrún Hannesdóttir og Steinunn Kristjánsdóttir.