Skip to main content
11. október 2019

Kannar taktvísi og tónheyrn þjóðarinnar

""

Ertu með taktinn á hreinu þegar þú ferð út á dansgólfið eða finnst þér erfitt að halda takti? Tekur þú vel undir í hópsöngnum á ættarmótum eða ertu alveg laglaus? Nú geturðu kannað hversu takt- og tónviss þú ert með því að taka þátt í rannsókn sem Rósa Signý Gísladóttir, lektor í almennum málvísindum við Háskóla Íslands og vísindamaður hjá Íslenskri erfðagreiningu, stendur fyrir ásamt samstarfsfólki sínu og fer fram á vefnum toneyra.is.

Í rannsókninni svara þátttakendur spurningum um tónlistarþjálfun, lestur og fleira og leysa svo stutt og skemmtilegt verkefni sem byggist á því að hlusta á tóndæmi og svara spurningum. „Markmið rannsóknarinnar er að rannsaka erfðabreytileika sem hafa áhrif á tóneyra og taktvísi og skoða tengsl þessara eiginleika við raskanir á borð við lesblindu. Eru einhverjir breytileikar í okkar erfðamengi sem hafa bæði áhrif á tóneyra eða takt og tungumálið?“ segir Rósa um rannsóknina.

Rósa bendir á að fólk sé misjafnlega taktvisst og næmt á tóna og í sumum tilvikum getur það hreinlega verið með röskun á þessum sviðum. Þannig eiga þeir sem haldnir eru svokallaðri tónblindu (e. amusia eða tone deafness) í erfiðleikum með að halda lagi og bera kennsl á falskar nótur en áætlað er að hún hrjái á bilinu 1,5-4% fólks. Sambærileg er taktblinda (e. beat deafness) en þá á fólk erfitt með að halda takti og skynja takt í tónlist. 

Áhugaverð tengsl milli tónlistar, tals og tungumáls

Kveikjan að rannsókninni var að sögn Rósu ábending frá Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, um rannsókn á tónblindu sem birtist í vísindatímariti árið 2017. „Í greininni var líka minnst á taktblindu sem varð kveikjan að áhuga mínum en ég sá þarna skýrar tengingar við tungumálið,“ segir Rósa sem hefur sérhæft sig í sálfræðilegum málvísindum.

„Ein kenning sem var sett fram af þekktum vísindamanni á þessu sviði, Aniruddh Patel, er að taktskynjun hafi myndast sem nokkurs konar aukaafurð hæfileikans til að læra og mynda flókin hljóð, en það er grunnundirstaða tals,“ segir Rósa. Hún bendir enn fremur á að þau dýr sem geta lært og myndað flókin hljóð, eins og fílar og sumir páfagaukar, virðist geta hreyft sig í takt, líkt og maðurinn. „Í mannfólki sjáum við tengingu við tungumálið því að einstaklingar með málþroskaröskun og lesblindu eiga oft í erfiðleikum með að klappa í takt,“ segir Rósa. 

Tónblinda er líka áhugavert fyrirbæri að sögn Rósu, en hún virðist ekki haldast jafnmikið í hendur við aðrar raskanir og einkennist aðallega af vandamálum með tónhæð í tónlist en ekki í tungumálinu. „Tónhæð skiptir miklu máli í tónamálum eins og kínversku en getur líka haft áhrif á merkingu setninga í tungumálum eins og íslensku.“ Tónblinda virðist hins vegar ekki hafa mikil áhrif á skynjun tónhæðar í tungumálinu. „Það er áhugavert að velta fyrir sér hvernig erfðamengið fer að því að kalla fram svona sértæk áhrif,“ segir Rósa. 

Rannsókn Rósu og samstarfsfélaga er að öllum líkindum sú stærsta sinnar tegundar í heiminum þar sem notuð eru skimunarverkefni fyrir taktvísi og tónheyrn ásamt spurningalista um lestur og málþroska. Aðspurð segir hún að arfgengi tónblindu og tíðni hafi töluvert verið rannsökuð og sömuleiðis aðrir tónlistarhæfileikar, en afar lítið er vitað um einstaka erfðaþætti. Löng hefð er fyrir því að rannsaka tengsl tónlistar við tungumál. „Það eru vísbendingar um að markviss tónlistarþjálfun geti eflt hljóðkerfisvitund, það er að segja tilfinninguna fyrir málhljóðum, og þannig hjálpað þeim sem glíma við málþroskaraskanir eða lesblindu. Þessi rannsókn er innlegg í þá umræðu,“ segir hún. 

Í rannsókninni svara þátttakendur spurningum um tónlistarþjálfun, lestur og fleira og leysa svo stutt og skemmtilegt verkefni sem byggist á því að hlusta á tóndæmi og svara spurningum. „Markmið rannsóknarinnar er að rannsaka erfðabreytileika sem hafa áhrif á tóneyra og taktvísi og skoða tengsl þessara eiginleika við raskanir á borð við lesblindu. Eru einhverjir breytileikar í okkar erfðamengi sem hafa bæði áhrif á tóneyra eða takt og tungumálið?“ segir Rósa um rannsóknina.

Skemmtileg leið til að kynnast tónheyrn og taktvísi sinni

Rannsóknin hófst í febrúar á vefnum toneyra.is og hefur fengið góðar móttökur. „Fólk fær niðurstöður um taktvísi og tóneyra strax að þátttöku lokinni og við höfum heyrt frá mörgum að þeim finnist gaman að spreyta sig. Niðurstöðurnar koma líka fólki oft á óvart. Þeir sem telja sig algjörlega laglausir reynast oft með góða tónheyrn og öfugt, eða fólk reynist taktlausara en það telur sig vera,“ segir Rósa.

Hún segist afar þakklát fyrir viðtökurnar við rannsókninni en hvetur jafnframt alla, sem áhuga hafa og eiga eftir að taka þátt, að slá til. „Við viljum fá sem flesta þátttakendur og það skiptir ekki máli hvort þú ert meðal fremstu djasspíanista landsins eða telur þig ekki hafa neina tilfinningu fyrir tónum og takti, allir 18 ára og eldri geta tekið þátt,“ segir hún.

Hægt er að taka þátt í rannsókninni á vefnum toneyra.is en gæta þarf þess að hafa rafræn skilríki við hendina þegar byrjað er.

Rósa Signý Gísladóttir