Skip to main content
22. nóvember 2018

Jón Gunnar og Sigrún taka við ritstjórn Acta Sociologica

""

Jón Gunnar Bernburg og Sigrún Ólafsdóttir, prófessorar í félagsfræði við Háskóla Íslands, taka við sem ritstjórar tímarits Norræna félagsfræðingafélagsins, Acta Sociologica, í upphafi næsta árs en tímaritið er flaggskip félagsfræðitímarita á Norðurlöndum og með virtari almennum félagsfræðitímaritum á heimsvísu.

Sigrún og Jón Gunnar taka við ritstjórastörfum af þeim Jani Erola og Suvi Salmenniemi, prófessorum í félagsfræði við Háskólann í Turku í Finnlandi. „Það er mikil heiður fyrir íslenska félagsfræði og Félagsvísindasvið Háskóla Íslands að tímaritinu verði ritstýrt hérna á Íslandi næstu fjögur árin,“ segir Sigrún en þess má geta að áður hafa prófessorarnir Þórólfur Þórlindsson og Rúnar Vilhjálmsson ritstýrt tímaritinu fyrir hönd íslenskra fræðimanna. 

Acta Sociologica kemur út fjórum sinnum á ári og hefur að sögn Jóns Gunnars verið á mikilli siglingu. Áhrifastuðull tímaritsins (e. impact factor) hefur hækkað mjög á síðustu misserum og hefur fjöldi handrita sem tímaritinu berast aukist verulega. Til marks um þetta voru yfir 200 greinar sendar til tímaritsins árið 2018 , en á sama tíma voru 24 greinar birtar í tímaritinu. „Okkar stefna er fyrst og fremst að halda áfram því góða starfi sem fyrri ritstjórar hafa sinnt og að auka veg og virðingu tímaritsins enn frekar,“ segir Jón Gunnar og Sigrún bætir við: „Við leggjum áherslu á greinar sem uppfylla ströngustu gæðakröfur fjalla um mikilvæg félagsfræðileg málefni, og endurspegla þann aðferðafræðilega margbreytileika sem félagsfræðin stendur fyrir. Við viljum að tímaritið takist á við málefni sem eru sérstaklega mikilvæg á okkar tímum og má þar til dæmis nefna popúlisma og uppgang öfgaflokka, heilsu og geðheilsu, innflytjendastraum og fólksflutninga, ójöfnuð og umhverfismál.“

Ritstjórn Acta Sociologica næstu fjögur árin. Frá vinstri: Sigrún Ólafsdóttir, Jón Gunnar Bernburg, Kjartan Páll Sveinsson og Guðmundur Ævar Oddsson.

MYND/Kristinn Ingvarsson

Með þeim Sigrúnu og Jóni Gunnari starfa að ritstjórninni þeir Guðmundur Ævar Oddsson, dósent við Félagsvísinda- og lagadeild við Háskólann á Akureyri, sem verður ritstjóri bókadóma og Kjartan Páll Sveinsson, doktor í félagsfræði, sem annast mun daglegan rekstur tímaritsins  

Hinir væntanlegu íslensku ritstjórar settust niður með núverandi ritstjórum tímaritsins á ráðstefnu norrænna félagsfræðinga sem haldin var í Álaborg í Danmörku í ágúst síðastliðnum. Þar ræddu þau um norræna félagsfræði, styrkleika hennar og veikleika, og helstu viðfangsefni. Fjórmenningarnir veltu einnig fyrir sér sérkennum Norðurlanda með tilliti til menningar, sögu og stjórnmála og hugsanleg áhrif þessara þátta á það hvers konar félagsfræðirannsóknir hafi verið stundaðar í þessum löndum. Afrakstur samtals ritstjóranna fjögurra birtist á mánudag í hlaðvarpinu Samtal við samfélagið sem er er í umsjón Sigrúnar Ólafsdóttur og Kjartans Páls Sveinssonar og er aðgengilegt á Kjarnanum.

Tímaritið Acta Sociologica á vefnum

Fráfarandi ritstjórar ásamt væntanlegum ritstjórum. Efri röð: Jani Erola og Jón Gunnar Bernburg. Neðri röð: Suvi Salmenniemi og Sigrún Ólafsdóttir.