Járnkarlarnir kynna kosti leikskólastarfsins | Háskóli Íslands Skip to main content
8. janúar 2019

Járnkarlarnir kynna kosti leikskólastarfsins

Karlar eru innan við tvö pró­sent mennt­aðra leik­skóla­kenn­ara hér á landi og hefur margt verið reynt í gegnum tíð­ina til að fjölga þeim. Þessi alvarlega staða innan leikskólans varð til þess að Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Félag leikskólakennara og Félag stjórnenda leikskóla tóku höndum saman og fóru af stað með verkefni sem er ætlað að vekja athygli ungra karla á starfi leikskólakennara.

Samstarfsaðilarnir hlutu styrk úr Jafnréttissjóði Íslands árið 2016 til að vinna að verkefninu og voru í framhaldinu tveir nemar á meistarastigi í leikskólakennarafræði ráðnir verkefnisstjórar, þeir Eysteinn Sindri Elvarsson og Magnús Hilmar Felixson.

Eysteinn og Magnús hafa haldið úti lifandi kynningum á samfélagsmiðlum undir yfirskriftinni Járnkarlarnir þar sem leikskólastarfið er kynnt á fjölbreyttan hátt.

Þá hafa Járnkarlarnir einnig tekið þátt í kynningum á Háskóladeginum, Háskólaherminum, Starfamessu Norðurlands og í framhaldsskólum. Fyrirhugaðar eru frekari kynningar í efstu bekkjum grunnskóla og í framhaldsskólum.

Áhugasamir geta fylgst með Járnkörlunum á Snapchat, FacebookInstagram og Twitter.

Sjá nánar: Brýnt að fjölga körlum i yngri barna kennslu og Hlutu styrk til að ljúka námi í leikskólakennarafræði