Jarðvísindaganga með Helgu Kristínu um Búrfellsgjá | Háskóli Íslands Skip to main content
14. október 2021

Jarðvísindaganga með Helgu Kristínu um Búrfellsgjá

Jarðvísindaganga með Helgu Kristínu um Búrfellsgjá - á vefsíðu Háskóla Íslands

Helga Kristín Torfadóttir, sem stundar doktorsnám í eldfjalla- og bergfræði við HÍ, mun leiða göngu um Búrfellsgjá á laugardaginn kemur, þann 16. október, kl. 11. Göngufólk ekur í aðdraganda göngunnar á einkabílum með fram Vífilsstaðahlíð í átt að Hjöllum en þar eru bílastæði við veginn. Það er svo gengið um gjána. Gangan er hluti af samstarfsverkefni Ferðafélags Íslands og Háskóla Íslands sem heitir Með fróðleik í fararnesti. Þátttaka er ókeypis og öll velkomin. Ekkert að panta, bara mæta.  

Helga Kristín er svo sannarlega vön að skýra út flókna hluti á mannamáli. Hún hefur vakið heimsathygli fyrir vísindamiðlun á eigin Instagram-síðu undanfarin misseri. Þar deilir hún fróðleik á mannamáli um gosið á Reykjanesi og ótrúlegustu undur sem snerta jarð- og jöklafræði. 

Í Búrfellsgjá mun Helga Kristín lýsa tilurð þess sem fyrir augu ber í jarðfræðilegum skilningi. Líklegt er að skimað verði eftir hellum á gönguleiðinni og því gæti verið gott að taka með sér vasaljós, vera í góðum skóm og hafa með gott nesti. Gangan tekur um tvær til þrjár klukkustundir. 

Með 21 þúsund fylgjendur á Instagram

Það hefur verið magnað að fylgjast með Helgu Kristínu á Instagram en þar heldur hún jafnvel uppi prófum sem eru notendum reyndar einungis til skemmtunar en sýna engu að síður hvar hver og einn er staddur í „sjálfsnáminu“ hjá doktorsnemanum. 

„Framan af var þetta einungis mér sjálfri til skemmtunar,“ segir Helga Kristín um þetta sjálfsprottna verkefni sitt á samfélagsmiðlinum. „Hugmyndin að Instagram-síðunni kviknaði frekar snemma, þ.e. að deila myndum sem ég tek á ferðalögum mínum ásamt fróðleik um jarðfræði. Ég tek mikið af ljósmyndum, bæði á venjulega myndavél en líka á dróna.“

Viðbrögðin hafa verið mögnuð en Helga Kristín hefur á ótrúlega skömmum tíma safnað 21 þúsund fylgjendum og ekki er óalgengt að hartnær fimm þúsund manns setji „læk“ við hverja færslu hjá henni og bæti inn hundruðum athugasemda.

„Fólki finnst þetta mjög áhugavert og ég fæ fullt af fallegum skilaboðum. Það er virkilega gaman þegar fólk kann að meta efnið sem ég bý til og deilir með mér áhuga á jarðfræði. Það fylgir þessu líka að maður fær stundum áhugaverð skilaboð, t.d. fólk sem vill að ég ráði þau í vinnu eða geri heimavinnuna þeirra fyrir þau,“ segir Helga Kristín og hlær. 

Helga Kristín komst í fréttirnar fyrir ekki alls löngu þegar hún prófaði geimbúning sem áformað er að NASA noti við ferðir til reikistjörnunnar Mars. Hún prófaði búninginn við Grímsvötn í Vatnajökli en áformað er að senda mannað geimfar til Mars eftir áratug eða svo. 

Prófaði geimbúning á Vatnajökli

Helga Kristín segist alltaf verið „svaka nörd“ og haft mikinn áhuga á vísindum og náttúru, alveg frá því að hún var smábarn. „Ég tengi mikið við hvaða vísindagrein sem er og áður en ég uppgötvaði ástríðu mína fyrir jarðfræði stefndi ég á læknisfræði. Ég hef líka mikinn áhuga á útivist, ævintýrum og ljósmyndun…. jarðfræðin sameinar alla þessa þætti.“

Auk þess að vekja athygli fyrir verk sín á Instagram þá  komst Helga Kristín í fréttirnar fyrir ekki alls löngu þegar hún prófaði geimbúning sem áformað er að NASA noti við ferðir til reikistjörnunnar Mars. Hún prófaði búninginn við Grímsvötn í Vatnajökli en áformað er að senda mannað geimfar til Mars eftir áratug eða svo.  

Helga Kristín hefur auðvitað mikinn áhuga á öllu sem viðkemur geimnum enda fæst aukinn skilningur á eðli alheimsins með rannsóknum í jarðvísindum. 

En sem sagt, spennandi ganga á laugardag kl. 11 undir leiðsögn doktorsnema við HÍ í jarðvísindum, Helgu Kristínar Torfadóttur, sem hefur slegið í gegn á Instagram. 

Mikilvægt er að klæða sig vel, vera í góðum skóm og taka með gott nesti eins og áður sagði. 
 

Helga Kristín Torfadóttir