Skip to main content
1. febrúar 2021

Japanshátíð í heila viku á netinu

Japanshátíð í heila viku á netinu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Spjall við hina vel þekktu rithöfunda Yoko Tawada og Ólaf Jóhann Ólafsson, kennsla í gyoza- og origami-gerð, kynning á námi í japönsku og umfjöllun um viðbrögð Japana við COVID-19 og japanska hlutverkaleiki er meðal þess sem í boði verður á vikulangri Japanshátíð dagana 1.-7. febrúar á netinu.

Hátíðin er samvinnuverkefni námsbrautar í japönsku við Háskóla Íslands, Sendiráðs Japans á Íslandi, Íslensk-japanska félagsins og Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Hún hefur undanfarin ár verið haldin í byggingum Háskólans á einum degi og dregið að sér stóran hóp gesta á öllum aldri. Í ljósi samkomutakmarkana var hins vegar ákveðið að hafa hátíðina alfarið á netinu að þessu sinni og bjóða upp á glæsilega dagskrá í heila viku.

Öll ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á hátíðinni enda höfðar hún til allra aldurshópa. Meðal þess sem verður á dagskrá er höfundaspjall milli hins heimsþekkta rithöfundar Yoko Tawada og þýðanda hennar, Margaret Mitsutani. Tvær bækur Tawada, Etýður í snjó og Sendiboðinn, hafa verið gefnar út á íslensku á vegum bókaforlagsins Angústúru en síðarnefnda bókin fékk hin virtu bandarísku bókmenntaverðlaun The National Book Awards í flokki þýddra bókmennta árið 2018. 

Þá mun Kristín Ingvarsdóttir, lektor í japönsku við Háskóla Íslands, spjalla við metsöluhöfundinn Ólaf Jóhann Ólafsson, sem var m.a. tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna nýverið. Rætt verður bæði um skáldskap Ólafs Jóhanns og reynslu hans af störfum í rúman áratug fyrir japanska stórfyrirtækið Sony. 

Á Japanshátíð verður auk þess boðið upp á kennslu í gerð japanskra hveitikodda (gyoza) um netið og hvernig á að búa til origami- og manga-fígúrur og skrifa á japönsku. Þá flytja fræðimenn og nemendur við Háskóla Íslands áhugaverð erindi um þjóðleg viðbrögð Japana við COVID-19 og japanska hlutverkaleiki í samanburði við vestræna. Auk þess verða nemendur í japönsku við Háskóla Íslands með kynningu á náminu og segja frá reynslu sinni af skiptinámi við japanska háskóla.

Ókeypis er á alla viðburði Japanshátíðar og má finna nánari upplýsingar um þá á Facebook-síðu hátiðarinnar.

Gestir á Japanshátíð