Skip to main content
23. apríl 2018

Jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2018-2020 samþykkt

Jafnréttisáætlun Háskóla Íslands var samþykkt á fundi háskólaráðs 12. apríl síðastliðinn. Áætlunin er fimmta jafnréttisáætlun Háskólans og gildir hún í þrjú ár en skal endurskoðuð að þeim tíma liðnum.

Jafnréttisáætlunin var unnin af jafnréttisnefnd í samvinnu við sérfræðinga innan Háskóla Íslands. Áætlunin nær til alls starfsfólks og nemenda sem í sameiningu bera ábyrgð á að koma í veg fyrir mismunun og leggja sitt af mörkum til að skapa háskólasamfélag sem einkennist af virðingu, skilningi og umburðarlyndi.

Áætlunin tekur mið af stefnu Háskóla Íslands 2016-2021 og inniheldur markmið og aðgerðir sem skipt er niður í fjóra flokka: 1. nám, kennslu og rannsóknir, 2. mannauð, 3. virka þátttöku í samfélagi og atvinnulífi og 4. eftirfylgni. Meðan á vinnu jafnréttisáætlunarinnar stóð bar jafnréttisnefnd einstakar aðgerðir áætlunarinnar undir helstu ábyrgðaraðila þeirra og fékk athugasemdir og álit á þeim. 

Í vinnuferlinu var leitað eftir formlegri umsögn og athugasemdum frá hinum ýmsu sviðum og einingum innan háskólans. Einnig gaf Jafnréttisstofa umsögn um jafnréttisáætlunina. 

Það er álit jafnréttisnefndar að viðbrögð og umsagnir fjölbreytts hóps sérfræðinga sem bárust nefndinni hafi verið afar gagnleg og þakkar jafnréttisnefnd umsagnaraðilum fyrir vinnu sína.

Jafnréttisáætlunina má finna á jafnréttisgátt á vef Háskóla Íslands, jafnretti.hi.is

""