Skip to main content
19. febrúar 2021

Íslenskukennsla í sýndarveruleika

Íslenskukennsla í sýndarveruleika - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þegar Branislav Bédi var í háskólanámi í heimabæ sínum Nitra í Slóvakíu snemma á öldinni komst hann í kynni við Eddukvæðin sem kveikti hjá honum áhuga á íslenskri tungu. Nú, um það bil 15 árum síðar, stendur hann uppi með doktorspróf í annarsmálsfræðum frá Háskóla Íslands og hefur helgað sig útbreiðslu íslenskunnar um allan heim, m.a. með hjálp tölvutækninnar. Hún kom einmitt mikið við sögu í doktorsverkefni hans.

Branislav varð á dögunum fyrsti nemandinn til þess að ljúka doktorsprófi í annarsmálsfræði frá Mála- og menningardeild Háskóla Íslands. Hann hefur búið hér á landi undanfarin ár en kom fyrst hingað árið 2006. 

„Áður en ég kom til Íslands hafði ég stundað nám í þýskum og enskum fræðum við Konstantín-háskólann í Nitra sem er mjög þekktur kennaraháskóli í heimalandi mínu. Áhugi minn á íslensku kviknaði þegar ég heyrði fyrst um Eddukvæði í námskeiði um þýskar bókmenntir sem ég var skráður í við háskólann úti. Í námskeiðinu var mikið talað um Ísland og Snorra Sturluson. Þar var einnig lesin þýsk þýðing á Eddukvæðum og Niflungasögu,“ segir hann.

Ári síðar rakst hann auglýsingu um styrki til BA-náms í íslensku sem íslensk stjórnvöld veittu til erlendra stúdenta og ákvað að sækja um. „Það var einhvern veginn ólýsanleg tilfinning þegar ég fékk bréf frá Íslandi þar sem mér var tilkynnt að ég hefði fengið styrk. Ég gat þá látið drauminn minn rætast,“ segir hann. 

Branislav lauk BA-prófi í íslensku sem öðru máli árið 2009 og hélt þá aftur heim til Slóvakíu. „Eftir tveggja ára dvöl í heimalandi mínu ákvað ég að snúa aftur til Íslands og búa hér. Ég hafði þá einnig lokið meistaranámi í enskum og þýskum fræðum. Ég vildi halda áfram í doktorsnám þar sem ég gat nýtt þekkingu mína úr almennum málvísindum og skrifað um það hvernig fólk lærir önnur tungumál,“ segir Branislav.

Doktorsnámið eins og sérhannað fyrir mig

Honum varð að ósk sinni þegar hann sá auglýsingu um doktorsnám í annarsmálsfræðum við Háskóla Íslands. „Þetta var eins og sérhannað nám fyrir mig,“ segir Branislav sem skráði sig í nám í annarsmálsfræði með áherslu á íslensku sem annað mál 2012. Hann lét ekki þar við sitja heldur stundaði samhliða meistaranám í þýsku með áherslu á notkun tungumálsins í ferðaþjónustu og lauk því árið 2015. 

Doktorsverkefni Branislavs í annarsmálsfræði var á sviði tölvustuddrar tungumálakennslu þar sem gervigreind og málgreining koma við sögu, en það tengdist þróun tölvuleiks sem nefnist „Virtual Reykjavik“. „Markmið verkefnisins var að búa til þrívíddartölvuleik með sýndarspjallverum og þannig styðja við hagnýta kennslu á íslensku máli og menningu með sérstaka áherslu á að æfa talmálsfærni. Þetta verkefni varð fyrir valinu vegna þess að mér fannst það frumlegt og spennandi  og snerist einmitt um það sem ég hafði að markmiði – að bæta við þekkingu mína í kennslu íslensku sem annars máls með aðstoð tölvu,“ segir Branislav sem sökkti sér ofan í tölvunarfræði og hönnun tölvuleikja til að öðlast betri skilning á samspili tölva og tungumála. 

Við hönnun sýndarveruleika er að mörgu að hyggja og hlutverk Branislavs í doktorsverkefninu var m.a. að rannsaka hið sagða og ósagða í svokölluðum skýringarbeiðnum meðal Íslendinga. 
„Verkefnið fólst í því að safna raunverulegum samskiptum milli fólks í miðbæ Reykjavíkur. Samskiptin voru tekin upp á myndavél og umrituð. Auk þess skoðaði ég hegðun fólks í samtölum og lýsti hvernig fólk talaði, þ.e. hvaða yrt og óyrt atriði það notaði í samskiptum við aðra. Þetta var gert til þess að hanna raunsæja og fjölþætta hegðun fyrir sýndarspjallverur og þannig bæta námsupplifun nemenda í tölvuleiknum. Ég einbeitti mér að skýringarbeiðnum sem ég lýsti í doktorsritgerðinni minni, en vinnan í verkefninu fólst líka í því að hanna námsefni fyrir tölvuleikinn og að gera forprófun með nemendum sem spiluðu hann,“ segir Branislav sem vann doktorsverkefnið undir leiðsögn Birnu Arnbjörnsdóttur, prófessors í annarsmálsfræði við Háskóla Íslands, og Hannesar Högna Vilhjálmssonar, prófessors við Háskólann í Reykjavík.

Branislav á doktorsvörn sinni í Hátíðasal Háskóla Íslands í desember síðastliðnum. „Verkefnið fólst í því að safna raunverulegum samskiptum milli fólks í miðbæ Reykjavíkur. Samskiptin voru tekin upp á myndavél og umrituð. Auk þess skoðaði ég hegðun fólks í samtölum og lýsti hvernig fólk talaði, þ.e. hvaða yrt og óyrt atriði það notaði í samskiptum við aðra. Þetta var gert til þess að hanna raunsæja og fjölþætta hegðun fyrir sýndarspjallverur og þannig bæta námsupplifun nemenda í tölvuleiknum.“ MYND/Gunnar Sverrisson

Stuðlar að útbreiðslu íslenskunnar í starfi

Aðspurður um niðurstöður verkefnisins segist Branislav afar sáttur við þær. „Þegar ég byrjaði á greiningu gagna þá leit út fyrir að ég myndi „bara“ ná  að lýsa öllu því sem nú þegar er þekkt. En raunin varð sú að ég fann eitt nýtt dæmi sem enginn annar hafði fundið áður í töluðu máli og það var svo kallaður frosinn svipur (e. freeze look) sem fólk setur upp þegar það heyrir eða skilur ekki hvað hinir hafa sagt. Þetta gerist í raunverulegum samskiptum augliti til auglitis. Ég lagði til sex fjölþætt líkön af skýringarbeiðnum sem eiga að stuðla að raunhæfara samspili nemanda og sýndarspjallvera í tölvuleiknum, og „frosni svipurinn“ var eitt af þeim. Með þessu geta sýndarspjallverurnar útfært eina af sex mismunandi skýringarbeiðnum þegar þær skilja ekki hvað nemandinn hefur sagt þeim. Og þetta skapar aukið tækifæri fyrir nemandann að æfa sig betur í tali með því að endurtaka sig án þess að finna fyrir truflun í samskiptum,“ útskýrir Branislav. Hann segir jafnframt aðspurður að þróun tölvuleiksins hafi ekki gengið eins hratt og vonast hafi verið eftir undanfarin ár, m.a. vegna fjárskorts. 

Branislav hefur samhliða lokasprettinum í doktorsnámi starfað sem verkefnisstjóri á alþjóðasviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þar sinnir hann fjölbreyttum og spennandi verkefnum og stuðlar m.a. að því að áhugafólk um íslenska tungu úti í heimi geti látið drauma sína rætast eins og hann og komið hingað til lands til að læra tungumálið til lengri eða skemmri tíma. „Ég hef m.a. umsjón með íslenskukennurum við háskóla erlendis og styrkjum í íslensku sem öðru máli á BA-stigi og styttri alþjóðlegum námskeiðum í íslensku. Svo vinn ég jafnframt að verkefnum sem styðja við kennslu í íslensku sem öðru máli með aðstoð tölvu,“ segir hann og ljóst má vera að þar kemur doktorsgráðan sannarlega að góðum notum. 

Branislav Bédi