Íslenska lopapeysan nú verndað vöruheiti  | Háskóli Íslands Skip to main content
13. mars 2020

Íslenska lopapeysan nú verndað vöruheiti 

Nýverið úrskurðaði Matvælastofnun Íslands að hin íslenska lopapeysa (Icelandic Lopapeysa) væri verndað afurðaheiti. Handprjónasamband Íslands var umsóknaraðili ásamt fleirum söluaðilum og umsóknin var byggð á fræðilegum skrifum Ásdísar Jóelsdóttur, lektors í textíl og hönnun við Deild faggreinakennslu á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Ásdís hefur rannsakað uppruna, sögu og hönnun íslensku lopapeysunnar um árabil og gaf árið 2017 út ritrýnt rit um rannsóknir sínar. Ásdís, sem jafnframt hefur verið í forsvari fyrir umsóknaraðila, segir þetta gríðarlega mikilvægt skref fyrir prjónara, hönnuði og framleiðendur íslensku lopapeysunnar. „Hún er séríslensk frumhönnun sem á uppruna sinn í prjóna- og munsturhefð frá því fyrir miðja síðustu öld en hún á líka rætur í íslenskri prjóntækni og munsturfyrirmyndirnar má finna margar aldir aftur í tímann,“ segir Ásdís.  

Vinsældir íslensku lopapeysunnar hafa aukist umtalsvert á undanförnum árum, ekki síst meðal þess fjölda ferðamanna sem sækir landið heim. MYND/Handprjónasamband Íslands

Í umsókn Handprjónasambandsins kemur fram að sala og eftirspurn á íslenskum lopapeysum hafi aukist verulega og ferðamenn sýni henni mikinn áhuga. Því sé verndun vöruheitisins mikilvægt skref til að tryggja rekjanleika peysunnar, að hún sé raunverulega prjónuð úr íslenskum lopa og handprjónuð á Íslandi.  

Helstu skilyrði þess að peysa sé „íslensk lopaleysa“ eru eftirfarandi:  
1.    Ullin sem notuð er í handprjónaðar íslenskar lopapeysur skal vera klippt af íslensku sauðfé. 
2.    Í peysuna skal notuð nýull, þ.e. ull sem ekki er endurunnin. 
3.    Peysan skal vera prjónuð úr lopa, s.s. plötulopa, Léttlopa, Álafosslopa og svo framvegis. 
4.    Peysan skal hafa hringprjónað berustykki með munsturformum og/eða munsturbekkjum frá herða- og axlalínu að hálsmáli 
5.    Peysan skal vera handprjónu á Íslandi 
6.    Peysan skal vera prjónuð í hring án sauma (samsetningar) 
7.    Peysan skal vera opin eða heil.  

ásdís jóelsdóttir