Skip to main content
30. september 2019

Íslensk málnefnd verðlaunar Vísindavefinn og Icelandic Online

Tvö verkefni innan Háskóla Íslands, Vísindavefurinn og Icelandic Online, fengu viðurkenningu Íslenskrar málnefndar fyrir vel unnin störf á sviði málræktar á Málræktarþingi sem fram fór í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins 26. september. 

Íslensk málnefnd hefur starfað í 55 ár og hefur það hlutverk að veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu á fræðilegum grundvelli og gera tillögur til ráðherra um málstefnu auk þess að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu. Málnefndin hefur einnig veitt viðurkenningar fyrir það sem vel er gert á svið málræktar eða er líklegt til að efla íslenska tungu. 

Á Málræktrarþingi þann 26. september, sem haldið var undir yfirskriftinni „Hjálpartæki íslenskunnar“, fengu þrír aðilar viðurkenningar: 
-    Vísindavefur Háskóla Íslands fyrir skilvirka og vandaða þjónustu við almenning og miðlun þekkingar um margvísleg málefni  á netinu á íslensku.
-     Samtök ferðaþjónustunnar og Hæfnisetur ferðaþjónustunnar fyrir kennsluvefinn „Orðin okkar á íslensku“ sem ætlað er að auðvelda erlendu starfsfólki að tileinka sér þann orðaforða sem nauðsynlegastur er á hverju sviði.
-    Icelandic Online fyrir íslenskunámskeiðið „Bjargir“ sem ætlað er að auðvelda innflytjendum að ná sem fyrst nauðsynlegum tökum á málinu til þátttöku í starfi og daglegu lífi.

Þau Jón Gunnar Þorsteinsson, ritstjóri Vísindavefsins, og Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor í annarsmálsfræðum og einn af aðstandendum Icelandic Online, tóku við viðurkenningunum úr hendi Guðrúnar Kvaran, formanns Íslenskrar málnefndar. 

Vísindavefurinn hefur verið í hópi vinsælustu vefja landsins undanfarin ár samkvæmt mælingum Modernus en hann var stofnaður árið 2000. Svörin á Vísindavefnum eru orðin rúmlega 12.000 og var síðum vefsins flett um þremur milljón sinnum á síðasta ári.

Icelandic Online er samstarfsverkefni Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Vefurinn geymir vefnámskeið í íslensku sem öðru máli og hefur verið í þróun allt frá árinu 2004. Notendur vefsins skipta tugum þúsunda og eru bæði hér á landi og víða annars staðar í heiminum.

Frá afhendingu viðurkenninga Íslenskrar málnefndar. Frá vinstri: Jón Gunnar Þorsteinsson, ritstjóri Vísindavefsins, Sveinn Aðalsteinsson hjá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar, María Guðmundsdóttir hjá Samtökum ferðaþjónustunnar, og Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor og einn af aðstandendum Icelandic online.