Skip to main content
6. apríl 2022

Íslensk handrit varðveittust betur en önnur

Íslensk handrit varðveittust betur en önnur - á vefsíðu Háskóla Íslands

Katarzyna A. Kapitan, fyrrverandi nýdoktor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, er meðal höfunda greinar um miðaldasögur sem birt hefur verið í Science og vakið hefur talsverða athygli erlendra fjölmiðla, t.d. Politiken og The Times. Greinin nefnist „Forgotten books: The application of unseen species models to the survival of culture“ og fjallar um hlutfall glataðra miðaldasagna í löndum Evrópu þar sem íslenskar riddara- og fornsögur koma til skoðunar.

Katarzyna starfar nú sem rannsóknarmaður í íslenskum handritafræðum við Oxford-háskóla, en hún lauk meistaranámi í íslenskum miðaldafræðum árið 2014 og að loknu doktorsnámi við Árnasafn í Kaupmannahöfn 2018 gegndi hún stöðu nýdoktors við Íslensku- og menningardeild þar sem hún hóf þá rannsókn sem hennar hluti greinarinnar í Science byggir á. Aðrir höfundar eru fræðimenn við Oxford, Kaupmannahafnarháskóla og víðar. Í greininni er notast við tölfræðileg reiknilíkön úr vistfræði til að leggja mat á fjölda glataðra fornsagna og komast höfundar að þeirri niðurstöðu að um 83% íslenskra miðaldahandrita með riddara- og fornsögum hafi glatast. Það gefur til kynna að íslensk handrit hafi varðveist talsvert betur en handrit frá öðrum löndum sem rannsökuð voru.

Hér má lesa greinina í Science.

Heimasíða rannsóknarverkefnisins.

Katarzyna A. Kapitan