Skip to main content
18. september 2020

Íslensk börn telja sig læra íslensku í skóla en ensku úti í samfélaginu

""

Mun fleiri börn hefja snjalltækjanotkun fyrir tveggja ára aldur nú en fyrir tæpum áratug og þá telja börn sig læra íslensku í skólum en ensku í gegnum áhorf og tölvuleikjaspilun. Þetta er meðal niðurstaðna í viðamikilli rannsókn málvísindafólks við Háskóla Íslands á stöðu íslenskunnar á tímum stafrænna samskipta og snjalltækja. Aðstandendur verkefnisins eru meðal þeirra sem taka þátt í hinu árlega Hugvísindaþingi sem fer fram dagana 18. og 19. september en það er haldið á netinu að þessu sinni vegna kórónuveirufaraldursins.

Rannsóknarverkefnið sem um ræðir nefnist Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis. Það hlaut öndvegisstyrk að upphæð nærri 120 milljónum króna úr Rannsóknasjóði Íslands árið 2016 og fyrir því fóru prófessorarnir Sigríður Sigurjónsdóttir og Eiríkur Rögnvaldsson. Verkefnið stóð í alls þrjú ár en þar var m.a. varpað ljósi á:

(1) hversu mikið máláreiti íslenskir málnotendur fá, bæði á íslensku og ensku, 
(2) viðhorf málnotenda til beggja mála,
(3) íslenskan og enskan orðaforða málnotenda og 
(4) málkunnáttu og málnotkun málnotenda á hvoru máli. 

„Við könnuðum þessi atriði með fimm gerðum af viðamikilli netkönnun í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Þátttakendur voru handahófskennt úrtak Íslendinga á aldrinum 13‒98 ára annars vegar og hins vegar stór hópur barna á aldinum 3‒12 ára. Við kölluðum einnig til okkar 240 þátttakendur í netkönnununum í viðtöl og ítarlegri prófanir. Þátttakendur 10 ára og eldri komu tvisvar í viðtöl sem stóðu í um einn og hálfan tíma en 3‒9 ára börnin komu þrisvar sinnum í um klukkutíma í senn. Einnig var rætt við foreldra þeirra. Auk þessara tveggja meginrannsóknaraðferða tókum við viðtöl við rýnihópa og kennara í skólum,“ útskýrir Sigríður.

Ómetanleg vitneskja um stöðu íslenskunnar

Auk hennar og Eiríks samanstóð rannsóknarhópurinn af fimm málfræðingum við Háskóla Íslands og Árnastofnun, forstöðumanni Félagsvísindastofnunar og fimm erlendum samstarfsaðilum auk þriggja doktorsnema, átta meistaranema og fjölda BA-nema sem unnu að efnissöfnun og úrvinnslu gagna. „Allt þetta fólk á sinn þátt í afrakstri verkefnisins,“ segir Sigríður og bætir við að gríðarlegt magn gagna liggi nú fyrir en úrvinnsla þeirra sé mislangt komin. 

„Þessi gögn gefa okkur ómetanlega vitneskju um stöðu íslenskunnar á tímum náins sambýlis við ensku í gegnum snjalltæki og netmiðla auk þess að varpa ljósi á enskukunnáttu landsmanna og viðhorf þeirra til íslensku og ensku. Gögnin hafa einnig alþjóðlegt gildi, t.d. hvað varðar spurningar um tengsl máltöku og málbreytinga í nútímasamfélagi,“ segir Sigríður enn fremur. Þess má geta að tvær doktorsritgerðir eru í smíðum sem byggja á verkefninu og nú þegar liggja fyrir átta meistaraprófsritgerðir byggðar á gögnunum auk þess sem nokkrir BA-nemar hafa nýtt sér gögn úr verkefninu til að skrifa lokaritgerðir. „Þá hafa aðstandendur verkefnisins flutt meira en hundrað erindi og fyrirlestra á síðustu árum og nokkur fjöldi ritrýndra greina hefur nú þegar verið birtur eða bíður birtingar.“ 

Aðstæður og umhverfi íslenskunnar breyst á síðustu árum

Aðspurð segir Sigríður niðurstöður verkefnisins undirstrika að umhverfi og aðstæður íslenskunnar hafi breyst á síðustu árum. „Til dæmis eru íslensk börn miklu yngri í dag þegar þau hefja snjalltækjanotkun. 47 prósent 3‒5 ára barna í netkönnun okkar voru tveggja ára eða yngri þegar þau hófu snjalltækjanotkun en í könnun sem Heimili og skóli stóðu fyrir árið 2013 reyndust aðeins 2 prósent íslenskra barna hafa byrjað að nota netið fyrir þriggja ára aldur,“ bendir Sigríður á. 

Einnig leiða niðurstöður rannsóknarhópsins í ljós að 37 prósent 3‒5 ára og 62 prósent 6‒7 ára barna spila tölvuleiki á ensku a.m.k. tvisvar í viku. „Athyglisvert er að þótt hlutfall kynjanna í tölvuleikjaspilun sé nokkuð svipað í 6‒7 ára aldurshópnum þá kemur fram munur milli kynja þar sem drengir spila frekar tölvuleiki á ensku en stelpur á íslensku. Í 8‒12 ára aldurshópnum er svo kominn fram töluverður kynjamunur í spilun tölvuleikja þar sem mun fleiri strákar en stelpur spila tölvuleiki, hvort sem þeir eru á íslensku eða ensku, og munurinn á milli kynjanna er sérstaklega mikill í tölvuleikjum með gagnvirkum samskiptum við aðra spilara, sem fleiri strákar spila en stelpur,“ bætir hún við.

Prófessorarnir Sigríður Sigurjónsdóttir og Eiríkur Rögnvaldsson stýrðu hinu viðamikla öndvegisrannsóknarverkefni Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis sem lauk nýverið og skilaði gríðarmikilvægum gögnum. „Þessi gögn gefa okkur ómetanlega vitneskju um stöðu íslenskunnar á tímum náins sambýlis við ensku í gegnum snjalltæki og netmiðla auk þess að varpa ljósi á enskukunnáttu landsmanna og viðhorf þeirra til íslensku og ensku. Gögnin hafa einnig alþjóðlegt gildi, t.d. hvað varðar spurningar um tengsl máltöku og málbreytinga í nútímasamfélagi,“ segir Sigríður. MYND/Kristinn Ingvarsson

Viðhorf til móðurmáls gefa vísbendingar um framtíðarhorfur þess

Niðurstöðurnar varpa enn fremur athyglisverðu ljósi á viðhorf barna til tungumálanna tveggja í tengslum við skólastarf. „Börnin tengja góða færni í íslensku við íslenskukennslu í skólanum þar sem þau læri að tala ,,rétt mál“ sem er mikilvægt til að öðlast virðingu eldra fólks. Í skólanum telja þau sig hins vegar læra litla ensku því hana læri þau frekar af því að horfa á enskt efni og spila tölvuleiki í frítíma sínum. Það er áhugavert að 3‒12 ára börn telji sig þurfa að læra móðurmál sitt í skóla en erlenda eða annað málið, ensku, læri þau úti í samfélaginu,“ segir Sigríður og  bætir við að þessar niðurstöður séu mjög athyglisverðar þar sem viðhorf til tungumála í málsambýlisaðstæðum ráði miklu um framtíð þeirra. 

„Að lokum má nefna að mikil enska í málumhverfi 10‒12 ára barna og áhugi þeirra á ensku hefur marktæk jákvæð áhrif á málfræðiþekkingu þeirra á ensku sem samræmist málhefð. Þar sem enskan í málumhverfi íslenskra barna er að miklu leyti óvirk, þ.e. áhorf, hlustun og lestur, en ekki gagnvirk, þ.e. tal og skrif, þá eru þetta áhugaverðar niðurstöður út frá vangaveltum um hvers konar efni nýtist í tungumálanámi. Mikil óvirk enska í gegnum snjalltæki hefur hins vegar almennt ekki marktæk neikvæð áhrif á íslenskufærni þátttakenda fyrir utan hefðbundna notkun viðtengingarháttar í máli 3‒12 ára barna,“ bætir Sigríður enn fremur við um niðurstöðurnar.

Aðspurð segir Sigríður niðurstöður verkefnisins varpa ótvíræðu ljósi á stöðu íslenskunnar nú á dögum og gefa fyrirheit um framtíðina. „Viðhorf málnotenda til móðurmálsins gefa vísbendingar um framtíðarhorfur þess og munur á orðaforða og málnotkun mismunandi aldurshópa getur spáð fyrir um breytingar á íslenskunni á næstu áratugum.“

Fjallað um niðurstöðurnar á Hugvísindaþingi

Sem fyrr segir liggur fyrir ógrynni gagna frá þessu viðamikla verkefni og segir Sigríður að rannsóknarhópurinn hyggist sækja um frekari styrki til að vinna enn betur úr þeim. „Sú vitneskja sem aflað var í verkefninu hefur ekki aðeins fræðilegt gildi heldur einnig hagnýtt og getur nýst á ýmsum sviðum, t.d. í kennslu og málræktarstarfi. Einnig teljum við mikilvægt að endurtaka rannsókn okkar eða gera svipaða könnun á ákveðnu árabili til að kanna stöðuna,“ segir Sigríður enn fremur.

Sigríður og samstarfsfólk hennar mun kynna hluta niðurstaðnanna á árlegu Hugvísindaþingi í Háskóla Íslands sem fer fram á netinu dagana 18. og 19. september. „Málstofa okkar er á dagskrá laugardaginn 19. september kl. 13 en hver málstofa verður viðburður á Facebook. Upptökur verða síðan aðgengilegar á YouTube-rás Hugvísindasviðs og því getur fólk horft á viðburði þegar því hentar. Við Eiríkur Rögnvaldsson, Dagbjört Guðmundsdóttir og Iris Edda Nowenstein verðum með þrjá fyrirlestra þar sem gerð verður grein fyrir forsendum verkefnisins, rannsóknarspurningum og -aðferðum, helstu niðurstöðum meistararitgerða sem skrifaðar hafa verið innan verkefnisins og nokkrum niðurstöðum sem nú þegar liggja fyrir um íslenskt málumhverfi og viðhorf málnotenda til íslensku og ensku. Niðurstöður ítarlegrar tölfræðilegrar greiningar á gögnum úr verkefninu verða kynntar síðar á öðrum vettvangi,“ segir Sigríður að endingu en hægt er að kynna sér heildardagskrá Hugvísindaþings á vef þingsins.

Sigríður Sigurjónsdóttir