Skip to main content
8. október 2019

Íslendingar hafa margt að bjóða í rannsóknum og kennslu á norðurslóðum

Íslendingar hafa margt að bjóða í rannsóknum og kennslu á norðurslóðum - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Í ljósi þess mikilvægis sem norðurslóðir nú hafa, m.a. vegna loftslagsbreytinga og margvíslegra áskoranna sem þeim fylgja, er ljóst að Íslendingar þurfa að láta málefni norðursins meira til sín taka. Það þarf að efla rannsóknasamstarf á mörgum sviðum og þar geta Íslendingar lagt hönd á plóginn. Það á jafnt við rannsóknir og menntun sem tengist samfélögum á norðurslóðum, rannsóknir á þeim miklu breytingum sem nú eru að verða á náttúrunni og leit að lausnum, bæði samfélagslegum og tæknilegum, til að treysta byggð og samfélög. Öflugri þátttaka í University of the Arctic er liður í þessari auknu áherslu.“ Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor við Jarðvísindadeild, sem varð á dögunum fyrstur Íslendinga til að taka sæti í háskólaráði University of the Arctic (UArctic), risastórs samstarfsnets háskóla sem Háskóli Íslands á aðild að. Netið stendur fyrir stórri ráðstefnu hér á landi á næsta ári.

University of the Arctic  er samstarfsnet háskóla og menntastofnana á háskólastigi sem vinna að menntun og rannsóknum á norðurskautssvæðinu. Alls eru nú um 200 háskólar og stofnanir víða um heim aðilar að UArctic og hefur Háskóli Íslands verið hluti af samstarfsnetinu frá árinu 2011. Á þingi University of the Arctic í Stokkhólmi í september var Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði og deildarforseti Jarðvísindadeildar, kosinn í háskólaráð UArctic en sem fyrr segir er hann fyrstur Íslendinga til þess að vera kjörinn þar inn.

Vísindamenn HÍ taka þátt í fjölmörgum rannsóknanetum UArctic

Háskólaráðið skipa 15 manns og starfar það að sögn Magnúsar Tuma með stjórn UArctic að því að vinna að og hrinda í framkvæmd stefnu samstarfsnetsins. „Málefni íbúa norðurslóða er ofarlega á baugi innan UArctic, tækifæri fólks til háskólanáms og hvernig hægt er að styrkja innviði og samfélög með þeim hætti.  Unnið er að stúdentaskiptum milli háskóla og fjöldi rannsóknaneta á mörgum sviðum starfa undir hatti UArctic,“ segir Magnús Tumi.

Vísindamenn Háskólans hafa tekið þátt í fjölmörgum rannsóknarnetum innan samstarfsins á undanförnum ára, m.a. á sviði öryggis á norðurslóðum, sjálfbærni og samfélagslegrar ábyrgðar, ferðaþjónustu á norðurslóðum, félagsráðgjafar og menntunar kennara í þágu félagslegs réttlætis og fjölbreytileika í skólastarfi.

„Sérþekking á mörgum atriðum sem nýst geta norðurslóðum er því fyrir hendi. Ef einnig er horft er til sérþekkingar á sérsviðum annarra háskóla hér á landi er ljóst að Ísland á margt að bjóða í samstarfi, bæði hvað varðar kennslu og rannsóknir á norðurslóðum,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson.

Auk Háskóla Íslands eru Háskólinn á Akureyri, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Háskólinn á Bifröst, Landbúnaðarháskólinn, Háskólinn á Hólum, Háskólinn í Reykjavík, Listaháskólinn og Háskólasetrið á Vestfjörðum aðilar að UArctic. Magnús Tumi segist líta svo á að hlutverk sitt í ráðinu sé að auka hlut þessara stofnana innan þessa mikla samstarfsnets. „Sumar þær áskoranir sem frumbyggjar víða í norðrinu glíma við eru ekki svo ólíkar þeim sem þekktar eru í hinum dreifðu byggðum Íslands.  Bæði getum við lært af öðrum en einnig miðlað af okkar reynslu og þekkingu,“ segir hann.

Aðspurður hvað Háskóli Íslands hafi fram að færa í samstarfið bendir Magnús Tumi á að innan veggja skólans séu stundaðar öflugar rannsóknir í félags- og hugvísindum, náttúruvísindum og verkfræði. „Sérþekking á mörgum atriðum sem nýst geta norðurslóðum er því fyrir hendi. Ef einnig er horft er til sérþekkingar á sérsviðum annarra háskóla hér á landi er ljóst að Ísland á margt að bjóða í samstarfi, bæði hvað varðar kennslu og rannsóknir á norðurslóðum,“ bætir hann við.

Stór ráðstefna á vegum UArctic á Íslandi á næsta ári

Við þetta má bæta að University of the Arctic stendur fyrir stórri ráðstefnu hér á landi 5.-8. október á næsta ári í tengslum við hina árlegu Arctic Circle ráðstefnu í Hörpu. Að ráðstefnu UArctic standa íslenskir háskólar í sameiningu og er von á stórum hópi gesta hingað til lands vegna hennar. Ráðstefnan er tengd formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og þar verður sérstök áhersla á að fjalla um loftslagsmál og grænar orkulausnir, íbúa á norðurslóðum og vistkerfi sjávar á svæðinu. Fulltrúar íslenskra háskóla munu kynna þessa viðamiklu ráðstefnu á Arctic Circle sem fer fram í Hörpu dagana 10.-12. október nk. Nánari upplýsingar um ráðstefnu UArctic á næsta ári eru á vefsíðu hennar.

"Magnús Tumi Guðmundsson"