Skip to main content
6. janúar 2020

Ingjaldssjóður styrkir tónlistar- og viðskiptafræðinema til framhaldsnáms

""

Þrír tónlistarnemendur í framhaldsnámi og einn nemandi í viðskiptafræði erlendis fengu á dögunum styrk úr Ingjaldssjóði við Háskóla Íslands. Þetta er í fjórða sinn sem úthlutað er úr sjóðnum og er heildarupphæð úthlutaðra styrkja 3 milljónir króna. 

Ingjaldssjóður var stofnaður 17. nóvember 2015 til minningar um dr. Ingjald Hannibalsson, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Ingjaldur starfaði lengst af við Háskóla Íslands og arfleiddi hann skólann að öllum eigum sínum. Stofnfé sjóðsins nam rúmlega sjötíu milljónum króna og frá stofnun hafa jafnframt borist gjafir í sjóðinn. Samkvæmt fyrirmælum sem sett voru fram í erfðaskrá Ingjalds skal sjóðurinn styrkja efnilega íslenska námsmenn við Háskóla Íslands til framhaldsnáms erlendis í rekstrarstjórnun og alþjóðlegum viðskiptum eða nemendur í tónlist. Stjórn sjóðsins skipa Karólína Eiríksdóttir, Þórður Sverrisson og Runólfur Smári Steinþórsson, sem er formaður sjóðsins.

Styrkhafar árið 2019:
Bryndís Guðjónsdóttir
sópransöngkona er í meistaranámi í óperusöng og sviðslistum við Mozarteum-listaháskólann í Salzburg í Austurríki. Bryndís, sem er fædd árið 1993, byrjaði að syngja í Skólakór Kársness hjá Þórunni Björnsdóttur. Hún hóf tónlistarnám í Tónlistarskóla Kópavogs árið 2001 og lagði þar stund á píanónám hjá Erlu Stefánsdóttur og söngnám hjá Önnu Júlíönu Sveinsdóttur. Árið 2015 lá leiðin í Listaháskóla Íslands til náms í söng hjá Þóru Einarsdóttur, Kristni Sigmundssyni og Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur. Ári seinna hóf Bryndís síðan nám við Mozarteum-listaháskólann í Salzburg undir handleiðslu Michèle Crider prófessors. Bryndís lauk BA-námi frá Mozarteum með hæstu einkunn í júní 2019 og skilaði tveimur BA -ritgerðum.  Árið 2018 var Bryndís sigurvegari í samkeppninni Ungum einleikurum og söng í Hörpu með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Sama ár sigraði hún Duschek-keppnina í Prag og söng sem sólóisti í Gasteig í München. Árið 2019 söng Bryndís hlutverk Giuliettu úr Ævintýrum Hoffmanns í Mozarteum og Næturdrottninguna úr Töfraflautunni með Berlin Opera Academy. Þá söng hún Níundu sinfóníu Beethovens í Hörpu nú í haust. Bryndís stefnir á að ljúka meistaranáminu árið 2021.

Pétur Eggertsson tónskáld er í meistaranámi í tónsmíðum við Mills College í Oakland í Kaliforniu. Pétur, sem er fæddur árið 1985, lærði á fiðlu og píanó fram á unglingsár í ýmsum tónlistarskólum á Íslandi og í Bretlandi. Hann kynntist snemma heimi tilrauna- og raftónlistar og fann sig knúinn til þess að þróa einstaka rödd sem tónskáld. Með tónlist sinni varpar Pétur fram spurningum um þá menningu sem umlykur sígilda og samtímatónlist og leitar þar að hugmyndafræðilegu sambandi milli tónlistar og samfélags. Verk hans ganga þvert á listform og eru jafnframt rannsóknir á hvernig önnur efni en hljóð, líkt og myndefni, hreyfingar og hlutir geta verið notuð í tónsmíðum. Pétur útskrifaðist með BA-gráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands árið 2018 þar sem hann lærði hjá Einari Torfa Einarssyni og Jesper Pedersen. Tónlist Péturs hefur verið flutt í Bandaríkjunum, Bretlandi, Danmörku, Eistlandi, Hollandi, Íslandi og Svíþjóð, á hátíðum á borð við Cycle, LungA, Tut Töt Tuð og Ung Nordisk Musik. Pétur hefur starfað og spilað með tónlistar- og listafólki á borð við Caput Ensemble, Daníel Bjarnason, David Behrmann, Eclipse Quartet, Ensemble Adapter, Goodiepal, Hjálmar H. Ragnarsson, Lilju Maríu Ásmundsdóttur, Meredith Monk, MOCREP, Okkyung Lee, S.L.Á.T.U.R. og Wendy Reid. Pétur stefnir á að ljúka meistaranáminu árið 2020. 
 

Ingjaldssjóður var stofnaður 17. nóvember 2015 til minningar um dr. Ingjald Hannibalsson, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Ingjaldur starfaði lengst af við Háskóla Íslands og arfleiddi hann skólann að öllum eigum sínum. tjórn sjóðsins skipa Karólína Eiríksdóttir, Þórður Sverrisson og Runólfur Smári Steinþórsson, sem er formaður sjóðsins. MYND/Gunnar Sverrisson

Sólveig Steinþórsdóttir stundar meistaranám í fiðluleik við Listaháskólann í Zürich. Sólveig er fædd í Reykjavík árið 1995 og hóf fiðlunám þriggja ára gömul við Allegro Suzukitónlistarskólann undir handleiðslu Lilju Hjaltadóttur. Árið 2009 hóf hún nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og var kennari hennar þar Guðný Guðmundsdóttir. Haustið 2014 hóf hún nám við Listaháskólann í Berlín, þar sem kennari hennar var Erika Geldsetzer, og lauk þaðan BA-prófi í febrúar 2019. Síðan þá hefur hún stundað meistaranám hjá Rudolf Koelman í Zürich þar sem hún sækir einnig tíma í barokkfiðluleik hjá Moniku Baer. Nýverið kom Sólveig fram sem einleikari með Das kleine Zürcher Ensemble, þar sem hún lék Zigeunerweisen eftir Sarasate á þrennum tónleikum í Zürich og nágrenni, og með strengjasveitinni ZHdK strings þar sem hún lék fiðlukonsert í a-moll eftir J. S. Bach á tónleikum í Winterthur. Sólveig hefur einnig spilað við ýmis tilefni heima á Íslandi, m.a. á tónleikum á Tónlistarhátíð unga fólksins í Salnum í Kópavogi, á tónleikaröðinni Tónleikar farfugla í Hannesarholti og Á ljúfum nótum í Fríkirkjunni, og sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins. Einnig hefur hún verið meðlimur í Kammersveitinni Elju frá því að sveitin var stofnuð árið 2017. Sólveig stefnir á að ljúka meistaranáminu árið 2021.

Lárus Sindri Lárusson stundaði nám við Verzlunarskóla Íslands og lauk þaðan stúdentsprófi vorið 2012. Meðfram námi sínu fram að stúdentsprófi stundaði Lárus nám í píanóleik, fyrst í Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og síðar í Tónlistarskóla Árbæjar. Eftir stúdentspróf lá leiðin að Háskólanum á Hólum í Hjaltadal þaðan sem hann útskrifaðist með BS-gráðu í reiðmennsku og reiðkennslu vorið 2015. Haustið 2016 hóf hann nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands þaðan sem hann útskrifaðist með BS-gráðu af fjármálasviði í vor. Hann hóf svo meistaranám í viðskiptafræði og rekstrarstjórnun við Copenhagen Business School. Lárus Sindri stefnir á að ljúka meistaranáminu vorið 2021. 

Ingjaldssjóður, minningarsjóður Ingjalds Hannibalssonar prófessors, er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn Háskóla Íslands. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir sjóðanna starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til ávinnings fyrir starf Háskóla Íslands með styrkjum til stúdenta og starfsfólks.

Frekari upplýsingar er að finna á sjóðavef Háskóla Íslands

Frá vinstri: Sólveig Steinþórsdóttir, Bryndís Guðjónsdóttir, Lárus Sindri Lárusson og Pétur Eggertsson.
Styrkhafar ásamt rektor og stjórn sjóðsins. Frá vinstri: Jón Atli Benediktsson, Sólveig Steinþórsdóttir, Bryndís Guðjónsdóttir, Lárus Sindri Lárusson, Pétur Eggertsson, Þórður Sverrisson, Karólína Eiríksdóttir og Runólfur Smári Steinþórsson.