Skip to main content
31. október 2018

Í hópi þeirra fremstu á sviði hugvísinda

Háskóli Íslands er í hópi 250 bestu háskóla heims á sviði hugvísinda. Þetta sýnir spánnýr listi tímaritsins Times Higher Education sem birtur var í dag og er þetta annað árið í röð sem skólinn ratar á þennan virta lista sem tekur til hugvísinda.

Times Higher Education birtir jafnan að hausti lista yfir bestu háskóla heims, sem nefnist Times Higher Education University Rankings. Háskóli Íslands hefur verið í hópi þeirra 300 fremstu allt frá árinu 2011 og þar með meðal þeirra tveggja prósenta háskóla sem hæst eru metnir í heiminum.

Tímaritið hefur á undanförnum árum einnig birt lista yfir fremstu háskóla heims á afmörkuðum fræðasviðum, þar á meðal á sviði hugvísinda. Háskóli Íslands var í fyrsta sinn á þeim lista í fyrra og raðaðist þá í sæti 201-250. Skólinn heldur stöðu sinni á listanum í ár sem er mikið afrek í ljósi þeirrar hörðu samkeppni sem ríkir milli háskóla á alþjóðavettvangi. 

Mat Times Higher Education á bestu háskólum heims í hugvísindum nær til allra helstu fræðigreina fræðasviðsins, þ.e.  tungumála, bókmennta, málvísinda, sagnfræði, fornleifafræði, heimspeki, guðfræði, arkitektúrs og ýmissa listgreina. Matið snýr að þrettán þáttum í starfi háskóla, m.a. rannsóknastarfi, áhrifum rannsókna viðkomandi háskóla í alþjóðlegu vísindastarfi, gæðum kennslu, námsumhverfi og alþjóðlegum tengslum. Jafnframt er tekið tillit til rannsókna- og birtingarhefða á hverju fræðasviði fyrir sig.

Þetta er í annað sinn skömmum tíma sem Times Higher Education staðfestir alþjóðlegan styrk Háskóla Íslands á tilteknu fræðasviði en tímaritið birti á dögum lista yfir bestu háskóla heims í félagsvísindum og þar var Háskólinn annað árið í röð í sæti 251-300. 

Listi Times Higher Education er annar af áhrifamestu og virtustu matslistum heims á þessu sviði. Hinn er er Shanghai-listinn svokallaði en þess má geta að Háskóli Íslands komst í fyrsta sinn á hann á síðasta ári. Von er á fleiri listum frá Times Higher Education yfir fremstu háskóla heims á tilteknum fræðasviðum í nóvember, þar á meðal á sviði lífvísinda, sálfræði, læknisfræði og lýðheilsuvísinda, náttúruvísinda, verkfræði, tækni og tölvunarfræði. 

Nánari upplýsingar um lista Times Higher Education yfir bestu háskóla heims á sviði hugvísinda má finna á heimasíðu tímaritsins

Horft út frá aðalbyggingu