Skip to main content
29. október 2020

Hvers virði er sú lífsgæðaskerðing sem geðraskanir valda?

„Hingað til hefur ekki náðst með sannfærandi hætti að mæla þá velferðarskerðingu sem þunglyndi og kvíði valda einstaklingnum sjálfum, með hætti sem hægt er að nýta í hagkvæmnismælingum þar sem kostnaður og ávinningur íhlutana er borinn saman. Við teljum að með rannsókn okkar sé það gert í fyrsta skipti,“ segir Arnar Már Búason, hagfræðingur og nýdoktor við Félagsvísindastofnun Háskólans. Hann mun kynna niðurstöður athyglisverðrar rannsóknar sinnar og samstarfsfélaga á áhrifum þunglyndis og kvíða á velferð einstaklinga á Þjóðarspeglinum í Háskóla Íslands á föstudaginn kemur, 30. október.

Auk þess að meta þessi áhrif hefur rannsóknin það að markmiði að ákvarða peningalegt gildi þeirrar velferðarskerðingar sem hlýst af þessum algengu geðröskunum en slík niðurstaða getur nýst stjórnvöldum við að taka upplýstari ákvarðanir á sviði geðheilbrigðismála.

Aðspurður um ástæður þess að hann réðst í rannsóknina segir Arnar persónulegan áhuga á viðfangsefninu hafa ráðið þar för en auk hans koma þau Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor við Hagfræðideild Háskóla Íslands, Edward Norton, prófessor við Michigan-háskóla, og Paul McNamee, prófessor við Aberdeen-háskóla, að rannsókninni. Öll tilheyra þau rannsóknarhópi sem nefnist ConCIV (Consortium on Compensating Income Variation) sem nýtir aðferðir hagfræðinnar til að leggja fjárhagslegt mat á það hvers virði það er að losna undan tilteknum kvillum eða þjáningu.

Tekið tillit til tvístefnusambands geðraskana og velferðar

Arnar bendir á að fjöldi rannsókna hafi verið gerður á sviði sálfræði, hamingjurannsókna og hagfræði til að kanna áhrif geðraskana á velferð. „Eitt helsta framlag þessarar rannsóknar felst þó í því að leggja til lausn við aðferðarfræðilegu vandamáli sem rannsakendur á sviðinu hafa löngum gert sér grein fyrir en ekki haft svar við. Það er því tvístefnusambandi sem ríkir milli geðraskanana og velferðar. Ef samband þessara breyta er metið án þess að taka tillit til þessa vandamáls þá fæst aðeins mat á fylgni en ekki orsakasambandi,“ segir Arnar. 

Til þess að leysa þennan vanda nýta Arnar og samstarfsfélagar svokallaða hjálparbreytuaðferð (e. instrumental variable approach) sem gerir þeim kleift að meta orsakasambandið milli geðraskana og velferðar. Þessari aðferð beitti hópurinn á einstakt gagnasafn frá Ástralíu sem hann fann og nefnist HILDA (Household, Income and Labour Dynamics in Australia). Gagnasafnið hentar sérstaklega vel fyrir þessa rannsókn, meðal annars, vegna þess að það inniheldur svör við spurningalistum fyrir þunglyndi og kvíða yfir 18 ára tímabil, nákvæmar upplýsingar um það hverjir hafa verið greindir með geðraskanirnar og mælikvarða á velferð. 

Velferðaskerðing hvers einstaklings metin á 8,5 milljónir króna á ári

„Niðurstöður okkar sýna að sú velferðarskerðing sem á sér stað vegna þunglyndis og/eða kvíða er umtalsverð en þó mun minni en fyrri rannsóknir benda til. Okkur reiknast til að velferðarskerðingin sem hlýst af þessum geðröskunum á hvern einstakling samsvari u.þ.b. 8,5 milljónum króna á ári,“ segir Arnar og bætir við til samanburðar að fyrri niðurstöður hafi leitt í ljós að áhrifin væru margfalt meiri.

Arnar undirstrikar að þessi kostnaður bætist við þann samfélagslega kostnað sem þunglyndi og kvíði hafa í för með sér, s.s. vegna vinnutaps, heilbrigðiskostnaðar og félagslegrar aðstoðar. „Við vonum því að réttar tölur geti hjálpað stjórnvöldum að taka upplýstari ákvarðanir á sviði geðheilbrigðismála, grundvallaðar á hagkvæmnisgreiningum þar sem allur kostnaður er með talinn, bæði áþreifanlegur og óáþreifanlegur. Auk þess vonum við að rannsóknir á þessu sviði muni hér eftir taka tillit til þess tvístefnusambands sem ríkir á milli geðheilbrigðisbreyta og velferðar, til dæmis með því að nota hjálparbreytuaðferðina. Þannig hefur rannsóknin bæði beint hagnýtt gildi auk þess sem hún hefur vísindalegt gildi sem vonandi skilar sér í betri rannsóknum á sviðinu til frambúðar,“ segir Arnar.

Sem fyrr segir kynnir Arnar rannsóknina á Þjóðarspeglinum, ráðstefnu í félagsvísindum við Háskóla Íslands, á föstudaginn kemur, nánar tiltekið í málstofunni „Virði óáþreifanlegra gæða“ sem hefst kl. 15. Þar verða einnig kynntar fleiri athyglisverðar rannsóknir sem tengjast virði þess að að losna undan þjáningum eða kvillum.

Dagskrá Þjóðarspegilsins í heild sinni má finna á vef ráðstefnunnar

Arnar Már Búason