Skip to main content
14. janúar 2019

Hvernig segir maður þorrablót á frönsku? – Ný netorðabók í smíðum

""

Fyrsta ítarlega íslensk-franska orðabókin, sem litið hefur dagsins ljós í nær sjö áratugi, verður opnuð síðar á þessu ári og verður alfarið á netinu. Bókin er samstarfsverkefni Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og á m.a. nýtast bæði frönskunemum á Íslandi og þeim sem þýða þurfa úr íslensku yfir á frönsku.

Orðabókin hefur fengið nafnið LEXÍA og mun geyma geyma um 50.000 uppflettiorð ásamt fjölmörgum notkunardæmum og orðasamböndum sem öll eru þýdd á frönsku. Rósa Elín Davíðsdóttir, verkefnisstjóri frönsku við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands og ritstjóri orðabókarinnar, segir brýna þörf á nýrri orðabók sem henti notendum í nútímasamfélagi.  „Eina íslensk-franska orðabókin á markaðnum kom út árið 1950 og er löngu orðin úrelt. Einnig er til frönsk-íslensk, íslensk-frönsk vasaorðabók frá 1996 en hún getur, eins og gefur að skilja, einungis veitt takmarkaðar upplýsingar þar sem flettuorðafjöldi er lítill og ekki mikið pláss í slíkri orðabók,“ segir Rósa.

Vinna við veforðabókina hefur staðið yfir frá árinu 2015 en hún á sér þó mun lengri aðdraganda, sem nær reyndar aftur á níunda áratug 20. aldar þegar íslensk og frönsk stjórnvöld undirrituðu samkomulag um að efla tengsl landanna með bæði fransk-íslenskri orðabók og íslensk-franskri. Frönsk-íslensk orðabók kom út árið 1995 en skriður komst ekki á vinnu við hina bókina fyrr en árið 2005 innan Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Þá var ákveðið að byggja orðabókina á nýjum gagnagrunni sem verið var að vinna í tengslum við gerð ISLEX, margmála orðabókar milli íslensku og norrænu málanna á vegum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. 

Doktorsnámið nýtist vel við orðabókarvinnuna
„Ég kom að því að leggja Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum lið við að afla styrkja til verkefnisins en þá hafði ég lokið meistaragráðu í málvísindum við frönskudeild Sorbonne-háskóla. Upp úr þessu fékk ég áhuga á að vinna með orðabókarfræði í doktorsnámi mínu við Sorbonne-háskóla og Mála- og menningardeild Háskóla Íslands. Ég lauk doktorsritgerðinni um þær mundir sem verkefnið var að fara af stað árið 2015 og því má segja að ég hafi fengið tækifæri til að nýta þá þekkingu sem ég aflaði mér í námi mínu við þetta verkefni,“ segir Rósa. Hún vinnur að verkinu í nánu samstarfi við Þórdísi Úlfarsdóttur, ritstjóra hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, en stofnunin hefur yfirumsjón með verkinu, þ.m.t. kerfisstjórn og umsjón með íslenska orðabókargrunninum. Auk þeirra hefur hópur sérfræðinga í frönsku og íslensku máli komið að verkinu á síðustu árum. Verkið hefur m.a. notið stuðnings mennta- og menningarmálaráðuneytisins hér á landi og Menningarmálaráðuneytis Frakklands, sendiráða landanna tveggja, Bókmenntasjóðs Frakklands, Málræktarsjóðs og Erasmus+ áætlunar Evrópusambandsins.

Rósa segir mikla kosti fylgja því að hafa orðabókina LEXÍU á netinu. „Hægt verður að velja íslenskt eða franskt notendaviðmót og nokkra mismunandi leitarmöguleika. Þar að auki verður hægt að hlusta á framburð allra íslenskra uppflettiorða og tenglar verða í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls þar sem sýnd eru full beygingardæmi allra beygjanlegra uppflettiorða,“ bætir hún við. 

Ekki til orð á frönsku yfir systkini
Aðspurð hverjar helstu áskoranirnar séu við vinnslu orðabókarinnar nefnir Rósa að taka þurfi tillit til ólíkra þarfa notendahópa orðabókarinnar og veita þannig bæði íslenskum og frönskumælandi notendum nauðsynlegar upplýsingar. „Jafnframt er heilmikil áskorun fólgin í því að stilla tveimur tungumálum upp samhliða eins og gert er í tvímála orðabókum og reyna að finna jafnheiti á frönsku fyrir hvert og eitt uppflettiorð orðabókarinnar. Til dæmis er ekkert orð á frönsku sem samsvarar íslenska orðinu systkini og á hinn bóginn mörg orð sem koma til greina fyrir íslenska lýsingarorðið duglegur en ekkert eitt sem nær merkingunni alveg. Og hvað á að gera við orð sem ná yfir séríslensk fyrirbæri eins og t.d. þorrablót?“

Hún segir orðabókarvinnu geta verið tímafreka og oft mikla vinnu á bak við eina flettu í orðabókinni. „Það þarf til dæmis að bera saman merkingu og notkun orða í íslensku og frönsku. En þessi glíma við orðin er alltaf skemmtileg!“ segir Rósa.

Bókin mun nýtast bæði íslensku- og frönskumælandi fólki. „Annars vegar miðast hún við íslenska notendur sem leggja stund á frönskunám og þá bæði byrjendur og lengra komna og svo á hún að gagnast öllum þeim sem nota frönsku í tengslum við starf sitt og vilja finna viðeigandi orðalag á frönsku. Hins vegar á orðabókin líka að nýtast frönskumælandi notendum sem þurfa aðstoð við að skilja íslenskan texta eða við að þýða úr íslensku yfir á frönsku, hvort sem þeir eru að læra eða kenna íslensku eða vinna við þýðingar úr íslensku,“ segir hún. 

Stefnt er að því að ljúka vinnu við netorðabókina nýju á þessu ári með það fyrir augum að opna hana formlega í desember. Orðabókin verður öllum og aðgangur að henni ókeypis.

Rósa Elín Davíðsdóttir