Hvernig lítur góður skóli út? | Háskóli Íslands Skip to main content

Hvernig lítur góður skóli út?

9. janúar 2018

„Við teljum okkur hafa glögga mynd af því hvernig góður skóli lítur út. Í góðum skóla er lögð áhersla á framfarir og nám fyrir alla, nemendur og starfsmenn. Hver og einn á sinn stað í skólasamfélaginu þar sem nemendur upplifa sig velkomna alla daga,“ segir Anna Kristín Sigurðardóttir, prófessor í menntastjórnun við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, en hún vinnur að stórri rannsókn um þessar mundir í samstarfi við fjölda sérfræðinga á sviðinu.

Rannsókninni er ætlað að greina og skilja árangursríkt ferli breytinga í grunnskólastarfi og varpa ljósi á hvernig það tengist stöðu skóla sem lærdómssamfélags. „Það sem er vitað núna eftir margra áratuga rannsóknir á þessu sviði er að það eru margir samverkandi þættir sem hafa áhrif á gæði skólastarfs og þeir spila saman með mismunandi hætti eftir aðstæðum á hverjum stað,“ bætir Anna Kristín við en hún hefur sérhæft sig í þróun menntakerfa í þeim tilgangi að greina hvaða leiðir eru færar til að efla gæði skóla og menntakerfisins.

Anna Kristín hefur fengist við sitthvað innan síns rannsóknarsviðs en hún hefur einnig skoðað þróun í hönnun íslenskra skólabygginga. „Hönnun skólabygginga og manngert umhverfi í skólum er einn af þeim þáttum sem hefur mikil áhrif á daglegt skólastarf og líðan nemenda. Á seinni árum hafa rannsakendur sýnt þessu aukinn áhuga. Hönnunin mótast meðal annars af menntastefnu, áhuga skólafólks og áherslum yfirvalda hvers tíma,“ segir Anna Kristín en vandinn við skólabyggingar er oft sá að þær endurspegla ekki nútímakennsluhætti því þær eru yfirleitt í notkun í marga áratugi.

Anna Kristín Sigurðardóttir

Anna Kristín Sigurðardóttir er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands á sviði skólaþróunar og forystu í menntakerfinu. Hún er kennari að mennt með M.Ed-gráðu í sérkennslu og doktorspróf frá Háskólanum í Exeter í stjórnun menntastofnana. Anna Kristín hefur starfað víða í menntakerfinu, sem kennari, ráðgjafi og stjórnandi. Rannsóknarsvið hennar varða forystu, skólaþróun, skólann sem lærdómssamfélag, skólabyggingar og skóla án aðgreiningar.

Hún segir að merkja megi athyglisverða framvindu í íslenskum skólabyggingum á tuttugustu öldinni. „Framan af einkenndust skólabyggingar af göngum með skólastofur á aðra hönd eða báðar, samkomusal og stofum fyrir sérgreinar. Síðustu árin hafa opnir skólar með víðáttumikil kennslurými fyrir stóra og aldursblandaða nemendahópa átt auknum vinsældum að fagna. Skólasöfn og list- og verkgreinastofur eru líka orðin sýnilegri en áður. Þróunin endurspeglar aukna áherslu á sveigjanleika til að breyta og aðlagast nýjum tímum, samvinnu kennara, hópavinnu nemenda, einstaklingsmiðað nám, áhuga á samþættingu við list- og verkgreinar og læsi á breiðum grunni.“ Greiningin var hluti af umfangsmikilli könnun á starfsháttum í grunnskólum hér á landi.

Menntakerfið og skólar skiptir bæði samfélagið og einstaklinga innan þess afar miklu máli. Því ríður á að rannsaka vel það viðamikla starf sem fram fer í skólum. „Mitt hlutverk gagnvart íslensku samfélagi er að búa til merkingu úr þessum þekkingarbrunni og taka þannig þátt í að þróa íslenskt menntakerfi enn frekar,“ segir Anna Kristín að endingu.

Framsækin menntun fyrir farsælt samfélag

Fréttin er liður í myndbandsröð um rannsakendur á Menntavísindasviði sem ber yfirskriftina Framsækin menntun fyrir farsælt samfélag.

Myndböndin eru aðgengileg á YouTube-rás Menntavísindasviðs

„Við teljum okkur hafa glögga mynd af því hvernig góður skóli lítur út. Í góðum skóla er lögð áhersla á framfarir og nám fyrir alla, nemendur og starfsmenn. Hver og einn á sinn stað í skólasamfélaginu þar sem nemendur upplifa sig velkomna alla daga,“ segir Anna Kristín Sigurðardóttir, dósent í menntastjórnun við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, en hún vinnur að stórri rannsókn um þessar mundir í samstarfi við fjölda sérfræðinga á sviðinu.

Netspjall