Skip to main content
26. september 2018

Hvernig geta stjórnvöld tekið upp þráðinn að nýju í stjórnarskrármálinu?

Íslensk stjórnvöld hafa í hyggju að hefjast aftur handa við endurskoðun stjórnarskrárinnar nú í haust og virkja almenning til þátttöku með ýmsum aðferðum þátttökulýðræðis. Af þessu tilefni efnir Rannsóknasetrið EDDA við Háskóla Íslands, í samstarfi við forsætisráðuneytið og Vigdísarstofu, til ráðstefnunnar „Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð: Framtíð almenningsþátttöku“. Þar verður fjallað um helstu nýjungar í lýðræðiskenningum en sérstaklega horft til almenningsþátttöku og hlutdeildar almennings í opinberum ákvörðunum og stefnumótun. Einnig verður rætt um tilraunir til að byggja stjórnarskrárgerð á beinu samráði við almenning á Íslandi og annars staðar í heiminum á síðustu árum. Meðal þekktra fyrirlesara á ráðstefnunni eru Beth Noveck, prófessor við New York-háskóla, Lawrence Lessig, prófessor við Harvard-háskóla, og James Fishkin, prófessor við Stanford-háskóla.

Jón Ólafsson, prófessor við Hugvísindasvið Háskóla Íslands og einn skipuleggjenda ráðstefnunnar, segir að á ráðstefnunni verði litið til baka og spurt um afdrif tillögu Stjórnlagaráðs að stjórnarskrá en einnig horft fram á við og spurt hvernig íslensk stjórnvöld geti með trúverðugum hætti tekið upp þráðinn að nýju. „Stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau ætli að endurskoða stjórnarskrána í víðtæku almenningssamráði. En út á hvað gengur almenningssamráð? Hvernig er hægt að standa að því þannig að það færi vald að einhverju leyti til almennings og opni í raun og veru fyrir þátttöku fólks í að hanna ásýnd og eðli valdsins? Út á það gengur þessi ráðstefna,“ segir Jón. Horft verði á áhrif ólíkra afla samfélagsins í stjórnarskrárumbótum: Grasrótarsamtaka, félagasamtaka, stjórnmálaflokka, sérhagsmunaaðila og síðast en ekki síst fjölmiðla sem á endanum geti ráðið miklu um hvort hugmyndir lifa – eða deyja.
 
Ráðstefnan verður haldin við Háskóla Íslands dagana 27. til 29. september. Hún verður sett í fyrirlestrasal í Veröld – húsi Vigdísar kl. 9 fimmtudaginn 27. september með ávörpum Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Jóns Atla Benediktssonar háskólarektors en ráðstefnunni lýkur á borgarafundi í Nauthól í Reykjavík laugardaginn 29. september kl. 13-16.

Dagskrá ráðstefnunnar og nánari upplýsingar um borgarafundinn á laugardag er að finna á viðburðadagatali Háskóla Íslands.

Jón Ólafsson