Hverjar yrðu afleiðingar meiri háttar olíuslyss á norðurslóðum? | Háskóli Íslands Skip to main content
10. október 2019

Hverjar yrðu afleiðingar meiri háttar olíuslyss á norðurslóðum?

""

Stór hópur starfsmanna lætur til sín taka með kynningu á rannsóknum og umræðum um stöðu hina ýmsu málaflokka á norðurslóðum á hinni stóru ráðstefnu Hringborð norðurslóða (Arctic Circle Assembly) sem fer fram í Hörpu dagana 10.-12. október. Á meðal þess sem sem vísindamenn skólans fjalla um á ráðstefnunni er kerfislæg áhætta tengd olíuslysum á norðurslóðum. 

Arctic Circle ráðstefnan er nú haldin í sjöunda sinn en starfsfólk Háskóla Íslands hefur frá upphafi tekið virkan þátt í henni, m.a. með því að skipuleggja málstofur með samstarfsaðilum um afmörkuð málefni norðurskautsins og flytja erindi um rannsóknir sínar sem tengjast svæðinu, sem spanna fjölbreytt fræðasvið. Ráðstefnan er ein sú stærsta í heiminum á sviði norðurskautsmála og hana sækja yfir 2.000 manns frá yfir 50 ríkjum, bæði erlendir og innlendir stjórnmálamenn, fulltrúar félagasamtaka, fyrirtækja, háskóla, hugveita, umhverfisamtaka og frumbyggja á norðurslóðum, svo dæmi séu nefnd. 

Rannsóknarsetur um norðurslóðir við Háskóla Íslands hefur aðkomu að níu spennandi og fjölbreyttum viðburðum á Arctic Circle í ár í samstarfi við ýmsar stofnanir og fræðimenn sem koma víðs vegar að. Meðal annars verður þriggja funda sería um efnahag, menntun og pólitík á norðurslóðum. Af öðrum spennandi fundum sem setrið kemur að má nefna fundi um öryggismálefni norðurslóða, vestnorrænna samvinnu ásamt utanríkisstefnu Grænlands sem er í mótun.

Þá taka vísindamenn og nemendur skólans þátt í fjölmörgum viðburðum á ráðstefnunni sem skipulagðar eru af öðrum aðilum, bæði innan og utan Háskólans. Ein af þeim sem fjallar um rannsóknir sínar á ráðstefnunni er Lára Jóhannsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Hún tekur þátt í nokkrum málstofum, þar á meðal um áskoranir í sjálfbærnimálum hafsins á norðurslóðum. Þar ætlar hún að fjalla um kerfislæga áhættu tengda olíuslysum á hafi úti og möguleg áhrif á norðurslóðum. 

Nauðsynleg að horfa á kerfislæga áhættu

Erindið byggist á samstarfsverkefni sem nefnist Fulbright Arctic Initiative (FAI) sem Lára hefur tekið þátt í. Innan verkefnisins hefur Lára komið að vinnuhópi um sjálfbær hagkerfi en rannsóknarverkefni hennar sneri að hlutverki vátryggingarfélaga í efnahagslegri þróun á norðurskautssvæðinu, en að sögn Láru þarf að horfa bæði til tækifæra og áhættu þegar efnahagslegar aðgerðir eru metnar og framkvæmdar. „Við mat á áhættu er oftast horft til einstakra verkefna en á norðurslóðum er nauðsynlegt að horfa á áhættu frá víðara sjónarhorni, þ.e. kerfislægrar áhættu, hverjar afleiðingar hennar gætu verið og hvernig má draga úr henni,“ útskýrir Lára.
 
Í grein sem Lára og samstarfsmaður hennar, David Cook, nýdoktor við Háskóla Íslands, rituðu og birtist nýlega í vísindatímaritinu Ocean & Costal Management reyndu þau að svara því hvaða afleiðingar meiri háttar olíuslys á norðurslóðum hefði og hvert yrði hlutverk vátryggingafélaga við slíkar aðstæður. Til þess að svara spurningununum rýndu þau m.a.  í gögn um 10 stærstu olíuslys sem orðið hafa á hafi úti, en þau tengdust ýmist olíuvinnslu eða slysum við flutning á olíu. 

„Slys af kerfislægum toga þýða að tiltekin atburður setur atburðarrás í gang sem veldur neikvæðri keðjuverkun sem erfitt, eða ógerlegt, er að ráða við. Afleiðingar olíuslysanna eru margs konar en við flokkuðum þær í fimm flokka: félagslegar/menningarlegar, umhverfislegar, efnahagslegar, öryggislegar/stefnumarkandi og afleiðingar fyrir fyrirtækin, samstarfsaðila og atvinnugreinina sem slysinu tengist,“ útskýrir Lára.

Hún bætir við að þau David hafi enn fremur sett fram fimm skala módel sem útskýrir áhættu á norðurslóðum. „Áhættan snýr að sjálfsþurftarhagkerfum, þ.e. einstaklingum og/eða fjölskyldum, fyrirtækjum, atvinnugreinum, kerfislægri áhættu og svokallaðri tilvistarlegri áhætta en undir hana falla t.d. loftslagsbreytingar eða áhætta sem snýr að viðkvæmum vistkerfum norðurslóða. Viðfangsefni greinarinnar var kerfislæga áhættan. Eigi kerfislægt olíuslys sér stað á norðurslóðum getur það orsakað tilvistarlega áhættu fyrir þá sem byggja tilvist sína á sjálfsþurft,“ útskýrir Lára og undirstrikar enn fremur að efnahagsþróun sem feli í sér tækifæri fyrir hagkerfi geti jafnframt falið í sér áhættu fyrir sjálfsþurftarhagkerfi norðurslóða og þá íbúa sem innan slíkra hagkerfa lifa og starfa.

Fimm skala módel yfir áhættu á norðurslóðum.  „Áhættan snýr að sjálfsþurftarhagkerfum, þ.e. einstaklingum og/eða fjölskyldum, fyrirtækjum, atvinnugreinum, kerfislægri áhættu og svokallaðri tilvistarlegri áhætta en undir hana falla t.d. loftslagsbreytingar eða áhætta sem snýr að viðkvæmum vistkerfum norðurslóða. Viðfangsefni greinarinnar var kerfislæga áhættan. Eigi kerfislægt olíuslys sér stað á norðurslóðum getur það orsakað tilvistarlega áhættu fyrir þá sem byggja tilvist sína á sjálfsþurft.“

Vátryggingageirinn farinn að viðurkenna kerfislega áhættu

Lára og David benda enn fremur á að þrátt fyrir að vátryggingafélög séu mikilvæg fyrir efnahagslega þróun og seiglu samfélaga þá hafi takmarkaðar upplýsingar verið aðgengilegar um það hver aðkoma þeirra er að því að bæta fyrir skaða sem kerfislæg olíuslys valda. „Þó má segja að vátryggingageirinn sé farinn að viðurkenna mikilvægi kerfislegrar áhættu og að hún sé ekki eingöngu efnahagslegs eðlis. Það að átta sig á kerfislægri áhættu er fyrsta skrefið til að finna lausnir og draga úr áhættu þegar efnahagslegt tækifæri eru til skoðunar,“ segir hún enn fremur.

Aðspurð hvaða þýðingu það hafi fyrir hana að taka þátt í Arctic Circle bendir Lára að það skipti hana máli bæði sem kennari og fræðimaður. „Kennarar frá Háskólanum fara á árlega á ráðstefnuna með stóran hóp nemenda, nú yfir 90 manns sem skráðir eru í námskeið tengt ráðstefnunni. Þar fræðast nemendur um mikilvægi norðurslóða, ólíka sýn hagsmunaaðila á framtíð og þróun svæðisins, t.d. stjórnmálamanna, fræðimanna, frumbyggja, viðskiptafólks, umhverfisvendarfólks og fleiri aðila. Þá heyra þau af mikilvægi svæðisins fyrir heimsbyggðina alla. Fyrir mig sem fræðimann er mikilvægt að geta rætt um eigin rannsóknir sem tengjast norðuskautssvæðinu, fá endurgjöf, heyra áhugaverð erindi um þetta málefni og hlusta á ólík sjónarmið, hitta aðra ráðstefnugesti og koma á tengslum,“ segir Lára enn fremur.

Lára Jóhannsdóttir