Skip to main content
16. nóvember 2020

Hverjar eru afleiðingar heilahristings hjá íþróttakonum?

""

„Markmið rannsóknarinnar er að meta algengi hormónatruflunar vegna heiladingulsbilunar eftir heilaáverka hjá íþróttakonum sem hafa fengið einn eða fleiri heilahristinga. Vanstarfsemi í heiladingli er ein möguleg afleiðing heilahristings sem hefur fengið síaukna athygli.“ 

Þetta segir Lára Ósk Eggertsdóttir Claessen, doktorsnemi við Læknadeild Háskóla Íslands. Hún hefur bent á að heilahristingur vegna íþróttaiðkunar sé mun algengari hérlendis en margir ætli en áhugi Láru Óskar er fyrst og fremst á sviði heilaáverka og hvernig hjálpa megi fólki að ná sér að fullu eftir slíka áverka. Lára Ósk bendir á að fólk fái ekki bara heilahristing við höfuðhögg því hann geti verið afleiðing af þungu höggi á líkamann. Ekki eru til nákvæmar skráningar yfir alla þá einstaklinga sem hljóta höfuðáverka hér á landi að sögn Láru Óskar, en ef hliðsjón er höfð af tölum frá Bandaríkjunum megi ætla að á áru hverju fái á bilinu 1.600 til 3.800 einstaklingar heilahristing hérlendis við íþrótta- og tómstundaiðkun. Líklega eru höfuðáverkar þó enn algengari þar sem allir þeir sem fá heilahristing leita ekki til læknis. 
 
„Vitað er að einkenni vanstarfsemi í heiladingli geta verið óljós og líkst einkennum heilahristings og því er talið að þetta sé vangreint. Vonast er að rannsóknin leiði í ljós forspárþætti sem segi til um hvaða einstaklinga þurfi að skoða m.t.t. vanstarfsemi á heiladingli eftir heilahristing.“

Lára Ósk segir að einnig standi til að skoða tengsl vanstarfsemi í heiladingli við niðurstöður sálfræði- og taugasálfræðilegra prófa sem lögð voru fyrir þátttakendur. 

Lítið vitað um heilaáverka

Áhugi Láru Óskar á heilaáverkum kviknaði þegar hún var á sjötta ári í læknanámi og sat fyrirlestra hjá Guðbjörgu Ludvigsdóttur endurhæfingarlækni. „Hún vakti áhuga minn á viðfangsefninu og hversu lítið væri í raun vitað heilaáverka.“ 

Niðurstöður rannsóknarinnar liggja ekki endanlega fyrir að sögn Láru Óskar en verið er að skoða hormónastarfsemi þátttakenda með blóðprufum og ákveðnum sértækum hormónaprófum.

„Vísindalegt gildi verkefnisins er m.a. að litlar sem engar rannsóknir hafa verið gerðar á heiladingulsstarfsemi íþróttakvenna sem hafa hlotið heilahristing. Rannsóknin hefur einnig gildi fyrir samfélagið í heild sinni þar sem heilahristingur á sér einnig stað í daglegu lífi og getur valdið langvarandi einkennum. Sum þessara einkenna gætu bent til undirliggjandi hormónaskorts sem hægt væri að meðhöndla og auka þar með færni og lífsgæði.“

Leiðbeinandi Láru Óskar er Helga Ágústa Sigurjónsdóttir, klínískur prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands og innkirtlalæknir á Landspítala. Lára Ósk segir að rannsóknin sé unnin í samstarfi við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík undir handleiðslu þeirra Maríu Kristínar Jónsdóttur, klínísks taugasálfræðings og  dósents, og Hafrúnar Kristjánsdóttur sálfræðings, lektors og deildarforseta íþróttafræðideildar HR.

Lára Ósk Eggertsdóttir Claessen