Skip to main content
3. maí 2022

Hver er arfleifð og alþjóðleg áhrif Kvennafrídagsins?

Hver er arfleifð og alþjóðleg áhrif Kvennafrídagsins? - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Í ljósi þess að Ísland hefur síðastliðinn áratug trónað á toppi alþjóðlegra samanburðarlista um kynjajafnrétti hafa sjónir beinst að Íslandi sem eins konar fyrirmynd í þeim málaflokki, en fræðafólk hérlendis hefur þó gagnrýnt þá glansmynd sem dregin hefur verið upp af þróun mála. Í því sambandi skoða ég arfleið Kvennafrídagsins frá gagnrýnu sjónarhorni á ríkjandi frásögn um sigurgöngu jafnréttismála á Íslandi,“ segir Valgerður Pálmadóttir, nýdoktor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hún rýnir í sögulega arfleifð Kvennafrídagsins 1975 og þau áhrif sem hann hefur haft og hefur enn þann dag í dag á alþjóðavettvangi. 

Kvennafrídagurinn 24. október 1975 er um margt merkilegur en þá lögðu konur um allt land niður störf til þess að undirstrika kröfu sína um jafna stöðu og kjör á við karla í landinu. Valgerður segir að Rauðsokkahreyfingin hafi verið aðalsprautan á bak við hugmyndina að Kvennafríinu en hreyfingin hafði þá nýverið tekið upp yfirlýsta stefnu um að kvennabarátta og stéttabarátta væru bundnar órjúfanlegum tengslum. „Að auki var formleg ákvörðun um að hefja undirbúning kvennaverkfalls á kvennaári Sameinuðu Þjóðanna 1975 tekin á láglaunaráðstefnu kvenna sem haldin var í samstarfi við stærstu verkakvennafélög landsins. Þessir hópar fengu síðan fulltrúa allra helstu kvennasamtaka landins til að sameinast um hugmyndina um að konur legðu niður störf í einn dag til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna. Lendingin varð þó sú að kalla aðgerðirnar „frí“ en ekki verkfall með það að markmiði að ná sem breiðastri samstöðu og þátttöku þvert á stjórnmálaskoðanir. Það mætti segja að með því hafi broddurinn verið tekinn úr aðgerðunum en á sama tíma liggur einn helsti árangur eða sigur kvennaverkfallsins í hinni víðtæku þátttöku,“ segir hún. 

Talið er að um 25.000 konur hafi komið saman á útifundi í miðbæ Reykjavíkur á Kvennafrídeginum sem gerir hann að einum fjölmennustu mótmælum Íslandssögunnar en víðar um land voru haldnir sams konar fundir. Framtakið vakti heimsathygli og bendir Valgerður á að á íslenskum vettvangi sé stundum talað um Kvennafrídaginn sem vatnaskil í þróun jafnréttismála og „velgengni“ Íslands í þeim málaflokki. „Sem dæmi má nefna að Vigdís Finnbogadóttir hefur bæði í ræðu og riti, á íslenskum og erlendum vettvangi, nefnt Kvennafrídaginn sem mikilvægan jarðveg fyrir kosningu sína í embætti forseta árið 1980 og á hún eflaust sinn þátt í þeirri athygli sem hann hefur fengið,“ segir Valgerður enn fremur.

Kvennafrídagurinn innblástur alþjóðlegrar hreyfingar kvennaverkfalla

Hróður Kvennafrídagsins hefur borist víða og hefur að sögn Valgerðar veitt kvennahreyfingum víða um heim innblástur allt frá árinu 1975, þar á meðal í nýrri alþjóðlegri hreyfingu um kvennaverkföll sem eru m.a. kveikjan að rannsókn Valgerðar. „Verkföllin fóru af stað árið 2017 undir nafninu International Women‘s Strike og hafa verið endurtekin árlega 8. mars, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Þessi hreyfing fór af stað í kjölfar þess að konur í Póllandi og síðar í Argentínu lögðu niður vinnu í einn dag haustið 2016 til að mótmæla yfirvofandi lagabreytingum um takmarkanir á réttinum til meðgöngurofs og kynbundnu ofbeldi í víðu samhengi. Bæði í Póllandi og víðar voru Kvennafrísaðgerðinar á Íslandi nefndar sem mikilvæg fyrirmynd og hvatning fyrir þeirra mótmæli,“ segir Valgerður.

Hún bendir enn fremur á að forsprakkar þessarar nýju bylgju kvennaverkfallshreyfinga hafni áherslum frjálslynds femínisma sem þeir telja hafa verið ráðandi síðustu áratugi. „Hann hafi byggt á einstaklingshyggju og einblínt um of á að brjóta glerþök innan ríkjandi kerfis. Talsfólk þessarar nýju hreyfingar segist vilja endurvekja femínisma fyrir 99% kvenna og blása nýju lífi í umræðu um efnahagsleg misrétti, kerfisbundna vanvirðingu á hefðbundnum kvennastörfum og stéttaskiptingu sem einkennist af rasisma. Að einhverju leyti má því segja að róttækir straumar kvenfrelsishreyfinga 8. áratugarins hafi gengið í endurnýjun lífdaga,“ útskýrir Valgerður.

Þannig haldi arfleifð Kvennafrídagsins áfram að vekja baráttuhug víða um heim og veita hugmyndinni um breiðan samtakamátt til samfélagsbreytinga sögulega birtingarmynd. „Þessi hluti rannsóknar minnar tengist áhuga mínum á þætti frásagna, tákna og tilfinninga sem drifkrafts fyrir pólitískar hreyfingar,“ segir Valgerður sem hefur breiðan bakgrunn í heimspeki, kynjafræði og hugmyndasögu. „Pólitísk hugmyndasaga myndar þó líklega rauðan þráð í flestu því sem ég tek mér fyrir hendur í fræðunum. Ég hef mikinn áhuga á félagslegum hreyfingum, stefnumálum þeirra, orðræðu og sögulegu samhengi. Annað áhugamál hjá mér er femínísk heimspeki. Ég hef til dæmis verið í forsvari fyrir námshóp um femíníska heimspeki á vegum Norræna sumarháskólans. Ég tel að það sé mikil gróska í bæði kynjafræði og femínískri heimspeki og að þessar greinar eigi mikið erindi við samtímann,“ segir Valgerður enn fremur. 

„Þrátt fyrir að aðgerðirnar hafi vakið marga til umhugsunar áttu til að mynda fyrstu jafnréttislögin, sem samþykkt voru 1976, sér lengri aðdraganda, launamunur kynjanna dregst mjög hægt saman og hefðbundin kvennastörf eru enn, tæpri hálfri öld eftir aðgerðirnar, illa metin,“ segir Valgerður. 

Rýnir í skjöl og fjölmiðlaumfjöllun um Kvennafrídaginn

Við rannsóknina rýnir Valgerður í sögulegar heimildir, birta texta, óbirt bréf og fundargerðir. „Ég fer í saumana á hugtakanotkun og beiti orðræðugreiningu og túlkun út frá sögulegu samhengi. Mikið er til af skjölum og heimildum frá íslenskum kvennahreyfingum og eru þau aðgengileg á Kvennasögusafni Íslands. Þá snýr hluti verkefnisins að greiningu á fjölmiðlaumfjöllun um Kvennafrídaginn bæði í íslenskum og erlendum fjölmiðlum. Skjalasöfnum fjölmiðla á Norðurlöndunum hefur að mestu leyti verið komið á stafrænt form og býður það upp á mikla möguleika fyrir rannsakendur,“ útskýrir Valgerður.

Valgerður vinnur að fræðigreinum um málið í samstarfi við fræðafólk á hennar sviði á Norðurlöndunum. „Ásamt samstarfskonu minni frá Finnlandi er ég t.d. að skoða hvernig fjallað var um Kvennafrídaginn í fjölmiðlum á Norðurlöndunum. Þar að auki er ég að vinna með tveimur samstarfskonum frá Svíþjóð þar sem við berum saman kvennafrísaðgerðirnar á Íslandi 1975 og verkfall „þvottakvenna“ í Svíþjóð veturinn 1974-75. Það var jafnan nefnt kvennaverkfall og vakti gríðarlega athygli og samstöðu, bæði frá körlum í verkalýðssétt og kvenfrelsishreyfingum.“ 

karlogkona

Enn tekist á um pólitíska merkingu Kvennafrídagsins

Aðspurð um niðurstöður greiningarvinnu sinnar segir Valgerður að rannsókn hennar styðji þá tilgátu að spenna hafi ríkt um pólitíska merkingu Kvennafrídagsins allt frá upphafi og að sú merkingarbarátta lifi góðu lífi í dag. „Leitast var við að ná sem mestri pólitískri breidd og samstöðu þvert á þjóðfélagsstöðu sem gerði að verkum að aðgerðirnar reyndust hugmyndafræðilega opnar, jafnvel óljósar, en það er að öllum líkindum ein ástæðan fyrir hinni miklu þátttöku. Hafa ber í huga að meirihluti þeirra félaga sem stóðu að baki deginum voru hvorki femínísk né sérstaklega samfélagslega róttæk. Þannig mætti segja að hver og einn hafi gefið aðgerðunum þá merkingu sem hentaði eigin hugmyndafræðilega sjónarhorni eða afstöðu,“ útskýrir Valgerður.
 
Þegar kemur að alþjóðlegu áhrifunum bendir Valgerður á að sú breiða og mikla þátttaka sem einkennt hafi Kvennafrísaðgerðirnar hafi tvímælalaust haft þau áhrif að þær hafi orðið að víðfrægu tákni fyrir möguleikann á að koma af stað samfélagbreytingum í krafti fjöldasamstöðu. „Ég tel að áframhaldandi áhugi erlendra kvennahreyfinga á Kvennafrísaðgerðunum felist í því að spurningar um launamun kynjanna, vanmat á vinnuframlagi kvenna og hversu vanmetin hefðbundin kvennastörf eru eigi enn mikið erindi,“ segir hún enn fremur.

Erfitt að meta beinar afleiðingar Kvennafrísins

Valgerður segir hins vegar að erfitt sé að meta beinar afleiðingar af Kvennafríinu á Íslandi. „Þrátt fyrir að aðgerðirnar hafi vakið marga til umhugsunar áttu til að mynda fyrstu jafnréttislögin, sem samþykkt voru 1976, sér lengri aðdraganda, launamunur kynjanna dregst mjög hægt saman og hefðbundin kvennastörf eru enn, tæpri hálfri öld eftir aðgerðirnar, illa metin. Ekki má heldur gleyma stéttavíddinni því markaðsvæðing ýmissa starfa sem áður voru ólaunuð og unnin af konum úr öllum stéttum hefur gert það að verkum millistéttarfólk hefur getað keypt sig frá þessum störfum en í dag eru þau að stórum hluta unnin af konum úr lægri stéttum og konum af erlendum uppruna,“ segir Valgerður. 

Aðspurð um þýðingu rannsóknanna fyrir samfélagið segist Valgerður telja það afar mikilvægt að skoða hvers konar hugmyndafræði og greina orðræðu og hugmyndir félagslegra hreyfinga í sögulegu tilliti og bera saman við ráðandi pólitíska orðræður samtímans. „Enn fremur er mikilvægt að þróa fræðilegar nálganir á þær samfélagsbyltingar sem eiga sér stað í samfélagi okkar í dag og staðsetja þær í víðara samhengi, bæði sögulegu og alþjóðlegu,“ segir hún að lokum.

Valgerður Pálmadóttir,