Hvaða máli skipta háskólar fyrir íslenskt samfélag? | Háskóli Íslands Skip to main content

Hvaða máli skipta háskólar fyrir íslenskt samfélag?

5. september 2018

Hvernig geta háskólar stutt við aðlögun íslenskrar menningar og tungumáls að hröðum tæknibreytingum samtímans og viðhaldið þannig menningarlegu fullveldi þjóðarinnar? Hvaða hlutverki hafa stofnanir á borð við Háskóla Íslands gegnt við að efla íslenskt atvinnulíf og tryggja samkeppnishæfni landsins í framtíðinni? Mun háskólanám færast frá staðbundnum stofnunum yfir í alþjóðleg stórfyrirtæki sem reka háskólakennsluna að mestu í fjarnámi? Fengist verður við þessar og fleiri spurningar á ráðstefnu sem Háskóli Íslands stendur fyrir í tilefni aldarafmælis fullveldis Íslands dagana 7.-8. september.

Streymt verður frá ráðstefnunni báða dagana

Upptaka frá fyrri hluta ráðstefnunnar - 7. september

Markmið ráðstefnunnar er að varpa ljósi á það hvernig menntun og rannsóknir hafa áhrif á þróun samfélaga og þá ekki síst hvernig unnt er að beita menntakerfi og vísindastarfi til að búa í haginn fyrir áframhaldandi efnahagslega velsæld og farsælt samfélag og styrkja þar með fullvalda lýðræðisríki á Íslandi á 21. öld.

Ráðstefnan er tvískipt.

Föstudaginn 7. september kl. 15-17 verður umræðufundur í Hátíðasal Aðalbyggingar þar sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og fræðimennirnir Beverly Oliver, prófessor við Deakin University í Ástralíu og sérfræðingur í stafrænu námi og kennslu, og Talbot Brewer, prófessor við University of Virginia í Bandaríkjunum og sérfræðingur í siðfræði og stjórnmálaheimspeki, ræða framtíð háskólastarfs. Sá hluti ráðstefnunnar fer fram á íslensku og ensku.

Laugardaginn 8. september kl. 9.30-15.30 verður boðið upp á fjórar málstofur í fundarsal Veraldar – húss Vigdísar þar sem fjallað verður um háskóla á gagnrýnin hátt en ætlunin er að draga fram bæði þátt háskóla í að móta samfélagið með kennslu og rannsóknum. Þátttakendur koma af öllum fimm fræðasviðum Háskóla Íslands og úr hópi stúdenta. Þessi hluti ráðstefnunnar fer fram á íslensku.

Í málstofunum verður m.a. leitað svara við ofangreindum spurningum en einnig varpað ljósi á það hvaða hlutverki Háskóli Íslands gegndi við stofnun fullvalda ríkis á Íslandi, hvernig háskólar geta stuðlað að auknu jafnrétti í samfélaginu og gert þannig sem flestum borgurum landsins kleift að taka virkan þátt, hvaða áhrif „fjórða iðnbyltingin“ mun hafa á starfsemi háskóla og hvernig háskólar – og menntakerfið í heild – geta stuðlað að fjölbreyttri og öflugri nýsköpun í samfélaginu.

Nánari dagskrá ráðstefnunnar er að finna á vef Háskólans.

Ráðstefnan er öllum opin öllum og aðgangur ókeypis.

Hún er liður í hátíðahöldum vegna aldarafmælis fullveldis Íslands.

úr Aðalbyggingu