Skip to main content
8. apríl 2020

Hvað gera söfn á tímum COVID-19?

„COVID-19-faraldurinn hefur ekki látið neinn ósnertan og breytt bæði hugsun og hegðun fólks úti um allan heim. Eitt af því sem gerst hefur er að almannastofnunum, eins og söfnum, hefur verið lokað og þar með sett starfsemi þeirra í uppnám. Það hefur gerst hér á landi og víða erlendis. Þetta hefur kallað á að söfn endurmeti stöðuna,“ segir Sigurjón Baldur Hafsteinsson, prófessor í safnafræði við Háskóla Íslands. 

Hann hefur ásamt samtarfsfólki sínu brugðist við ástandinu og boðið starfsfólki safna til netfunda til að ræða ástandið og veita ráð á þessum óvenjulegu tímum. „Kennarar í safnafræði við Háskóla Íslands eru í góðum tengslum við söfn víða um land og fylgjast vel með því sem þar er að gerast. Til að takast á við þetta fordæmalausa ástand datt okkur í hug að leggjast á árarnar með starfsfólki safna og efna til netfunda (e. Webinar) þar sem sem rætt væri á óformlegan hátt um ástandið eins og það blasir við starfsfólki safna.“

Tveir fundir hafa þegar farið fram. „Á fyrsta fundinum var rætt um úrræði sem söfn hafa og geta gripið til á þessum tíma. Á fundinum þar á eftir var rætt um áskoranir sem söfn standa frammi fyrir þegar kemur að möguleikum á að byggja upp safnkost sinn um þessa tíma, áhrif þess á líf fólks og samfélag,“ bendir Sigurjón á.

Hann segir ástandið mjög áhugavert í fræðilegu tilliti enda reyni mjög á helsta hlutverk safna, að þjóna gestum sínum og samfélagi, þegar allt er lokað og læst. „Þó að söfnum hafi verið lokað er starfsfólk safna að störfum bæði á söfnunum sjálfum og í fjarvinnu heima við,“ bendir Sigurjón á og bætir við: „Áherslan í störfunum hefur að miklu leyti færst yfir á vinnu með stafræna tækni og má skipta viðbrögðum þeirra í tvennt. Annars vegar hafa þau verið að nýta þann efnivið sem þegar er til, s.s. yfirgripsmiklar heimildir sem hægt er að finna í menningarlega gagnagrunninum Sarpi og miðlað þeim til fólks í gegnum netsíður safna og á samfélagsmiðlum. Hins vegar hafa söfnin sýnt mikla hugkvæmni í að búa til nýtt efni og deilt því með rafrænum hætti til fólks.“ 

„Á fyrsta fundinum var rætt um úrræði sem söfn hafa og geta gripið til á þessum tíma. Á fundinum þar á eftir var rætt um áskoranir sem söfn standa frammi fyrir þegar kemur að möguleikum á að byggja upp safnkost sinn um þessa tíma, áhrif þess á líf fólks og samfélag,“ bendir Sigurjón á.

Sjálfur tók Sigurjón saman punkta um viðbrögð safna, hvað þau geta þýtt fyrir þau til framtíðar litið og með hvaða hætti þau geti áorkað með samstilltu átaki. Punktana er hægt að nálgast á vefsíðu Félags íslenskra safna og safnmanna - FÍSOS. „Þar held ég því fram að þó að ástandið sé ömurlegt þá má sjá ljósa punkta í stöðunni,“ segir Sigurjón.

Aðspurður segir Sigurjón að netfundirnir hafi verið vel sóttir og starfsfólk safna ánægt með þá. „Á fundunum sjálfum hafa komið fram góðar ábendingar fyrir söfn og starfsfólk þeirra að vinna með. Það er augljóst að mikil samhugur er í fólki og það reiðubúið í að eiga í góðum samræðum og deila af reynslu sinni öðrum til gagns,“ segir hann fremur.

Sigurjón undirstrikar að framtakið hefði ekki orðið að veruleika nema með góðri hjálp Upplýsingatæknisviðs Háskólans. „Þau tóku strax vel í að gera okkur mögulegt að efna til þessara funda. Við stefnum á að hafa þá fleiri en við lítum meðal annars svo á að með framtakinu sé Háskóli Íslands að rækja skyldu sína sem þjóðskóli og sem slíkur ber hann ábyrgð á að sú þekking sem þar er til staðar sé virkjuð og til gagns. Það á ekki síst við á víðsjárverðum tímum eins og þeim sem við erum nú að ganga í gegnum,“ segir Sigurjón að endingu.

Sigurjón Baldur Hafsteinsson