Hús íslenskunnar gjörbreytir aðstöðu til kennslu og rannsókna í íslensku | Háskóli Íslands Skip to main content
30. ágúst 2019

Hús íslenskunnar gjörbreytir aðstöðu til kennslu og rannsókna í íslensku

„Hús íslenskunnar mun gjörbreyta aðstöðu til kennslu og rannsókna í íslensku við Hugvísindasvið Háskóla Íslands, bæði með sterkari tengingum við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og aðrar greinar við Háskóla Íslands. Samstarfið við Stofnun Árna Magnússonar á sér auðvitað langa sögu, en með flutningi Árnastofnunar allrar undir eitt þak mun samstarfið á milli stofnunarinnar og HÍ styrkjast enn frekar. Þar má m.a. nefna átak í þróun íslenskrar máltækni sem nú er verið að hrinda úr vör, en Háskóli Íslands og Stofnun Árna Magnússonar gegna þar lykilhlutverki,“ segir Guðmundur Hálfdánarson, forseti Hugvísindasviðs, um byggingu Húss íslenskunnar. Framkvæmdir við húsið eru hafnar vestan Suðurgötu og í dag skrifuðu Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins, og Karl Andreassen, forstjóri Ístaks, formlega undir samning um framkvæmdina á byggingastað hússins.

Í Húsi íslenskunnar verður fjölbreytt starfsemi Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þar verða sérhönnuð rými s.s. fyrir varðveislu, rannsóknir og sýningu á fornum íslenskum skinnhandritum, vinnustofur kennara og fræðimanna, lesrými fyrir háskólanema, fyrirlestra- og kennslusalir, skrifstofur og bókasafn. Á undanförnum árum hefur ekki verið unnt að hafa opnar sýningar á handritum sem varðveitt eru hjá Stofnun Árna Magnússonar en með tilkomu hússins verður bylting í aðstöðu stofnunarinnar til að varðveita, rannsaka og miðla menningararfi þeim sem handritin geyma.  

„Íslensk tunga er undirstaða og fjöregg íslenskrar menningar, við viljum sýna henni og menningararfinum sóma. Hús íslenskunnar mun þjóna fjölbreyttum tilgangi og verður um leið mjög táknræn bygging fyrir mikilvægi tungumálsins fyrir okkur öll,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, „handritin eru einar merkustu gersemar þjóðarinnar og geyma sagnaarf sem er bæði dýrmætur fyrir okkur og hluti af bókmenntasögu heimsins.“

Nemendur og fræðimenn í íslenskum fræðum verða með tilkomu hússins í fyrsta sinn undir sama þaki og helstu rannsóknargögn um þróun og sögu tungumálsins. Þannig myndar húsið umgjörð utan um þjóðararf Íslendinga og skapar aðstæður til að efla þekkingu og þróun á tungumálinu. Þá er húsinu ætlað að vera miðstöð fólks sem miðlar menningararfinum til komandi kynslóða.

„Hús íslenskunnar mun gjörbreyta aðstöðu til kennslu og rannsókna í íslensku við Hugvísindasvið Háskóla Íslands, bæði með sterkari tengingum við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og aðrar greinar við Háskóla Íslands. Samstarfið við Stofnun Árna Magnússonar á sér auðvitað langa sögu, en með flutningi Árnastofnunar allrar undi eitt þak mun styrkja það enn frekar. Þar má m.a. nefna átak í þróun íslenskrar máltækni sem nú er verið að hrinda úr vör, en Háskóli Íslands og Stofnun Árna Magnússonar gegna þar lykilhlutverki,“ segir Guðmundur Hálfdánarson, forseti Hugvísindasviðs, um byggingu Húss íslenskunnar. MYND/Gunnar Sverrisson

Hefur gríðarlega þýðingu fyrir Háskóla Íslands

„Húsið hefur gríðarlega þýðingu fyrir Háskóla Íslands. Við höfum beðið lengi eftir því að fá sérstakt hús fyrir íslensku sem er vitaskuld ein af okkar höfuðgreinum. Háskóli Íslands er með þriðjung hússins og þessi nýja aðstaða verður bylting fyrir þessa næststærstu deild skólans. Ég fagna þessu mjög,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Hús íslenskunnar verður á þremur hæðum auk kjallara undir hluta hússins og opins bílakjallara. Byggingin er sporöskjulaga og er formið brotið upp með útskotum og inngörðum. Gönguleið verður milli Háskóla Íslands og Þjóðarbókhlöðu í gegnum bygginguna. 

„Flutningur íslenskunnar við Háskóla Íslands í nýtt hús við hlið Veraldar – húss Vigdísar mun búa til nýjan og öflugan ás fyrir kennslu og rannsóknir á sviðum tungumála og menningar við Háskóla Íslands. Það er ekki síður ánægjulegt að sjá hvernig landfræðileg afmörkun eininga Háskólans er smám saman að leysast upp því að lengi virtist sem Suðugatan myndaði ókleifan múr á milli náttúru- og hugvísinda við Háskóla Íslands. Með Húsi íslenskunnar og Veröld hafa hugvísindin unnið sér land handan Suðurgötunnar á meðan Verkfræði- og náttúruvísindasvið er að hreiðra um sig í Vatnsmýrinni – og síðan hittumst við öll á Háskólatorgi,“ segir Guðmundur Hálfdánarson enn fremur.

Ráðgert er að bílakjallari hússins verði risinn fyrir lok nóvember 2019 og að uppsteypu fyrstu hæðar ljúki um mitt ár 2020. Reiknað er með að húsið verði fokhelt í byrjun árs 2021 og að framkvæmdum ljúki í sumarlok 2023. Heildarkostnaður við framkvæmdina er áætlaður 6,2 milljarðar kr. Ríkissjóður mun fjármagna um tvo þriðju af heildarkostnaði og Háskóli Íslands um þriðjung með sjálfsaflafé.

Framkvæmdasýsla ríkisins hefur umsjón með byggingu hússins, Ístak er aðalverktaki þess og verkfræðistofan Efla hefur með höndum framkvæmdaeftirlit og byggingastjórn. Aðalhönnuðir byggingarinnar eru Hornsteinar arkitektar ehf. 

Jón Atli Benediktsson, Lilja Alfreðsdóttir og Guðrún Nordal undirrita samning
""